22.05.1981
Neðri deild: 107. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4890 í B-deild Alþingistíðinda. (5225)

274. mál, varnir gegn sjúkdómum og meindýrum á plöntum

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. landbn. fyrir afgreiðslu á þessu máli og get lýst fylgi mínu við þær brtt. sem n. hefur lagt fram. Ég get að ýmsu leyti tekið undir almenn orð hv. þm. Árna Gunnarssonar um það, að æskilegt sé að vanda mál á þeim þskj. sem hér eru lögð fram, og vissulega er unnt að benda á ákveðið orðalag í þessu frv. sem betur mætti fara, einkanlega þar sem orðið hámark er sett í fleirtölu, sem er vafalaust af vangá.

Ég vil þó einnig geta þess, að það er auðvitað hægt að lesa svo einstakar mgr. að það sé lítt skiljanlegt. Varðandi það, sem hv. þm. sagði t. a. m. um skaðvald, þá hefst þetta frv. með orðaskýringum. Þar segir t. a. m.: „Mein merkir frávik frá því sem heilbrigt má teljast, og skaðvaldur merkir þær lífverur og lífræna þætti sem meinum valda á plöntum“ o. s. frv. Þetta tiltekna orð er því notað um ákveðið hugtak. Um það má kannske deila, hvort á að nota það orð um þetta tiltekna hugtak eða ekki. Ég tel hins vegar að skaðvaldur sé fullgott og gilt orð og það beri raunar í sér hvað það merkir.

Tilteknar aths. um skýringar við einstakar greinar eða það sem segir í grg. frv. skal ég ekki fjölyrða um. Hér er um nokkuð tæknilegt frv. að ræða og ekki ástæða til þess að fjalla um það í löngu máli. En ekki veit ég hvort hæstv. forseti vildi taka það til athugunar að ráða hv. 6. þm. Norðurl. e. í það hlutverk sem hann var hér að benda á að þyrfti að kveðja mann til.