21.05.1981
Neðri deild: 104. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4840 í B-deild Alþingistíðinda. (5122)

320. mál, raforkuver

Frsm. minni hl. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Vesturl., sem mælti hér fyrir áliti meiri hl. iðnn., lauk máli sínu á þann veg að segja að með þessu frv. væri mörkuð stórhuga og raunhæf stefna í orkumálum Ís!endinga. Hér er vissulega um mikið öfugmæli að ræða, eins og allir sjá sem kynna sér þetta frv., og ekki tekur betra við þegar skoðaðar eru þær brtt. sem nú hafa verið lagðar fram við það frv. sem hér er til umr.

Við 1. umr. þessa máls flutti ég allítarlega ræðu þar sem ég gerði grein fyrir skoðunum og stefnumálum sjálfstæðismanna í orku- og iðnaðarmálum. Ég gerði þá ítarlega grein fyrir því frv. sem þm. Sjálfstfl. hafa flutt í Ed. um raforkuver, en það frv. er stutt af öllum þm. flokksins, bæði í Ed. og Nd., nema þeim sjálfstæðismönnum sem í ráðherrastólum sitja. Ég gerði þar ítarlegan samanburð á því frv., sem hér er lagt fram, og því frv., sem lá og liggur fyrir Ed., en ekki hefur fengist afgreitt þrátt fyrir ítarlegar tilraunir nm. Sjálfstfl. í iðnn. Ed.

Þingmenn hafa beðið nú í allan vetur eftir því, að hæstv. ríkisstj. boðaði stefnu sína í iðnaðar- og orkumálum og legði fram frv. um orkumál. Það hefur verið boðað æ ofan í æ af hæstv. ráðh., að slíkt frv. væri á leiðinni, og boðað að það frv. mundi móta ákveðna stefnu í orkumálum. Hæstv. forsrh. sagði skýrt og skorinort í útvarpsviðtali 1. apríl s. l.ríkisstj. mundi, áður en þingi lyki, leggja fram slíkt frv. þar sem m. a. röð virkjana yrði ákveðin. Þrátt fyrir þetta höfum við beðið og beðið vikum og mánuðum saman án þess að nokkuð gerðist. Við höfum oft fengið þær fregnir, að slíkt frv. væri stöðugt til umræðu í ríkisstj., en þar væri ekkert samkomulag um það, í hvaða átt frv. um orkumál ætti að ganga.

Stjórnarandstaðan hefur því haft allt frumkvæðið í þessum málum hér á Alþingi í vetur. Bæði þm. Sjálfstfl. og þm. Alþfl. hafa flutt þáltill. um stefnu í stóriðjumálum og frumvörp um næstu framkvæmdir í raforkumálum. Þau frv. hafa fengið lítið brautargengi hér á hv. Alþingi eins og mörg önnur mál sem stjórnarandstaðan flytur. Við biðum því með mikilli eftirvæntingu eftir að fá að sjá þetta frv. sem boðað hafði verið af hæstv. iðnrh. En ég verð að segja að það var dapurlegur dagur þegar frv. um raforkuver var lagt hér fram á hv. Alþingi. Þegar hæstv. iðnrh. kom hér og mælti fyrir því frv. var ljóst að hæstv. ríkisstj. hafði enga stefnu í orkumálum og hafði enga stefnu í iðnaðar- og stóriðjumálum. Frv. fól raunverulega í sér upptalningu á nokkrum virkjunum sem allir vita að eru á næsta leiti og unnið hefur verið að undirbúningi að, en í frv., fólst engin stefna um það, hvar byrja skyldi að virkja, og það sem verra var, botninn vantaði í frv. Það var engin tilraun gerð til þess að leggja fram neina orkustefnu, hvernig nýta ætti þá orku sem ljóst er að hægt er að framleiða í þeim virkjunum sem nú standa fyrir dyrum.

Við, sem skipum minni hl. iðnn., þ. e. hv. þm. Jósef H. Þorgeirsson, Magnús H. Magnússon og ég, erum andvígir því frv. sem hér liggur fyrir. Aðalástæða þess er sú, að engin stefna hefur verið mótuð um nýtingu þeirrar orku, sem næstu virkjanir gefa, umfram það sem hinn almenni markaður notar. Um það efni ríkir greinilega fullkomið ráðleysi í hæstv. ríkisstj. En vitað er að hæstv. iðnrh. og flokkur hans hefur verið andvígur þeirri stóriðjustefnu sem lagði grundvöll að byggingu stórvirkjana í Þjórsá og Tungnaá, og um það, hvernig Alþb., flokkur hæstv. iðnrh., hefur þvælst fyrir í því máli, eru mörg dæmi sem ekki er efni til að rekja hér.

En á fáum stöðum er jafngott lýsandi dæmi um það, hvernig stefnuleysi hæstv. ríkisstj. háir okkur í þessum málaflokki, en í því plaggi sem við þm. höfum fengið í hendur frá orkuspárnefnd, en hæstv. iðnrh. hefur látið dreifa því hér meðal þm. Í álitinu er gerð grein fyrir forsendum raforkuspár sem lögð er til grundvallar því frv. sem hér er til umr. En þar segir — með leyfi hæstv. forseta — og það er orkuspárnefnd sem talar:

„Nefndinni var vel ljóst, að ekki yrði gerð raforkuspá, sem það nafn ætti skilið, nema fyrir lægju forsendur um þróun einstakra atvinnugreina sem sumar hverjar nota mikla raforku. Nefndinni var einnig ljóst, að slíkar atvinnuspár verða ekki gerðar nema út frá vissum forsendum um almenna efnahagsþróun er miðast við að hverju er stefnt í efnahags- og atvinnumálum.

Um þetta eru menn engan veginn sammála sem kunnugt er. Sumir telja t. d. að Íslendingar geti tryggt sér mjög góð lífskjör í framtíðinni með því að nýta orkulindir landsins í stórum stíl til orkufreks iðnaðar. Aðrir telja umfangsmikla stóriðju varasama og að ná megi þokkalegum efnahag án þess að hún komi til nema í takmörkuðum mæli.“

Síðan tekur orkuspárnefnd fram að hún sé ekki rétti aðilinn til að skera úr þessu deilumáli, það sé hlutverk stjórnvalda að marka stefnu m. a. í stóriðjumálum. Því næst vitnar orkuspárnefnd í stefnuyfirlýsingu núv. ríkisstj., þar sem fjallað er um orku- og stóriðjumál, en segir síðan orðrétt, með leyfi hæstv. forseta.

„Þótt þessi stefnugrein feli í sér ákveðna viljayfirlýsingu er hún allt of almennt orðuð til að koma megi að notum við spá um eftirspurn eftir raforku.“

Frv. það, sem nú er hér til umr. og afgreiðslu, breytir engu frá því óvissuástandi sem orkuspárnefnd átti við að glíma. Frv. felur í sér heimildir til ákveðinna virkjana, en þó er settur mjög sterkur varnagli þar við, sem enn hefur verið hert á nú þegar brtt. hafa verið lagðar fram, um það að ákvarðanir í þessum efnum eigi að koma fyrir hv. Alþingi að nýju. M. ö. o.: það skiptir engu máli þótt í þessu frv. séu taldar upp ákveðnar virkjanir sem allir vita að verið er að vinna að undirbúningi að og þetta frv. breytir í sjálfu sér engu um, málið skal engu að síður koma aftur til kasta Alþingis til þess að taka endanlega ákvörðun um hverjar skuli vera næstu framkvæmdir í virkjunarmálum.

Ég gat um það áðan, að fyrr á þessu þingi hefðu bæði þm. Sjálfstfl. og þm. Alþfl, flutt hvorir sitt frv. um orkumál. Þó þau frv. væru að ýmsu leyti ólík var svipaður andi í þeim báðum. Þau frv. gerðu bæði ráð fyrir miklum átökum í orkumálum, að það yrði efnt til mikilla framkvæmda í þessum málaflokki og að grundvöllur og forsenda þeirra framkvæmda væri stórhuga og djörf iðnaðarstefna, að efnt yrði til orkufreks iðnaðar í ríkum mæli til þess að selja þá orku sem úr þessum iðjuverum fæst. Sú stefna var byggð á þeirri trú okkar, að framtíð þessa lands, að ein af grundvallarforsendum þess, að við hér á þessu landi megum bæta okkar lífskjör, halda í við okkar nágrannaþjóðir að því er lífskjör snertir, væri sú, að hér yrði áfram virkjað í stórum stíl og hér yrðu byggð orkufrek iðjuver.

Þegar frv. hæstv. ríkisstj. lá fyrir varð að samkomulagi milli þingflokka Alþfl. og Sjálfstfl. að við skyldum freista þess að ná sameiginlegri stefnu fram og flytja brtt. við þetta ófullkomna frv. hæstv. iðnrh. Þær brtt. hafa verið fluttar á þskj. 974, og við, sem skipum minni hl. iðnn. Nd., stöndum að þeim brtt. ásamt nokkrum öðrum þm. úr þessum tveimur flokkum, eins og nánar greinir á þessu þskj.

Í þessum brtt. er gert ráð fyrir því á miklu ákveðnari hátt og með miklu ákveðnara orðalagi en fram kemur í frv. hæstv. ríkisstj., að reisa skuli orkuver, að reisa skuli nýjar virkjanir eða viðbætur við orkuver á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu með allt að 250 mw. uppsettu afli, þ. á m. stækkun Hrauneyjafossvirkjunar og bygging Sultartangavirkjunar. Í öðru lagi, að virkjað skuli í Blöndu í Blöndudal með allt að 180 mw. uppsettu afli þegar tryggð hafi verið nauðsynleg réttindi vegna virkjunarinnar. Það er að sjálfsögðu nauðsynlegt skilyrði, til þess að í þá virkjun verði ráðist, að samningar hafi náðst við þau hreppsfélög, sem hlut eiga að máli, og þá landeigendur, sem þar eiga hlut að máli. Í þriðja lagi, að virkjað verði í Jökulsá í Fljótsdal með allt að 330 mw. uppsettu afli þegar ákvörðun hefur verið tekin um að setja upp stóriðju á Austurlandi.

Við, sem skipum þessa nefnd, fengum til viðtals við okkur ýmsa sérfræðinga í raforkumálum til þess að ræða um efni þessa frv. Það kom mjög glöggt fram í öllum þeim umr., að hagkvæmni Fljótsdalsvirkjunar ræðst fyrst og fremst af því, hvenær stóriðjan kemst upp, hversu aflfrek sú stóriðja verður og hversu hratt hún verður byggð. Hagkvæmni þessarar virkjunar byggist á slíkri stóriðju. Þess vegna viljum við gera stóriðju á Austurlandi að forsendu fyrir því, að Jökulsá í Fljótsdal verði virkjuð. Þar með fylgjum við eindregnum áskorunum sem fram hafa komið frá íbúum á Austurlandi í formi áskorana og fundarsamþykkta frá fjölmörgum félagasamtökum á fundum um þessi mál á Austurlandi. Þar nefni ég t. d. samband sveitarfélaga á Austurlandi sem mjög skýrt og ákveðið hefur kveðið upp úr með að það telji að stóriðja á Austurlandi sé forsenda Fljótsdalsvirkjunar.

Ég rek ekki brtt. okkar í smæstu atriðum því margar af þeim leiðir af því sem ég hef þegar sagt. Ég get þess þó, að við teljum að Alþingi eigi nú þegar að afgreiða þetta mál frá sér með ákveðinni stefnu þannig að frekari ákvarðanir um einstakar framkvæmdir eða virkjanaröð þurfi ekki að koma fyrir hv. Alþingi að nýju nema þá í formi lánsfjárlaga, en í þeim lögum þarf að sjálfsögðu að kveða á um nauðsynlegar lánsheimildir til slíkra virkjana.

Ég vil þó vekja athygli á einu grundvallaratriði í okkar brtt., en það er að við viljum alveg ótvírætt, skýrt og skorinort, tengja þessar miklu virkjunarframkvæmdir við orkufrekan iðnað í landinu. Við leggjum því til að í þetta frv. bætist ný grein sem orðist á þá leið, að undirbúningur samninga um sölu raforku til orkufreks iðnaðar og byggingu og rekstur iðjuvera í því sambandi falli undir orkusölunefnd skuli vinna að því að leita hagkvæmra sölusamninga um raforku til iðnaðar og miða störf sín við að sala raforku til orkufreks iðnaðar a. m. k. fjórfaldist til ársins 1999. Nefndin skal sérstaklega hraða samningagerð um byggingu þriggja nýrra iðjuvera á sviði orkufreks iðnaðar, eins á Austurlandi, eins á Norðurlandi og eins á Suðvesturlandi eða Suðurlandi, auk stækkana á þeim orkufreku iðjuverum sem fyrir eru.

Síðan er í sérstakri grein gert ráð fyrir að orkusölunefnd skuli skipuð sjö mönnum kosnum af Sþ. eftir hverjar alþingiskosningar og nefndin skipti sjálf með sér verkum. Við teljum nauðsynlegt að það sé nefnd kosin af Alþingi sem hafi með þessi mál að gera. Ástæðan er sú, að við treystum ekki hæstv. iðnrh. til að fara með þessi mál. Við teljum að hann og flokkur hans hafi sýnt það og sannað, að hann er úrtöluflokkur í þessum efnum og ekkert marktækt muni gerast að því er orkufrekan iðnað meðan hæstv. iðnrh. situr í þessum stól. Við því getum við þó ekki gert eins og sakir standa, en til þess að tryggja að ,fram gangi sú stefna, sem við trúum á í þessum efnum, viljum við að kosin sé sérstök nefnd af hv. Alþingi til að fylgja þessu máli fram.

Við leggjum enn fremur til að auk þeirra virkjana, sem sérstaklega eru taldar upp í okkar frv., skuli ríkisstj. sjá til þess á hverjum tíma fram til ársins 1999, að tiltækir verði fullhannaðir virkjunarkostir með tilliti til verkefna í orkufrekum iðnaði umfram þær virkjanir sem þá er unnið að framkvæmdum við eða í starfrækslu eru. Undir það koma að sjálfsögðu virkjanir sem talað hefur verið um að auðvelt ætti að vera að ráðast í eða að stækkun á þeim virkjunum sem fyrir eru. Þá nefni ég t. d. 60 mw. stækkun Sigölduvirkjunar og 60 mw. stækkun Hrauneyjafossvirkjunar, sem talað er um að geti verið hagkvæmar þegar búið er að fullgera Kvíslaveitu og byggja stíflu við Sultartanga. Hér koma að auki ýmsar aðrar virkjanir til greina bæði austanlands, sunnanlands og norðanlands, og flestar af þeim virkjunum hafa verið nefndar að einhverju leyti í þeim umr. sem hér hafa farið fram.

Ég tel mjög ánægjulegt að svo víðtæk samstaða skuli hafa myndast hér á hv. Alþingi milli þeirra flokka, sem skipa stjórnarandstöðu, um brtt. við þetta frv. um raforkumál sem raun ber vitni. Á þann hátt hafa stjórnarandstöðuflokkarnir sameinast um stórhuga stefnu í einhverju stærsta máli sem íslenska þjóðin stendur frammi fyrir í dag. Við vorum tilbúnir með þessar brtt. fyrir tveimur sólarhringum. Við afhentum þá fulltrúum stjórnarflokkanna í iðnn. þessar till. og vorum þá reiðubúnir til þess að afgreiða málið út úr n. Það er því ekki við okkur að sakast þó að það hafi dregist þangað til nú fyrir nokkrum klukkutímum að þetta mál kæmi úr nefnd. Auðvitað er það rangt, sem hæstv. iðnrh. sagði í Ríkisútvarpinu í þætti sem við tókum saman þátt í í gærkvöld, að hann hefði í allan gærdag verið að búast við að þetta mál kæmi úr hv. iðnn. Hann vissi betur. Hann vissi sjálfur að það var fullkomin óeining um þetta mál og það voru engar líkur á því, eins og mál stóðu þá, að þetta mál mundi fá afgreiðslu hér á hv. Alþingi. Þess vegna hafa stjórnarliðar verið hér á þeysispretti um þinghúsið bæði í gær og í dag með allar hendur á lofti til þess að reyna að ná einhverju samkomulagi sem tryggði að þetta frv. gæti farið í gegn hér á hv. Alþingi. Nú hafa þessar brtt. séð dagsins ljós, og ég verð að segja að lengi getur vont versnað. Ekki var þetta frv. mikið að vöxtum eða mikið að efni þegar það sá dagsins ljós hér á Alþingi, en ekki er það betra nú eftir að stjórnarliðar hafa farið höndum um það og útvatnað það í því skyni að reyna að tryggja því framgang hér á hv. Alþingi.

Þessar brtt. fela það í sér í fyrsta lagi, að það er breytt um röðun á upptalningu virkjana í 1. gr. frv. Nú er ekki lengur virkjað í stafrófsröð, eins og hæstv. iðnrh. gat um á blaðamannafundi sem hann hélt þegar hann kynnti þetta frv., heldur er nú einhver allt önnur röðun sem gildir, röðun sem reyndar er erfitt að sjá hvaða tilgangi þjónar. Ekki skal ég setja mig upp á móti því í sjálfu sér, þó að hæstv. iðnrh. telji að það sé eðlilegra og réttara að telja virkjanir upp í annarri röð en í stafrófsröð. En engu máli skiptir það þó um efni þessa frv. eða að hverju er stefnt með því. Það er að vísu bætt inn í frv. fjórðu vél í Hrauneyjafossvirkjun og fjórðu vél í Sigölduvirkjun, en það eru vélar sem í raun og veru skiptir engu máli hvort eru tilgreindar í lögum nú, en að sjálfsögðu saklaust eins og margt af því öðru sem í þessu frv. kemur fram.

Að öðru leyti eru tvær efnisbreytingar í þessu frv., og ekki eru þær til sóma fyrir hæstv. iðnrh. og ekki bera þær vitni um að hæstv. iðnrh. njóti mikils trausts hjá því stjórnarliði hér á hv. Alþingi sem hann styðst við.

Í 2. gr, frv., eins og það var lagt fram, stóð í 2. mgr.: „Ákvarðanir um framkvæmdir í virkjunarmálum, þ. á m. um framkvæmdaröð, skulu staðfestar af Alþingi.“ Þetta var túlkað á þann veg, að hæstv. iðnrh. gæti haft það sér til dundurs áfram í ár eða svo, vegna þess að hann lét að því liggja að þetta ætti að taka til ákvörðunar í sambandi við afgreiðslu lánsfjárlaga á næsta ári eða hann gæti hugsað sér það. Lánsfjárlög á þessu ári voru afgreidd 14. apríl, þannig að með því hafði hann útvegað sér u. þ. b. ársfrest til þess að dunda við að raða upp þeim skýrslum sem hann hefur fengið í virkjunarmálum. En síðan átti þetta að koma til staðfestingar Alþingis. Nú er þetta vald, sem hann átti að hafa með þessu frv., tekið af honum með þessari mgr. eins og hún er orðuð nú, en þar segir: „Tillögur um framkvæmdir við nýjar vatnsaflsvirkjanir og virkjunaráfanga, þ. á m. um framkvæmdaröð, skulu lagðar fyrir Alþingi til samþykktar.“

Nú er það gott og blessað og ég fagna því vissulega, að þetta vald skuli tekið úr höndunum á hæstv. iðnrh. En ég harma það þó, að enn skuli vera að því stefnt að þessar ákvarðanir skuli vera látnar dragast von úr viti. Það liggur ekkert fyrir um það, hvenær þessar ákvarðanir eigi að leggja fyrir Alþingi. Það er engin tímasetning í þessum lögum um það, hvenær þessar ákvarðanir eigi að taka á Alþingi né í hvaða formi. Við sitjum því að sjálfsögðu uppi eftir sem áður gjörsamlega óvitandi um það, hv. alþm. — og reyndar allir aðrir sem áhuga hafa á þessum málum, íslenska þjóðin öll, — við vitum ekkert um hvernig staðið skuli að þessum málum og hvernig röðun virkjana skuli vera.

Síðan segir: „Skal áður liggja fyrir grg. frá Landsvirkjun, Orkustofnun, Rafmagnsveitum ríkisins og öðrum þeim aðilum, sem ríkisstj. kveður til, um þjóðhagslega hagkvæmni virkjunarleiða og þýðingu þeirra fyrir raforkukerfi landsins.“

Var að einhverju öðru stefnt en þjóðhagslegri hagkvæmni í þessu efni? Á hvaða forsendum á þessi þjóðhagslega hagkvæmni að byggja? Um það er ekkert sagt í frv. sem hér liggur fyrir. Og ég minni enn á það sem fram kom hjá þeim sérfræðingum sem við kvöddum til í iðnn. um þessi mál, að þeir hver um annan þveran kváðu mjög skýrt á um að þjóðhagsleg hagkvæmni t. d. Fljótsdalsvirkjunar réðist algjörlega af því, hversu mikil stóriðja yrði á Austurlandi, hvenær hún yrði byggð, og að þessi virkjun væri algjörlega háð slíkri stóriðju. Um það er ekki sagt eitt einasta orð í þessu frv. Og um það hefur hæstv. iðnrh. ekki fengist til að segja eitt einasta orð. Allar þær óljósu hugmyndir, sem hann hefur talið fram í umr. hér á hv. Alþingi um þessi mál, eru ekkert annað en ógrundaðar hugmyndir sem byggjast ekki á neinu sem hönd verður á fest. A. m. k. höfum við í stjórnarandstöðunni ekki fengið neitt í hendur sem bendir til þess, að þar sé byggt á öðru en sandi.

Síðan segir í þessari grein: „Jafnframt“ — þ. e. jafnframt því að tillögur um framkvæmdir við nýjar vatnsaflsvirkjanir verði lagðar fram — „leggi ríkisstj. fram grg. um þá möguleika sem fyrir liggja um nýtingu orkunnar til orkufreks iðnaðar og sparnaðar á innfluttu eldsneyti.“

Takið eftir orðalaginu. Það á að leggja fram hér grg., eina bókina enn, þegar þessar till. verða lagðar fram, grg. um þá möguleika sem fyrir liggja um nýtingu orkunnar. Það á ekki að leggja fram neina stefnu, það á ekki að leggja fram neinar till. af hálfu hæstv. ríkisstj. eða gera okkur hv. alþm. eða íslensku þjóðinni grein fyrir því, á hvaða grundvelli þessar virkjanir verði byggðar eða hver sé stefna hæstv. ríkisstj. í þessum málum. Nei, það á að leggja fram greinargerð um þá möguleika sem fyrir liggja um nýtingu orkunnar. Ekki er nú hátt risið á þessum brtt. sem hér hafa verið lagðar fram. Og eins og ég sagði áðan: slæmt var frv., en enn þá verri eru þær brtt. sem nú eru hér lagðar fram og ætlast er til að við hv. alþm. samþykkjum.

Ég vek líka athygli á því, að í þessum brtt., sem hér eru lagðar fram af hálfu hæstv. ríkisstj., er ekki gert ráð fyrir því, eins og í brtt. þeim sem við stjórnarandstæðingar höfum lagt fram, að eignaraðilar Landsvirkjunar eigi neitt um það að segja hvernig virkjað skuli. Við tökum það skýrt fram í okkar till., að það, sem Landsvirkjun eigi að gera, skuli gert að fengnu samþykki eignaraðila. En um það er ekki eitt orð sagt í þessum brtt. hæstv. ríkisstj., heldur er bara talað um að Landsvirkjun skuli að fengnu samþykki ríkisstj. gera hitt og þetta í virkjunarmálum.

Ég tel því að þeir, sem bera hag eignaraðila Landsvirkjunar fyrir brjósti, eigi erfitt með að samþykkja þær brtt. sem hér eru fram lagðar.

Það er vissulega alvarlegt að þetta frv. og þær brtt., sem hér eru lagðar fram, sniðganga alveg forsendur stærri virkjana, þ. e. orkufrekan iðnað, og hæstv. iðnrh. hefur hafnað því sem forsendu stórátaka í virkjunarmálum að slík stóriðjustefna eða slík stefna um orkufrekan iðnað sé mótuð.

Ef okkar brtt. verða felldar gerum við grein fyrir því í nál., að við teljum óverjandi að afgreiða orkumálin á þann hátt sem frv. ráðgerir. Í rauninni er með þessu verið að lögfesta áframhaldandi aðgerðaleysi í virkjunarmálum, lögfesta þá afturhaldsstefnu sem ríkt hefur í virkjunarmálum og stóriðjumálum hér á landi síðan Alþb. fékk forsjá þeirra mála í sínar hendur. Við það getum við ekki unað og þess vegna munum við greiða atkvæði gegn frv. ef brtt. okkar ná ekki fram að ganga.

Fari svo, að þetta frv. verði fellt, hefur Alþingi að sjálfsögðu þá leið að ganga til afgreiðslu á þeim tveimur frv. sem fyrir liggja um ný orkuver, þ. e. frv. þingmanna Sjálfstfl. og frv. þingmanna Alþfl., og við teljum fullkominn grundvöll fyrir því að ná víðtækri samstöðu um annað hvort þeirra frv. Ég tek það skýrt fram, vegna þess að það er verið að tala um að Alþingi eigi að ljúka störfum nú á laugardaginn kemur. Hæstv. ríkisstj. hefur tekið þá ákvörðun að senda Alþingi heim á laugardaginn, væntanlega til þess að hún geti tekið til við að stjórna ótrufluð af Alþingi. Stjórnarandstaðan hefur ekki óskað eftir þinglausnum n. k. laugardag. Við erum tilbúnir að sitja hér áfram og starfa á Alþingi svo lengi sem þarf. Ég vil taka það skýrt fram. Það eru því engin rök í því máli að það muni ekki vinnast tími til þess að afgreiða önnur frv. sem fyrir liggja þó að þetta frv. verði fellt.

Við lýsum því einnig yfir, að við erum reiðubúnir til að standa með ríkisstj. að öflun nauðsynlegra heimila til að fá lánsfé til áframhaldandi undirbúnings virkjana, eins og rætt er um í 2. gr. frv., en í rauninni er það hið eina ákvarðandi atriði sem í frv. felst.

Við bendum einnig á að í núgildandi lánsfjárlögum eru heimildir til lántöku vegna Kvíslaveitu og nauðsynlegra aðgerða í Þjórsá sem framkvæma á nú í sumar og lagaheimildir eru þegar fyrir. Og ég tek það skýrt fram, vegna þess að mér hefur stundum virst að nokkurs misskilnings gæti um það efni, að í núgildandi Landsvirkjunarlögum eru skýr og ótvíræð lagaákvæði um það, að Landsvirkjun sé heimilt að gera þær ráðstafanir sem hún telji nauðsynlegar til þess að tryggja eðlilegan rekstur Búrfellsstöðvar og Hrauneyjafoss- og Sigölduvirkjunar, þ. e. ráðstafanir í Þjórsá og Tungnaá ofan Búrfells. Þetta frv. breytir engu um það. Þau lög, sem hér kunna að verða samþykkt eða felld, breyta engu þar um, því að landsvirkjunarlögin eru skýr og ótvíræð að þessu leyti.

Við teljum nauðsynlegt, að allar undirbúningsframkvæmdir að þeim þremur stóru virkjunum, sem nú eru í undirbúningi, geti haldið áfram án tafar, og teljum þess vegna nauðsynlegt að samþykkja þær brtt. sem við höfum lagt fram og eru mun ákveðnari að orðalagi um virkjunarframkvæmdirnar sjálfar og leggja grundvöll að nýtingu þeirrar orku sem framleiða á í þeim virkjunum sem hér liggja fyrir til umræðu.

Það verður ekki of oft ítrekað að þessi málaflokkur, sem við erum nú að kljást við, er einhver sá mikilvægasti sem við höfum við að glíma hér á hv. Alþingi. Þess vegna þarf að taka á þeim málum af stórhug og djörfung, en ekki af því hugarfari aðgerðaleysis og afturhaldssemi sem nú ríkir hjá hæstv. ríkisstj. í þessu efni.