21.05.1981
Efri deild: 116. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4857 í B-deild Alþingistíðinda. (5141)

38. mál, kjarasamningar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hér er um að ræða staðfestingu á brbl. sem gefin voru út á s. l. hausti, nánar tiltekið 9. sept. 1980, í tengslum við kjarasamninga sem ríkið gerði við opinbera starfsmenn eða félagsmenn BSRB. Þegar þessir samningar voru gerðir var jafnframt fallist á að nokkur mikilvæg félagsleg málefni, sem opinberir starfsmenn höfðu lagt áherslu á, næðu fram að ganga, og þau er m. a. að finna í þessu frv. Langsamlega mikilvægast þessara ákvæða eru atvinnuleysistryggingar sem opinberir starfsmenn hljóta í fyrsta sinn með þessum lögum. Á það bæði við starfsmenn ríkisins og starfsmenn stéttarfélaga, auk starfsmanna sjálfseignarstofnana að svo miklu leyti sem lögin taka til þeirra.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þá hlið þessa máls sem snýr að meginefni þess, atvinnuleysistryggingum fyrir félagsmenn BSRB eða tengd samningstímabils, en ákvæðum um það efni var einmitt breytt með þessum brbl. Áður var lengd samningstímabilsins bundin við tvö ár, en er nú ótímabundin. Hins vegar vil ég fara nokkrum orðum um 1. gr. frv. sem lætur lítið yfir sér og vakti litla athygli þegar lögin voru sett, en það ákvæði hefur orðið þrætuepli mikið á þessum vetri, og er það meginástæðan til þess, að staðfesting laganna er svo seint á ferð hér í þinginu.

Í þessari grein segir: „Lögin skulu með þeim hætti einnig taka til starfsmanna sjálfseignarstofnana, sem starfa í almannaþágu samkv. lögum, til stofnana, sem eru í fjárlögum eða njóta fjárframlaga til launagreiðslna úr ríkissjóði eða af daggjöldum, og til sameignarstofnana ríkis og sveitarfélaga, enda komi til samþykki viðkomandi stofnana.“

Hverjar eru þá þessar stofnanir sem hér um ræðir? Jú, þessar stofnanir eru t. d. Brunabótafélag Íslands, Dvalarheimill aldraðra ýmis, Grænmetisverslun landbúnaðarins, Hjartavernd, Kirkjugarðar Reykjavíkur, Krabbameinsfélagið, spítalar nokkrir, Norræna eldfjallastöðin, Norræna húsið, o. s. frv. Þessar stofnanir eru allmargar og hef ég nefnt hér u. þ. b. þriðjung þeirra.

Rétt er að taka það fram strax vegna þess mikla moldviðris, sem þyrlað hefur verið upp út af þessu máli, að þetta samningsákvæði var aldrei hugsað til að víkka út samningssvið BSRB eða opinberra starfsmanna og opinberum starfsmönnum var ekki með þessu samningsákvæði veittur aukinn réttur á kostnað ASÍ, eins og ýmsir hafa viljað vera láta. Það var alveg ljóst af hálfu fjmrn., að tilgangurinn með setningu þessa ákvæðis var að greiða fyrir því, að starfsmenn þessara stofnana, sem eru og hafa verið opinberir starfsmenn, fengju beina aðild að aðalkjarasamningi ríkisins og gætu tekið þátt í atkvgr. um samninginn jafnframt því sem þessar stofnanir afhentu ríkisvaldinu eða fjmrn. samningsumboð sitt þannig að um samninga við þetta starfsfólk færi algerlega eftir aðalkjarasamningi ríkisins og hann yrði þá gerður við þetta fólk á sama tíma og við opinbera starfsmenn og það væru þá sömu samningsaðilar á báðar hliðar, annars vegar forusta BSRB og hins vegar fjmrn., enda var þetta sérstaklega tekið fram í lögunum með aukasetningunni sem greinin endar á, þar sem segir: „enda komi til samþykki viðkomandi stofnana.“ Þetta þarf til að lögin taki til þessara starfsmanna.

Þetta ákvæði olli hins vegar nokkurri tortryggni hjá forustumönnum í Alþýðusambandi Íslands. Þeim fannst eftir ýmsum heimildum sem þeir höfðu, að einhver viðleitni væri uppi af hálfu BSRB til að ganga inn á samningssvið þeirra og fá félagsmenn í verkalýðsfélögum Alþýðusambandsins til að ganga í BSRB. Þessu hefur aftur á móti BSRB alfarið hafnað, og þetta kemur m. a. skýrt fram í skriflegri yfirlýsingu frá BSRB þar sem tekið er fram að ágreiningsefni um félagsaðild eigi að afgreiða með samkomulagi á milli stéttarfélaga og heildarsamtaka og að BSRB hafi aldrei sett fram þá kröfu, að félagsmenn innan verkalýðsfélaga í ASÍ verði félagsmenn í aðildarfélögum BSRB. Þrátt fyrir þessa yfirlýsingu BSRB þótti þó rétt að fjmrn. gæfi út yfirlýsingu um þetta efni, og hún var gefin 31. okt. 1980. Hún var svo hljóðandi:

„Í framhaldi af viðræðum fulltrúa ríkisstj. og ASÍ gefur fjmrn. út eftirfarandi yfirlýsingu:

Félagar innan ASÍ eða sérsambanda þess njóta forgangsréttar til allra þeirra starfa sem nú eru samningsbundin við ASÍ. Ekki verða gerðir samningar við aðra aðila um þau störf sem félagsmenn ASÍ starfa nú við. Þetta tekur til starfa á vegum ríkisins, stofnana þess og fyrirtækja.“

Það var von okkar í fjmrn., að með þessari yfirlýsingu hefði verið tekið af skarið um það, að þetta samningsákvæði breytti engu um stöðu félagsmanna í ASÍ innan þessara stofnana sem hér um ræðir.

Þegar afgreiða átti frv. úr Nd. komu hins vegar fram hugmyndir í deildinni og innan nefndarinnar, hv. fjh.- og viðskn. Nd., að rétt kynni að vera að taka af skarið um þetta efni í lögunum sjálfum. Ég vil láta það koma hér skýrt fram, að ég setti mig upp á móti því að farið yrði að breyta 1. gr. frv. vegna þess að þar með væri verið að breyta efni þess samkomulags sem gert hefur verið milli ríkisins og BSRB, hefði verið undirritað af báðum aðilum og samþykkt í allsherjaratkvæðagreiðslu innan BSRB, og það væri óviðeigandi með öllu að ríkisvaldið undir forustu Alþingis í þessu tilviki færi að breyta samningsákvæðum sem þegar hefðu verið undirrituð af báðum aðilum. Hins vegar bauðst ég til þess að rita nýtt bréf til fjh.- og viðskn. Nd. þar sem ítrekuð væru sjónarmið fjmrn. í þessu sambandi. Það bréf hefur verið prentað sem fskj. með nál. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. sem undirritað er af hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni, Guðmundi J. Guðmundssyni og þriðja nefndarmanninum, Jóni Inga Ingvarssyni. Í Nd. skilaði fulltrúi Alþfl. séráliti, en fulltrúar Sjálfstfl. skiluðu ekki neinu áliti. Hins vegar mun það hafa verið niðurstaða a. m. k. annarra en fulltrúa Alþfl. í fjh.- og viðskn. Nd., — og kannske er það líka afstaða Alþfl.-manna, það hefur ekki komið skýrt fram í umr. hér í þinginu og er ekki heldur skjalfest svo að ég vil ekki fullyrða neitt um afstöðu þeirra í þessu efni, en ég tel líklegt að afstaða þeirra sé sú þó hún hafi ekki komið bréflega fram eða skýrt fram sett, — að þeir felli sig við túlkun fjmrn. á 1. gr. laganna, að þeir mótmæli ekki þeim skilningi sem þar kemur fram. Það hefur mér skilist þó að þeir hafi hins vegar kosið í Nd. að leggja til að frvgr. verði felld. Þetta væri vissulega gott að fá á hreint við 2. umr. um frv. Veit ég að þeir Alþfl.-menn munu ekki láta standa á sér að segja afstöðu sína í þessum efnum, að því áskildu að greinin verði samþykkt eins og var í Nd., hvort þeir séu þá ekki samþykkir þeirri yfirlýsingu sem fjmrn. hefur gefið út um túlkun og skilning á greininni.

Hv. talsmenn Alþfl. hafa reynt að læða því að, að fjmrn. hafi í raun og veru selt sama pakkann tvisvar, eins og þeir komust svo smekklega að orði í umr. um málið í Nd. En ég tel að það, sem hér hefur komið fram af minni hálfu, sýni ljóslega að afstaða fjmrn. í þessu máli hefur aldrei verið önnur en sú sem fram hefur komið í yfirlýsingum rn. frá 31. okt. s. l. og frá því í gær. Við höfum talið nauðsynlegt að safna samningsumboði þessara hálfopinberu stofnana á eina hönd. Þess vegna sáum við mikið hagræði í því að fá inn frvgr. og samningsgrein af þessu tagi þar sem opnaðir eru möguleikar til þess að þessar hálfopinberu stofnanir afhendi ríkinu samningsumboð sitt. En það er alveg ljóst hvað varðar starfs- og svæðisskiptingu þessara stóru félagasamtaka, annars vegar Alþýðusambandsins og hins vegar BSRB, að það var aldrei ætlun fjmrn. að hafa þar nokkur áhrif á. Fram að þessu hafa starfsmenn hjá þessum hálfopinberu stofnunum bæði verið félagsmenn í félögum innan Alþýðusambandsins og í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og svo verður vafalaust áfram. Það er ekkert í yfirlýsingum fjmrn. eða í 1. gr. frv. sem kemur í veg fyrir þetta, enda gerum við beinlínis ráð fyrir því í þessum yfirlýsingum, sem ég nú vitnaði til, að um verði að ræða óbreytt ástand í þessum efnum. Ef forstjórar viðkomandi stofnana vilja ekki afhenda samningsumboð sitt til ríkisins, þá er óbreytt ástand að öllu leyti í þessum stofnunum En afhendi þessar stofnanir ríkinu samningsumboð sitt munum við áfram semja við BSRB annars vegar og við félög innan ASÍ hins vegar eftir því sem við á í hverju tilviki, í fullu samræmi við þær yfirlýsingar sem gefnar hafa verið.

Þetta hef ég talið óhjákvæmilegt að rekja hér strax við 1. umr. málsins vegna þess mikla misskilnings, sem upp hefur komið um túlkun á þessari lagagrein, og vegna þeirra vandræða sem af hlutust í Nd. vegna misskilnings um efni þessarar greinar. Það er svo bara einn þátturinn í öllum þessum misskilningi, að í gær sendi Bandalag starfsmanna ríkis og bæja ítarlegt bréf til hv. fjh.- og viðskn. Nd., þar sem gerð er grein fyrir sjónarmiðum Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og því hnýtt aftan við í lok bréfsins að túlkun sú, sem fjmrh. hefur sett fram í þessu sambandi, sé samningsrof, hvorki meira né minna. Þetta er auðvitað á miklum misskilningi byggt og við höfum átt viðræður við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja um þetta mál. Það er ljóst að forsvarsmenn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja hafa skilið þetta samningsákvæði á eitthvað annan veg en fulltrúar ríkisvaldsins, en afstaða ríkisvaldsins hefur aldrei verið nema ein í þessum efnum eins og kom strax fram í yfirlýsingu fjmrn. 30. okt. og eins og við raunar og okkar samningamenn telja að hafi komið skýrt fram í samningum við BSRB á sínum tíma þótt um það efni séu að vísu skiptar skoðanir milli okkar annars vegar og hins vegar BSRB.

Herra forseti. Ég tel að óhjákvæmilegt sé að þetta mál nái fram að ganga nú fyrir þinglok vegna þess að ef brbl. yrðu ekki afgreidd mundu opinberir starfsmenn missa þær atvinnuleysistryggingar sem þessi lög fela í sér. Þess vegna var ég nokkuð undrandi á því, að einstakir þm. í Nd. skyldu greiða atkvæði gegn þessu frv. En ég tel að það verði að samþykkja frv. óbreytt eins og það liggur fyrir sem og hv. Nd. gerði.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn.