12.11.1980
Neðri deild: 15. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í B-deild Alþingistíðinda. (512)

73. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Það er rétt með hálfum huga að ég hætti mér í stólinn að ræða við svo vísa menn eins og hv. þm. Halldór Blöndal, sem greinilega elskar alla. Hann er einn þeirra, sem hafa mest haldið því á loft að það þurfi að tryggja öllum sparifjáreigindum fulla vexti í takt við verðbólguna, og talar svo hinn daginn um að útlánsvextir séu allt of háir. Þetta er fulltrúi þess flokks í hv. Alþ. sem mest berst fyrir því að lögmálið um framboð og eftirspurn ráði hér öllu. Peningar eru vara, ef má orða það þannig, sem mikil eftirspurn er eftir í landinu. Hann er með þessu frv. að leggja til að peningar verði stórgreiddir niður þannig að skuldakóngar landsins geti keypt peninga í stórum stíl á útsöluprís. Ef raunveruleg ást á launþegum ræður því sem hv. þm. Halldór Blöndal er að segja hér, þá eru það nokkuð einkennilegir launþegar í mínum augum sem geta greitt 8 millj. á ári í vexti. Það eru a.m.k. ekki almennir launþegar sem gera það.

Ég hef ævinlega verið þeirrar skoðunar, að vaxtafrádráttur til skatta almennt sé röng stefna. Það væri svo sem alveg eftir hv. þm. Halldóri Blöndal og öðrum slíkum að prédika að ég sé á móti ungu fólki í landinu sem er að koma yfir sig húsnæði o.s.frv., o.s.frv. En mér er alveg sama. Ég er ekkert hræddur við þá kjósendur frekar en aðra. Það er að mínum dómi rangt að vera að greiða niður peninga, og vitlausast er það þegar það er gert í verðbólguástandi eins og nú er í þjóðfélaginu.

Þeir, sem eru að koma yfir sig húsnæði í fyrsta skipti, unga fólkið, gætu fengið aðstoð við það með allt öðrum hætti og ef allur vaxtafrádráttur yrði tekinn út þannig að menn hefðu engan, ekki einu sinni 1500 þús. kr. vaxtafrádráttarheimild, þaðan af síður 8 millj., — ef það er gersamlega tekið út þyrftu skattstofurnar ekki að vera að eyða miklum tíma og tilkostnaði í að skilja á milli vaxta, ef ættu að vera breytilegar aðferðir við það. Einfaldast er auðvitað að fella niður gersamlega heimild til að draga vexti frá skattskyldum tekjum. Aðstoðin við þá, sem eru að koma yfir sig húsnæði í fyrsta skipti, gæti verið með allt öðrum hætti og ætti að vera það. Þá væri sama reglan látin gilda um alla, að þeir fengju aðstoð við að byggja yfir sig, eignast íbúð eða hús í eitt skipti á ævinni. Þá hefðu allir nákvæmlega jafna stöðu í þeim efnum og þyrfti ekkert að vera að rugla þessu almennt saman við vaxtakostnað í þjóðfélaginu.

Herra forseti. Það væri vissulega ástæða til þess að einhver tæki sig fram um að svara hv. þm. Halldóri Blöndal í hans almennu efnahagsmálavangaveltum, sem hann kemur hér með í hvert einasta skipti sem hann talar um hvað sem er, en ég ætla ekki að gera það núna. Ég vil hins vegar leggja áherslu á að niðurgreiðsla peninga með þessum hætti, sem tíðkuð hefur verið hér í þjóðfélaginu lengi, ýtir undir að menn safni skuldum. Þjóðfélagið hefur sem sagt verið að styðja við þá hugsun að verðlauna þá sem skulda, en hegna þeim sem ekki safna skuldum. Ef á að aðstoða ungt fólk eða aðra sem eru að koma yfir sig húsnæði, sem menn gera venjulega ekki nema einu sinni á ævinni, á að gera það með allt öðrum hætti en að leyfa skattafrádrátt. Ég hefði því lagt til að í stað þess að hækka skyldi fella niður allan vaxtafrádrátt, en leysa vandann með öðrum hætti.