22.05.1981
Efri deild: 119. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4877 í B-deild Alþingistíðinda. (5181)

314. mál, stálbræðsla

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um frv. til l. um stálbræðslu. Iðnn. þessarar deildar hefur haft þetta mál, frv. til l. um stálbræðslu, til umfjöllunar í allmarga daga, enda þótt okkur finnist að sjálfsögðu, hv. nm. í iðnn., allt of skammur tími raunar til þess að fjalla um svo umfangsmikið mál. Þetta sama gildir auðvitað um öll þau frv. um verksmiðjur sem iðnn. hefur haft til umfjöllunar á undanförnum dögum.

Nefndin hefur leitað upplýsinga hjá fjölmörgum aðilum og eru þeir helstu eftirtaldir: Jafet Ólafsson frá iðnrn., Hákon Ólafsson frá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, Gunnar Björnsson frá Félagi byggingarmeistara, Geir Zoëga og Ragnar Einarsson frá Sindrastáli hf., Jón Steingrímsson sem tilnefndur var af Iðntæknistofnun, Haukur Sævaldsson frá Stálfélaginu h. f., Sveinn E. Sigurðsson frá Seðlabanka, Björgvin Guðmundsson frá viðskrn., Jón Sigurðsson frá Járnblendifélaginu, Sigurður Gils Björgvinsson frá Sambandi ísl. samvinnufélaga, Helgi G. Þórðarson frá Verkfræðingafélagi Íslands, Jóhann Már Maríusson frá Landsvirkjun, Hrafn V. Friðriksson frá Heilbrigðiseftirliti ríkisins, Eyjólfur Sæmundsson frá Vinnueftirliti ríkisins, Ólafur Davíðsson frá Þjóðhagsstofnun og Hallgrímur Snorrason jafnframt frá Þjóðhagsstofnun. Umsagnir þessara fjögurra síðastnefndu stofnana eru birtar sem fskj. með þessu nál.

Nefndin hefur engar aths. fram að færa varðandi tæknileg atriði í framleiðslu steypustyrktarstáls hér á landi. Hins vegar leggur n. áherslu á að áður en til aðildar ríkisins komi þurfi að fara fram nánari athuganir á viðskiptalegum og rekstrarlegum grundvelli fyrirtækisins til að ganga úr skugga um að rekstur þess miðist við afurðaverð sem er sambærilegt við heimsmarkaðsverð, sbr. ákvæði til bráðabirgða.

Nefndin leggur til að þetta frv. verði samþykkt með brtt. sem hún flytur á sérstöku þskj. Einstakir nm. áskilja sér rétt til þess að flytja eða fylgja öðrum brtt. sem fram kunna að koma. Undir þetta nál. rita allir hv. nm. í iðnn. Ed.

Ég vil þá leyfa mér að fara örfáum orðum um þær brtt. sem eru á þskj. 1040 og fluttar eru af n. Það má segja um þessar brtt. allar, að þær eru á þann veg að n. var sammála um að kveða á um ýmsa fyrirvara að því er varðar stuðning ríkissjóðs við þá ráðagerð sem hér er fjallað um. Flestar brtt. eru á þá lund.

1. brtt. er við 1. gr. frv., um það að greinin orðist svo: „Ríkisstj. er heimilt að gerast eignaraðili að Stálfélaginu hf. og að leggja fram í því skyni allt að 40% af hlutafé þess, enda verði hlutafé félagsins minnst 30% af stofnkostnaði stálbræðslunnar.“

2. brtt. er að við 2. gr. 2. tölul. bætist: „enda hafi verið tryggð öflun annars lánsfjár vegna stofnkostnaðar.“ Ég vil leyfa mér að lesa upp í heild sinni 2. tölul. 2. gr. eins og hann verður nú:

„Að veita ríkisábyrgð fyrir lánum eða taka lán, er hlutafélaginu verði veitt til byggingar verksmiðjunnar, að fjárhæð samtals 17.5 millj. kr. eða jafnvirði þess í erlendri mynt, enda hafi verið tryggð öflun annars lánsfjár vegna stofnkostnaðar.“

Þessi viðbót er til komin að sjálfsögðu vegna þess að við lítum svo á, að ríkissjóður eða ríkið eigi ekki að hafa þarna forustu. Við viljum treysta á frumkvæði og framlög — sem og ábyrgð þeirra aðila sem hafa áhuga á þessari ráðagerð og eru tilbúnir að fást við hana.

3. brtt. er á þá lund, að 3. gr. frv. falli brott. Þar gildir sama skýring raunar og vegna þeirra frv. tveggja sem héðan eru farin, þ. e. við viljum ekki gera því skóna að hluthafar né heldur stofnendur vegna þeirrar ráðagerðar, sem hér er um fjallað, verði færri en fimm, eins og getið er um í hinum almennu hlutafélagalögum.

4. brtt. er ákvæði til bráðabirgða: „Ekki er ríkisstj. heimilt að gerast eignaraðili að hlutafélaginu skv. 1. gr. né leggja fram fé ríkissjóðs sem hlutafé samkv. 1. tölul. 2. gr. né veita ríkisábyrgð eða taka lán samkv. 2. tölul. 2. gr. fyrr en tryggð hafa verið hlutafjárframlög annarra aðila fyrir 60% hlutafjár, enda sé tryggður rekstrargrundvöllur fyrirtækisins með afurðaverði sem er sambærilegt heimsmarkaðsverði að áliti viðskrn.“

Um aðrar brtt. er ekki að ræða og hafa ekki komið fram frá iðnn.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara mjög mörgum orðum um þetta frv. Gerð var grein fyrir því í framsögu hér á sinni tíð. Ég vænti þess, að hv. þdm. sé sú framsaga í fersku minni, og vil ég vitna til þess.

Að gefnu tilefni vil ég enn og aftur þakka hv. nm. í iðnn. Ed. fyrir fórnfúst starf vegna þessa máls og jafnframt annarra mála sem við höfum fjallað um núna síðustu daga. Það er svo, að þegar skammur tími er eftir af þingi er mikið um fundi og mikið starf sem hv. alþm. verða að leggja á sig. Og ég vil vitna um það hér, að iðnn.-menn hafa lagt á sig ótrúlega mikið starf í þessu efni. Það ber að þakka.