21.05.1981
Efri deild: 116. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4856 í B-deild Alþingistíðinda. (5138)

174. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég hef áður bent á það, að það ætti að leyfa dragnótaveiðar á kolastofnunum í Faxaflóa með mjög ákveðnum takmörkunum. Ég tel að sú afgreiðsla, sem þetta mál hefur fengið hér í deildinni, sé einmitt af þeim toga. En vegna síðustu ummæla hæstv. sjútvrh. um ágæti dragnótarinnar vil ég ítreka það sem ég tel að hafi verið ríkjandi viðhorf í nefndinni, að það ætti að vera rúm möskvastærð, 155–170 mm, og að veiðarnar ættu eingöngu að vera bundnar við kolaveiðar. Ég vil að það komi alveg ljóst fram, að þetta er stefna nefndarinnar, og það byggist á því, að Faxaflóinn er mjög sérstakt svæði, þar er uppeldisstöð fyrir fisk.

Hæstv. sjútvrh. hefur gefið yfirlýsingu í samræmi við óskir nefndarinnar um að þetta verði svona og það er auðvitað meginatriði málsins. En vegna þeirra ummæla, sem hér voru höfð, tel ég nauðsynlegt að það komi alveg skýrt fram, að sú er stefna nefndarinnar.

Ég sagði áðan að það væri eðlilegt og sjálfsagt að leyfa dragnótaveiðar í Faxaflóanum með mjög ströngum takmörkunum til þess að nýta stofninn. Það eru margvíslegar ástæður sem liggja til þess, að það er nauðsynlegt. Þær eru bæði fiskifræðilegar og hagrænar. Við viljum gæta þess, að það fari ekki annar smáfiskur í þetta veiðarfæri þegar verið er að veiða kolann. En við höfum líka talið nauðsynlegt að það væri ekki hætta á misnotkun þessa veiðarfæris, og þess vegna hefur nefndin lagt ríka áherslu á að takmarka fjölda bátanna sem veiðarnar stunduðu. Það er líka á það að líta og sérstaklega í sambandi við þau ummæli sem uppi hafa verið höfð um arðsemi þessara veiða, að það þarf ekki að skipta þessu í miklu fleiri hluti en nú er gert til þess að það hætti að verða arðsamt. Þess vegna eru þær takmarkanir hér uppi sem nefndin hefur talið að væru nauðsynlegar. Og ég ætla nú að biðja um að hæstv. sjútvrh. athugi vel sinn gang áður en farið er út í að fjölga stöðvum.

Ég veit að þetta er viðkvæmt mál, en ég tel að með þeirri yfirlýsingu, sem hér hefur verið gefin, hafi fengist farsæl afgreiðsla á því sem allir ættu að geta bærilega vel við unað, eins og nefndin gerir, um leið og hún mælir með samþykkt þess. Og ég vil að lokum þakka hæstv. sjútvrh. fyrir samvinnuna í þessu máli og þá yfirlýsingu sem hefur gert kleift að mæla með þessu máli með þeim hætti sem hér er gert.