22.05.1981
Efri deild: 119. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4878 í B-deild Alþingistíðinda. (5182)

314. mál, stálbræðsla

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Sú bók, Stálbræðsluáætlun, sem iðnrn. hefur samið, gengið frá og gefið út, er dags. í nóvembermánuði 1980. Allan tímann síðan í nóvembermánuði 1980 hefur þetta mál legið í iðnrn. þangað til nú fyrir fáeinum dögum, 5–6 mánuði. Það verður ekki ráðið af gögnum málsins að nein viðbótarvitneskja hafi fengist á þessum dvalartíma málsins í iðnrn. Hins vegar hefur hæstv. iðnrh. ætlað Alþingi og þar með þessari hv. deild að afgreiða þetta mál ásamt mörgum öðrum á mjög skömmum tíma. Ég hugsa að það láti nærri að tíminn, sem Alþingi hafi verið ætlaður — eða a. m. k. þessari hv. deild — til þess að fjalla um þetta mál, sé í dögum talið álíka langur og málið lá í mánuðum talið í iðnrn. Ég tel að þetta séu með öllu óforsvaranleg vinnubrögð, og það má í raun og sannleika segja að miðað við þennan aðdraganda málsins hafi hv. iðnn. þessarar deildar — og þá einkum og sér í lagi formaður hennar — miskunnað sig yfir málið. Svo knappur tími hefur verið til þess að fjalla um þetta að það verður ekki sagt að tekist hafi að fara ofan í málið með þeim hætti sem ég er sannfærður um að allir nm. hefðu kosið. Hefur þó nefndin verið að kvölds og morgna alla daga að undanförnu og það hefur vitaskuld bitnað á öðrum störfum þeirra þm. sem í nefndinni sátu. Ég get ekki á mér setið að mótmæla harðlega þeirri meðferð sem Alþingi fær með þessum hætti af hálfu hæstv. iðnrh.

Ég held að það sé líka ljóst af nál., sem þó hefur verið komið saman, og þeim tillögum sem n. flytur að tíminn til þess að fjalla um málið hafi verið óeðlilega knappur.

Ég ætla ekki að gera tilraun til þess að rekja hér efnisatriði þessa máls. Þetta er flókið og margslungið mál. En það hefur náðst samstaða í n. um að afgreiða það með þeim hætti sem greinir í nál. allra nm. og með þeim brtt. sem fylgja. Og ég vil einungis taka undir það sem formaður n. sagði, að nm. allir hafa lagt á sig mikið starf, og ég vil færa þeim þakklæti mitt fyrir samvinnuna og þó einkum og sér í lagi formanni n. En ég ítreka það enn og aftur, að sú málsmeðferð að láta þetta mál liggja 5–6 mánuði óhreyft í rn. og koma síðan með það nákvæmlega eins búið og ætla Alþingi álíka marga daga til þess að afgreiða það og það hefur legið marga mánuði óhreyft í rn. er með öllu forkastanlegt. Ég tel ekki að það sé til marks um góðan undirbúning mála sem hæstv. ráðh. hefur þó gjarnan hrósað sér af.