22.05.1981
Neðri deild: 105. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4864 í B-deild Alþingistíðinda. (5149)

312. mál, sjóefnavinnsla á Reykjanesi

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. iðnn. þessarar deildar fyrir skjót og vel unnin störf í sambandi við athugun þessa máls. Það er aukið við fyrirvara í sambandi við málið. Mér hefur verið bent á að það gæti kannske verkað truflandi á hlutafjárútboð, almennt hlutafjárútboð, að hafa slíkan fyrirvara inni, þó ég telji hann út af fyrir sig að öðru leyti ekki óeðlilegan og ekki til neins tjóns fyrir það verkefni sem hér er á ferðinni, sem er, eins og lýst hefur verið, þróunarverkefni sem á að vinna í áföngum þar sem fyllstu aðgæslu verði gætt í sambandi við fjárfestingu og einstök þrep í þessu máli, þessu upphafi að stórri vegferð, að við væntum, í sambandi við sjóefnavinnslu á Reykjanesi.

Ég er ekki viss um að ég hafi náð alveg fyrirspurn hv. 9. þm. Reykv., en mér heyrðist hún lúta að athugun á markaðsþætti málsins. (VG: Já, væntanlegu rekstrartapi á tveimur, þremur næstu árum.) Tölur þar að lútandi hef ég ekki fyrirliggjandi. Ég held að þar sé ekki raunverulega um taprekstur að ræða miðað við þær forsendur, sem gefnar eru varðandi fjármögnun fyrirtækisins. Það er til lengri tíma lítið a. m. k. gert ráð fyrir að þarna sé um arðbært fyrirtæki að ræða. En skilyrði fyrir því er vissulega að markaður sé fyrir afurðirnar, og það er ekki síst athugun á þeim markaði sem á að fara fram með meira magni af salti en fengist hefur úr tilraunaverksmiðjunni á Reykjanesi sem rekin hefur verið síðan 1978 og hefur aðeins gefið af sér takmarkað magn.

Það er ofur eðlilegt að efasemdir séu uppi varðandi markaðshliðina. En það gefst kostur á því á næstu mánuðum og misserum að kanna hana betur og láta á það reyna áður en ákvörðun verður tekin um stærri verksmiðju.