22.05.1981
Efri deild: 119. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4868 í B-deild Alþingistíðinda. (5166)

56. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. meiri hl. (Jón Helgason):

Herra forseti. Landbn. hefur fjallað um frv. til l. um breyt. á lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu, verðmiðlun og sölu á landbúnaðarvörum o. fl. Á þskj. 1004 er nál. frá meiri hl. landbn. þar sem fram kemur að n. varð ekki sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl., Jón Helgason, Helgi Seljan, Davíð Aðalsteinsson og Eiður Guðnason, leggur til að frv. verði samþykkt eins og Nd. afgreiddi það. Eiður Guðnason skrifar undir nál. með fyrirvara.

Á fund n. komu þeir Ingi Tryggvason, formaður Framleiðsluráðs landbúnaðarins, og Árni Jónasson, erindreki Stéttarsambands bænda, og gáfu þeir ýmsar upplýsingar um þetta mál, þ. e. þá framleiðslustjórnun sem Framleiðsluráði landbúnaðarins var veitt heimild til með breytingu á lögum um Framleiðsluráð á árinu 1979. Undirbúningur að þessari vinnu hefur verið mikill, þar sem hér er um brautryðjendastarf að ræða má segja hér á landi, en þessu verki eða undirbúningi er nú vel á veg komið og þegar hefur orðið margvíslegur ávinningur af þessu starfi.

Þá skýrðu þeir enn fremur frá þeim breytingum, sem brbl. þau, sem hér er leitað staðfestingar á, hafa haft í för með sér, og töldu að þær væru jákvæðar. Þar var annars vegar um að ræða breytingu á því búmarki sem ákveðið er samkv. lögum um Framleiðsluráð, þar sem hægt væri að veita undanþágur frá því, og hins vegar breytingu á ákvæðum um fóðurbætisskatt sem var ákveðinn á s. l. sumri og leiddi til þess að nokkuð dró þá úr mjólkurframleiðslu. En á s. l. ári var orðið þannig ástatt að mjólkurframleiðslan varð það mikil að þeir markaðir, sem um var að ræða fyrir mjólkurvörurnar úr síðustu mjólkurlítrunum, gáfu minna en ekki neitt fyrir bændurna, þar sem útflutningsverð þeirra mjólkurvara, sem út þurfti að flytja þá, greiddi ekki vinnslukostnaðinn í búunum. Þegar þannig var orðið ástatt var augljóst að það var beinlínis skaði fyrir bændurna og landbúnaðinn í heild að halda áfram slíkri mjólkurframleiðslu. Þess vegna er það álit allra, sem til þekkja, að þarna hafi verið um beinan ávinning að ræða fyrir bændur.

Meiri hl. leggur sem sagt til að frv. verði samþ. eins og það kom frá Nd.