12.11.1980
Neðri deild: 15. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í B-deild Alþingistíðinda. (518)

73. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að leiðrétta strax misskilning hv. þm. sem ég vænti að hlýði á mál mitt. Það, sem kom fram í fjárlagaræðunni, sannar ekki á nokkurn máta það sem hann hafði haldið fram áður á þingfundi. Það er hinn mesti misskilningur. Hann var að tala um að bæði gjöld og tekjur hefðu aukist meira en fjárlög gerðu ráð fyrir og þá væri það meginregla að tekjurnar ykjust meira en útgjöldin. Ég sagði að þetta væri alrangt, hitt væri sönnu nær, að tilhneiging væri í þróun ríkisfjármála til þess að útgjöldin hækkuðu meira en tekjurnar, þó ekki væri þarna stór munur á. En í fjárlagaræðunni var alls ekki verið að fjalla um þetta atriði. Í fjárlagaræðunni var verið að bera saman heildarhækkun útgjalda og heildarhækkun tekna milli ára, frá árinu 1979 og til ársins 1980, en ekki eins og var í hinu tilvikinu, þar sem verið var að bera saman fjárlögin og raunverulega þróun. Þetta er auðvitað tvennt gjörólíkt. Auðvitað er skýringin á þessum orðum í ræðunni fyrir fjárlagafrv. ósköp einfaldlega sú, að við settum okkur fjárlög í vetur sem voru raunhæf. Þau urðu að gera ráð fyrir meiri hækkun tekna en útgjalda til þess að ekki yrði stórfelldur halli á ríkisbúskapnum. Og þessi áætlun hefur staðist. Það er kjarni þessa máls.

En það vill nú svo til, að fjárlögin eru alls ekki til umræðu eða eiga ekki að vera til umræðu neitt sérstaklega í sambandi við þetta frv. Og það er kannske við hæfi að segja örfá orð um það áður en að ég lýk máli mínu, úr því að ég er á annað borð kominn hér í ræðustól.

Ég vil vekja á því athygli, að frv. um breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt var flutt hér á Alþ. í desembermánuði fyrir tæpu einu ári af þáv, fjmrh., Sighvati Björgvinssyni, eftir að málið hafði verið undirbúið allrækilega marga undanfarna mánuði og margir höfðu komið þar við sögu. Síðan var þetta frv. samþykkt hér á Alþ. í marsmánuði. En þá vantaði að gera breytingar á skattstiganum. Það vantaði að gera breytingar á skattstigum og ýmsar leiðréttingar á frádráttarliðum og öðru sem varðar skattvísitölu. Þarna var um að ræða ýmsar tæknilegar breytingar á skattalögunum sem býsna víðtæk samstaða var um í þinginu. Og ég held ég muni það rétt, að nokkurn veginn allir alþm. greiddu þessum brtt. atkvæði. Það má vera að þar hafi verið einhverjar undantekningar, en ég minnist þess, að t.d. fjh.- og viðskn. Nd. skilaði samhljóða áliti um þær breytingar, sem gerðar voru á frv., og stóð að samþykkt þess. Og ein breytingin, sem þar var gerð og því gerð bersýnilega á ábyrgð allra flokka hér í þinginu, var sú, að sett skyldi þak á vaxtafrádrátt. Ég vil að það komi skýrt fram, að hér var um að ræða breytingu á tekjuskattslögum sem allir þingflokkar stóðu að — með fáum eða engum undantekningum. Ég man ekki nákvæmlega hvort einhverjir skáru sig þar úr, en þeir voru þá mjög fáir. A.m.k. var ljóst að allir þingflokkar stóðu að þessum breytingum.

Hins vegar átti þessi sérstaka breyting um vextina ekki að taka gildi við álagningu í sumar, heldur við álagningu á árinu 1981. Í frv, var gert ráð fyrir ákveðinni upphæð, sem væri hámark þess vaxtafrádráttar sem leyfilegur væri, en sú upphæð er bersýnilega orðin úrelt vegna verðþróunar í landinu. Það er því sjálfgefið eins og tvisvar sinnum tveir eru fjórir, að þessari upphæð hefði örugglega verið breytt núna í vetur þegar gerðar yrðu aðrar breytingar á tekjuskattslögunum. Ég hef ekki þessa grein fyrir framan mig og man ekki hvort þessi upphæð breytist sjálfkrafa í samræmi við skattvísitölu, sem er vel hugsanlegt, eða hvort gera þarf aðrar ráðstafanir til að breyta henni, annaðhvort með reglugerðarbreytingu eða lagabreytingu. En það skiptir ekki máli, því að það er alveg ljóst að þessari tölu hefði að sjálfsögðu verið breytt, hún hefði verið verulega hækkuð. Þess vegna finnst mér satt að segja hálfgerð tímaeyðsla að dvelja í mjög langan tíma yfir þessu frv., vegna þess að hér er um að ræða mál sem bersýnileiga kemur til meðferðar þingsins. Þegar þar að kemur. Ég held þess vegna að eðlilegra væri að geyma sér umræður um þetta mál þangað til það verður. (Gripið fram í: Hvenær verður það?) Ég geri ráð fyrir að það verði öðru hvorum megin við áramótin, en ég get ekki fullyrt nákvæmlega hvenær það verður. En ég minni að lokum á það, að hér er um að ræða það stóra mál: Á að hafa þak á vaxtafrádrættinum eða ekki? Ég held að sú skoðun hafi sigrað hér í þinginu með yfirgnæfandi fylgi þm., að það sé eðlilegt og rétt að hafa þak á þessum vaxtafrádrætti og allt annað sé ósanngjarnt og óeðlileg t, sérstaklega gagnvart láglaunafólki. En hver þessi takmörk eiga nákvæmlega að vera, um það geta auðvitað alltaf verið skiptar skoðanir.