21.05.1981
Efri deild: 116. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4855 í B-deild Alþingistíðinda. (5137)

174. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Það má segja að þetta sé orðin nokkur fagnaðarsamkoma hjá okkur á Alþingi. Ég var að ljúka við að þakka víðtæka samstöðu í Sþ. um mikilvægt mál og stend nú upp til þess að lýsa ánægju minni með að hér hefur náðst samstaða um þetta mál, dragnótaveiðar í Faxaflóa.

Ég fagna því, að það bréf, sem fylgir með, hefur að því er mér virðist leiðrétt ýmsan misskilning, sem hefur verið nokkuð ríkur í sambandi við dragnótina. Að sjálfsögðu hefur það ætíð verið hugmynd sjútvrn., að mjög faglega yrði að farið og veitt undir vísindalegu eftirliti. Og þessar reglur, sem þarna eru birtar, eru þær sem lagðar voru til grundvallar þegar ég ákveð að flytja þetta frv.

Að sjálfsögðu má ætíð um það deila, hve bátar eigi að vera margir og vinnslustöðvar margar. Ég hefði sjálfur talið að hámark báta væri e. t. v. sjö bátar. Það er ekki um meira magn að ræða. Ég hafði reyndar haft í hug að vinnslustöðvar yrðu vart fleiri en nú er, þær eru tvær. En þó opnar þetta möguleika — og ég fagna því — að bæta við einni stöð ef það sýnir sig að vera af einhverjum e. t. v. svæðisbundnum eða byggðaástæðum æskilegt.

Ég vil fullvissa hv. þm. um að ætíð hefur staðið til að fara og mun verða farið eftir þeim leiðum að sjálfsögðu sem lýst er í bréfinu.

Ég get einnig fullvissað hv. 11. þm. Reykv. um það, að sá framgangsmáti, sem lýst er, opnar einnig að mínu mati þessa mikilvægu grein. Tek ég undir hvert orð sem hann sagði um það. Ég held að það sé ekki aðeins réttlætanlegt, heldur sjálfsagt. Þó að gert sé ráð fyrir að gera áfram tilraun með 170 mm möskva kemur það að okkar mati á engan máta í veg fyrir að það aflamagn náist sem gert er ráð fyrir. Að mati vísindamanna er það að hámarki 1500 lestir, eins og fram kemur í þessu bréfi.

Ég vil aðeins geta þess að lokum, að ég fékk tækifæri til þess í nýlegri ferð til Bretlands að kynna mér þar þessi mál nokkuð. Bretar hafa gert mjög víðtækar tilraunir með dragnót og veiða t. d. í Skotlandi um það bil helming af öllum og miklum afla í dragnót. Niðurstaða rannsóknastofnana þar er að dragnót sé með allra bestu veiðarfærum að mörgu leyti. Þeir segja í fyrsta lagi að dragnótin sé nú ekki síst orðin mikilvæg vegna orkusparnaðar. Hún krefst miklu minni orku en sum önnur veiðarfæri, t. d. troll. Í öðru lagi flokki hún betur úr fisk heldur en troll. Og í þriðja lagi fari hún vel með botninn, sem er nú dálítið annað en hefur stundum heyrst hér. Ég sá bæði myndir og skýrslur og upplýsingar sem allar virtust sanna þetta.

Ég skýrði þessum vísindamönnum frá því, að við værum nú með 155 mm möskva og segja má að andlitið hafi dottið af þeim, því að þeir eru með 80 mm möskva og telja dragnót samt góða.

Ég verð að segja fyrir mitt leyti, að ég held að andstaðan gegn dragnótinni sé byggð á fordómum fyrst og fremst. Ég vona að þetta leiðréttist. Hér var áður veitt með dragnót við allt aðrar aðstæður, á stærra svæði og með minni möskva o. s. frv., svo ég vona að þetta sé skynsamleg opnun fyrir dragnótina og muni jafnvel leiða til þess, að hún verði notuð í víðtækari mæli hér við land því ekki veitir okkur satt að segja af að nota veiðarfæri sem eru ekki eins orkufrek og sumt af því sem við notum.

Ég lýk þessum orðum með því að þakka þá samstöðu sem náðst hefur í nefndinni um þetta mál.