22.05.1981
Efri deild: 120. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4882 í B-deild Alþingistíðinda. (5190)

56. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Nú fyrir skemmstu varð mér af tilviljun litið í boxið mitt hér frammi — ég geri það nú venjulega í upphafi fundartíma, en kannske ekki á miðjum degi — og rakst þá þar á hið merkasta bréf sem er stílað til hv. þm. Ed. Alþingis. Þar sem ég óttast að einhverjir hv. þm. hafi ekki séð þetta bréf, þá leyfi ég mér, með leyfi forseta, að lesa það hér upp. Það er frá Verslunarráði Íslands og hljóðar svo:

„Í dag, föstudaginn 22. maí, munu eiga að fara fram. umr. um frv. til l. um breyt. á lögum nr. 15/1979, um breyt. á lögum nr. 101/1966, um Framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu, verðmiðlun og sölu á landbúnaðarvörum o. fl. Eins og yður er kunnugt er þetta lagt fram til staðfestingar brbl. um kjarnfóðurskatt sem sett voru sumarið 1980. Verslunarráð Íslands álítur að umrædd brbl. séu í andstöðu við 40. gr. stjórnarskrárinnar. Máli sínu til stuðnings hefur Verslunarráðið lagt fram lögfræðilegt álit Helga V. Jónssonar hrl. og löggilts endurskoðanda. Jafnframt er Verslunarráðinu kunnugt um að Alþingi hafi fengið álit prófessors Jónatans Þórmundssonar á málinu, sem kemst að svipaðri niðurstöðu og Helgi V. Jónsson.

Í meðförum Alþingis hefur frv. tekið nokkrum breytingum. Engin þessara breytinga hefur þó raskað grundvallarástæðum þess, hvers vegna vafi leikur á lögmæti kjarnfóðurskattsins. Áður en umrætt frv. kemur til endanlegrar afgreiðslu Alþingis þykir Verslunarráði Íslands rétt að tjá þm. að einn af félögum ráðsins mun fyrir tilstuðlan þess höfða mál til endurgreiðslu á skattinum og ógildingar laganna. Er undirbúningi málshöfðunar lokið og mun því verða stefnt til Bæjarþings Reykjavíkur innan skamms. Vonast Verslunarráðið til að niðurstöður þess máls skeri endanlega úr ágreiningi um lögmæti kjarnfóðurskattsins og þannig fáist endanlegur dómur um þessa lagasetningu.

Með brbl. frá 9. júní 1980 er að mati Verslunarráðs farið inn á nýja og hættulega braut í skattheimtu. Þar sem mikill vafi leikur á lögmæti þessarar ráðstöfunar vill Verslunarráð Íslands hvetja þm. til að íhuga það vandlega hvort rétt sé að greiða staðfestingarfrv. atkv., með tilliti til þess að þm. hafa unnið eið að stjórnarskránni.

Með virðingu.

Verslunarráð Íslands.

Árni Árnason,

framkvæmdastjóri.“

Ég taldi rétt, herra forseti, eins og ég gat um í upphafi máls míns, að lesa bréfið hér upp svo að ekki færi á milli mála að öllum hv. þdm. væri kunnugt efni þess. Það hefur að vísu gerst, bæði hér í þessari hv. d. og eins í hv. Nd., að menn hafi með opin augu greitt atkv. með stjórnarskrárbrotum — eða a. m. k. að áliti hinna hæfustu lagaprófessora sem hafa bent þm. á að þeir væru að brjóta stjórnarskrána sem þeir hafa unnið eið að, en menn hafa látið sig hafa það engu að síður. Hér er sem sagt enn um það að ræða að hinir hæfustu lögmenn telja að um stjórnarskrárbrot sé að ræða. Þess vegna er að mínu mati eðlilegt að nafnakall fari fram um endanlega afgreiðslu málsins svo að menn sjái hverjir það eru sem veigra sér ekki við að greiða jáyrði frumvörpum sem hinir hæfustu lögmenn telja stjórnarskrárbrot.