22.05.1981
Efri deild: 119. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4870 í B-deild Alþingistíðinda. (5168)

56. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það er nú svo með samleið Alþfl. og Sjálfstfl. í landbúnaðarmálum, sem hv. síðasti ræðumaður var að tala um, að það er nú svo best að ljóst sé hvaða Sjálfstfl. verið er um að tala. Ég skrifaði undir nál. um staðfestingu þessara brbl. með fyrirvara vegna þess að að þessari aðferð, fóðurbætisskattinum, má ýmislegt finna og sumt í þessu sambandi orkar vissulega tvímælis. Hins vegar er ekki hægt að loka augunum fyrir því, að þær framleiðslustjórnunaraðferðir, sem upp hafa verið teknar, hafa skilað árangri til þess að draga úr óhagkvæmri framleiðslu, og ein af þessum aðferðum er fóðurbætisskatturinn.

Vera má einnig að einungis tilvist þessara stjórnunartækja hafi haft veruleg áhrif til þess að draga úr framleiðslunni og beiting þeirra hafi ekki þurft að koma til. Og það er rétt að hafa í huga í þessu sambandi að fallist hefur verið á í meginatriðum þá gagnrýni, sem Alþfl. hefur árum saman haft uppi, og þá stefnu sem hann hefur boðað, að það þyrfti að draga úr óhagkvæmri framleiðslu. Á það hafa bændasamtökin fallist, á það hafa þeir, sem nú stýra landbúnaðarmálum, einnig fallist. Það hefur því verið viðurkennt að þessi gagnrýni, sem um langt árabil var flutt af hálfu Alþfl., lengi vel fyrir daufum eyrum, hefur fengið hljómgrunn og þær aðgerðir, sem gripið hefur verið til hafa haft tilætluð áhrif. Og til þess var auðvitað leikurinn gerður.