22.05.1981
Efri deild: 119. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4871 í B-deild Alþingistíðinda. (5170)

56. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. minni hl. (Egill Jónsson):

Herra forseti. Það kemur mönnum að sjálfsögðu ekki neitt á óvart þótt hæstv. landbrh. vilji ekki tala efnislega um landbúnaðarmál, og kannske skýrir það öll þessi mál miklu betur en nokkuð annað. Það er náttúrlega langbest að þegja þegar menn hafa ekkert að tala og það út af fyrir sig ber á vissan hátt vott um góðan þroska.

En hitt kemur aftur á óvart, að hæstv. landbrh. vilji ekki einu sinni gegna hér eðlilegum þingskyldum sem ráðh. Ég bar hér fram fsp. til hæstv. ráðh. fyrir líklega einum og hálfum mánuði og hann hefur sýnt þá einstöku tillitssemi gagnvart því málefni, að hann hefur ekki séð ástæðu til að svara henni. Og af því að þeir sitja nú saman þarna tveir ráðherrarnir sem ég hef beint fsp. til, þá má kannske geta þess að hæstv. viðskrh. tjáði mér það í gær, líklega einum eða tveimur dögum eftir að ég lagði fram fsp., að hann væri tilbúinn að svara henni. Ég hef aldrei vitað það, þótt ég meti menn aldrei eftir því, hvar þeir eru í pólitík, að Framsóknarráðherrar þyrftu endilega að standa svona miklu framar ráðh. sem kenndu sig við Sjálfstfl.

En það er líka athyglisvert við ræðu hæstv. ráðh., að hann er að tala sérstaklega um bændasamtökin í þessu sambandi, þau hafi beðið um þetta. Það skyldi nú aldrei vera orðið þannig með þennan hæstv. ráðh., að honum þætti betur sæma að láta annan halda á þessum fána heldur en veifa honum sjálfur. Það er kannske mannlegt, en ekki er það mikilmannlegt.

Þá kem ég síðast að því sem ég hef verið að kenna hæstv. félmrh. í allan vetur og er enn ein sönnun þess, að það sætir engri furðu þótt þessi brbl. séu nokkuð á skjön þegar ráðh. er hér enn einu sinni að halda því fram, að kjarnfóðurgjaldið, eins og það var sett fram í brbl., sé með sama hætti og það hefur verið túlkað og sett fram í stefnumótunartillögum Sjálfstfl. Ég ætla aðeins enn einu sinni að minna hæstv. ráðh. á það, að þau tvö dæmi, sem um það eru nefnd, réttara sagt ábendingar, byggjast annars vegar á því að tryggja innlenda framleiðslu gegn niðurgreiddri erlendri fóðurframleiðslu og þar er alveg sérstaklega tilgreint að flatur skattur eigi að miðast við það. Hann er núna enginn til og á grundvelli þeirra forsendna eru ekki efni til þess að hafa hann á. Að öðru leyti er lagt til að heimilt verði að nota háan kjarnfóðurskatt sem stjórnunaraðgerð, og það er skýrt tekið fram að þar er einvörðungu átt við að leggja kjarnfóðurgjald á toppinn af kjarnfóðurframleiðslunni. Það er enn fremur skýrt tekið fram að því á að ráðstafa beint inn í áburðarverðið. Gildi þess hefði m. a. komið fram ef hæstv. landbrh. hefði séð ástæðu til þess að svara fsp. um innheimtu, um álagningu og um upphæð kjarnfóðurgjaldsins, því að þá hefði verið hægt að reikna sér til hversu mikil rýrnun hefur orðið á því fjármagni frá því að bændurnir greiða það og þar til það kemur til þeirra aftur. En með því að láta þetta ganga á einn stað, beint inn í áburðarverðið, hefði þó alla vega verið séð fyrir því. Þetta er, hæstv. ráðh., forsenda Sjálfstfl. fyrir því að fallast á kjarnfóðurgjald. Og ég vona nú satt að segja að ég þurfi ekki að segja mínum kæra vini Pálma Jónssyni þetta oftar, því að þetta skilur áreiðanlega orðið hver einn og einasti maður í þessari deild. (Gripið fram í: Ekki ég.) Það skiptir ekki svo miklu máli.