22.05.1981
Neðri deild: 105. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4863 í B-deild Alþingistíðinda. (5148)

312. mál, sjóefnavinnsla á Reykjanesi

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Framgangur og afgreiðsla þessa stóra máls nú á örfáum dögum hér í hv. Nd. Alþingis er kannske dæmigert fyrir það, sem réttilega hefur verið gagnrýnt bæði innan Alþingis og utan þess, með hverjum hætti vinnan hér gengur fyrir sig, hvernig Alþingi í raun og veru hegðar sér eins og gufuketill, hvernig vinnan hleðst upp nú á þeim örfáu dögum sem unnið er undir þeirri pressu að Alþingi sé að hætta. Við verðum að fara að skoða það gaumgæfilega, að sú hætta er fyrir hendi að við þessar aðstæður geri alþm. mistök, ekki vegna þess, að það sé ekki unnið vel, ekki vegna þess, að í raun og veru leggi menn ekki að sér, og ekki vegna þess, að menn nýti ekki allan þann tíma og skoði ekki öll þau gögn sem fyrir þá eru lögð, heldur hreinlega vegna þess, að mannlegri getu í þessum efnum eru takmörk sett. Um þetta mál, sem er auðvitað milljarða fjárfesting, er auðvitað öllum ljóst að mörgum spurningum er enn þá ósvarað. Því er ósvarað um þessa verksmiðju, hvert rekstrartap gæti orðið á ári hverju nú á næstu árum, og það er auðvitað mikilvæg spurning, og í öðru lagi er ósvarað býsna mörgu í sambandi við markað á þeirri framleiðslu og þá er ég ekki bara að tala um saltið eitt, heldur um aðra þá framleiðslu, er kalla má hliðarframleiðslu, sem þarna kemur til með að eiga sér stað. Og það er dæmigert það framsöguerindi, sem hv. 6. þm. Reykv., Birgir Ísl. Gunnarsson, hélt hér áðan, að hann er auðvitað eins og aðrir hv. þm. allur af vilja gerður og er settur í þann vanda að verða að taka skjóta ákvörðun. Álit hans var eiginlega ein afsökunarbeiðni fyrir því, hversu litlar upplýsingar lægju fyrir, en hans óbreyttu orð voru þau sem ég hygg að sé sjálfur kjarni málsins, að úr því sem komið væri væri ekki hægt að setja fótinn fyrir þetta fyrirtæki. Að vísu má ekki beina því um of að einum einstaklingi því að þetta er það vinnulag sem viðgengist hefur of lengi hjá of mörgum og of mörgum árum saman, en að þessu leyti er þó býsna mikil ábyrgð hjá hæstv. iðnrh. vegna þess hversu seint málið kom fram.

Ég verð enn að vekja athygli á tvennu í þessu sambandi, sem hér var raunar reifað við 1. umr.: í fyrsta lagi að því er varðar hugsanlegt rekstrartap, hversu nákvæmar upplýsingar liggi fyrir um það, ég vil spyrja hæstv. iðnrh. um það, og svo í öðru lagi — ég er ekki að fara fram á neinar langar umr. um þetta — vek ég rækilega athygli á því, hve markaðsmálin í þessum efnum eru ókönnuð. Þegar talað var um þetta við 1. umr. var vísað hér í greinar eftir dr. Sigurð Pétursson. Hann hefur síðan skrifað blaðagrein þar sem hann lýsir mjög neikvæðum viðhorfum um þessi efni, og allt þetta hefði auðvitað verið bæði nauðsynlegt og æskilegt að fá að skoða betur.

Nú skal það þó sagt, að sú brtt., sem iðnn. gerir, er til bóta. Þetta er björgun í horn ef svo má að orði komast, og úr því sem komið er er þetta betra en ekki.

Út af fyrir sig ætla ég ekki að fara að halda langa ræðu um þetta, og þó væri ástæða til að rekja hér mjög ítarlega þær spurningar sem áhugamenn af ýmsu tagi hafa varpað fram í þessum efnum nú á síðustu dögum. Það snýr auðvitað sérstaklega að tvennu, þ. e. arðsemi fyrirtækisins, hver verður hún, og áhyggjur út af markaðsmálum þessa fyrirtækis. En ég segi aðeins það að lokum, að hér hefur þrátt fyrir allt verið settur hemill sem til bóta er.