22.05.1981
Efri deild: 119. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4874 í B-deild Alþingistíðinda. (5176)

38. mál, kjarasamningar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Það er víst ekki ofsögum af því sagt, að hér er á ferðinni hið mesta vandræðamál sem erfitt er að botna í fyrst og fremst og menn greinir mjög á um hvernig beri að skilja. Ég á von á því, að hæstv. fjmrh., úr því að hann er hér staddur, muni gera okkur grein fyrir því, í hverju misskilningur muni vera þarna fólginn. (Fjmrh.: Ég er búinn að því.) Hæstv. fjmrh. mun vafalaust geta skýrt okkur eitthvað frá þessum alvarlega grundvallarmisskilningi, hver hann muni vera.

Ég leyfi mér nú aðeins að vitna til yfirlýsingar sem Matthías Bjarnason gaf í Nd. í sambandi við þetta mál. Við sjálfstæðismenn munum ekki greiða atkv. um það. Það má vel vera að það geti verið rétt, sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson sagði hér rétt áðan, að eðlilegt væri að samþykkja þessa grein til þess að dómur geti gengið. Ég hygg að dómur gæti gengið engu að síður að því er varðar framgang málsins til þessa, því að þetta eru lög meðan þau hafa ekki verið felld hér á Alþingi. Og auðvitað væri æskilegt að láta dóma ganga í mjög mörgum þeim málum sem hér hafa verið samþykkt á vegum hæstv. núv. ríkisstj., þ. á m. um lagabrot og stjórnarskrárbrot í bak og fyrir. Það var einmitt að berast nú á borð mitt bréf frá Verslunarráði Íslands sem kunngerir að það hafi ákveðið að höfða mál fyrir hönd eins af sínum félögum og styrkja hann til málshöfðunar til þess að hnekkja stjórnarskrárbroti því sem framið var með breytingunni á framleiðsluráðslögunum sem einmitt koma hér á eftir til 3. umr. Sem betur fer búum við enn í réttarríki þannig að hægt er að hnekkja sumu af þeirri löggjöf og ólögum sem hæstv. núv. ríkisstj., versta ríkisstj. í sögu þessa lýðveldis, hefur sett. Að því leyti til má kannske taka undir ummæli hv. þm. Kjartans Jóhannssonar. Ég hygg að það sé grundvöllur fyrir málshöfðun vegna gildis laganna fram til þessa. Þess vegna munum við þm. Sjálfstfl. ekki taka þátt í þeim skrípaleik sem hér er framinn. Þessi löggjöf er öllum til vansæmdar sem að henni hafa staðið. Það hefur komið í ljós og mun koma enn skýrar í ljós.