22.05.1981
Efri deild: 119. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4872 í B-deild Alþingistíðinda. (5171)

56. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Út af fsp. hv. 11. landsk. þm. vil ég láta þess getið, að svar við henni var í gær eða fyrradag sent til skrifstofu Alþingis þannig að hún ætti í raun að vera komin í hendur þm. Það tók nokkurn tíma að afla gagna til að svara þessari fsp. og varð e. t. v. nokkru lengri dráttur á því, að þau gögn skiluðu sér, heldur en æskilegt hefði verið, en svar við þessari fsp. ætti nú að liggja fyrir hér í Alþingi.

Ég vil aðeins endurtaka að ég tel ekki efni til þess né rétt að hefja hér ítarlega umr. um landbúnaðarmál á þessum síðustu annadögum þingsins og þess vegna mun ég ekki taka þátt í því að ræða mjög mikið þá ræðu sem hér var flutt af hv. 11. landsk. þm. Ég aðeins vitna til þess, að hann staðfesti auðvitað það sem ég sagði um þá till. sem hann er flm. að. Sú till. leggur til bæði flatan skatt, sem nú er í gildi, og einnig skatt á hámarksnotkun kjarnfóðurs, sem fylgir þá skömmtunarkerfi á kjarnfóðri sem blessunarlega er búið að leggja af nú. En þetta tvennt skýrði hv. þm. í sinni seinni ræðu og þarf ekki frekari útskýringa við.