22.05.1981
Neðri deild: 106. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4885 í B-deild Alþingistíðinda. (5204)

320. mál, raforkuver

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Í 1. gr. á þskj. 974, sem eru brtt. frá Birgi Ísl. Gunnarssyni o. fl. segir, með leyfi forseta: „Landsvirkjun er heimilt að fengnu samþykki eignaraðila að reisa og reka eftirtalin orkuver.“ Nú er það svo, að eignaraðili að Landsvirkjun er að hálfu ríkið, að verulegu leyti, tæpum helming, borgarstjórn Reykjavíkur og afgangurinn er eign norðanmanna með Laxárvirkjun sem aðila. Ég tel alveg fráleitt að sveitarfélög eins og Reykjavíkurborg séu allt að því skylduð með lagaboðum til að taka að sér framkvæmdahlutverk á öllum þeim orkuverum sem stendur til að reisa í framtíðinni, og ekki bara það, heldur líka reka þau. Þá ábyrgð vil ég ekki leggja á herðar Reykvíkinga frekar en norðanmanna. Ég tel að hér eigi að vera um að ræða ríkisstofnun — sem gæti þá heitið Landsvirkjun sem væri framkvæmda- og hönnunarfyrirtæki og hefði þá ekki öðru hlutverki að gegna en að reka og reisa orkuver fyrir hönd ríkisins. Ég segi því nei.