22.05.1981
Neðri deild: 107. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4890 í B-deild Alþingistíðinda. (5226)

274. mál, varnir gegn sjúkdómum og meindýrum á plöntum

Forseti (Sverrir Hermannsson):

Um orðfærið á ýmsum þskj. má margt segja. Það er margur skaðvaldurinn í rituðu íslensku máli. Það má víst segja. Og ekki skal farið mörgum orðum um það. Við erum svo heppnir að hafa hér í þjónustu okkar mann sem er ákaflega vel að sér í þessum sökum, en margt getur í önnum farið framhjá honum. En ég tek undir það, að þetta er hið brýnasta mál, að menn gái vel að sér. Ekki er fyrir það að synja, að hér viðhafi menn orðalag sem er lítt skiljanlegt. Má ég minna á það sem menn éta nú hver upp eftir öðrum hér á Alþingi, um að málefni skarist. Og það er orðið til nafnorð sem heitir skörun. Þetta er ekki til í íslensku máli. Hlutir skarast, skildir skarast, fylkingar stóðu sköruðum skjöldum, en það kannske dregur til þess einhvern tíma að það verði farið að mæla menntamál eftir metratalinu. Ekkert skal ég um það segja. Hér segir hver maður að heita má að menn gangi á undan með góðu fordæmi. Það er ekki til. Það er auðvitað að ganga á undan með góðu eftirdæmi og skiptir þar engu máli þótt eftirdæmi þýði sama og fordæmi. En það er kalið á mönnum brageyrað og menn skilja ekki hljómfall málsins með því að rangsnúa þessu svona. En ekki meira um það.

Ég mun sannarlega beita mér fyrir því, að reynt verði að gá vel að orðfæri og orðalagi á þskj. En það mætti gjarnan líka athuga um orðfæri í ræðum.