22.05.1981
Neðri deild: 107. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4889 í B-deild Alþingistíðinda. (5223)

274. mál, varnir gegn sjúkdómum og meindýrum á plöntum

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá Ed. og varð samstaða um afgreiðslu þess þar. Í 2. gr. frv. segir og skýrir raunar alveg hvað felst í þessu frv.: „Landbrh. getur samkv. þessum lögum gert varnarráðstafanir og gefið út reglugerðir, sem stuðla að því: 1) að fyrirbyggja að hættulegir skaðvaldar berist til landsins og dreifist innanlands, og útrýma skaðvöldum, sem þegar hafa borist til landsins“ o. s. frv.

Þetta er til þess að hægt sé að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir að inn í landið berist meindýr eða sjúkdómar með plöntum eða einhvern veginn öðruvísi. Núgildandi lög um sama efni eru frá 1927 og eru alveg orðin úrelt.

Þegar landbn. fjallaði um málið var samstaða um það í n. að mæla með því að frv. yrði samþykkt efnislega eins og það kom frá Ed. Hins vegar lítum við þannig á, að það mundi kannske vera hægt að leiðrétta vafasamt málfar í nokkrum greinum. En þegar við fórum að athuga það nánar, eftir að við vorum búnir að skila nál., þótti okkur einsýnt að það yrði að flytja brtt., sem eru á þskj. 1019. Hér er eingöngu um að ræða að breyta svolítið orðalagi og ég er ekki að skýra það frekar.