22.05.1981
Neðri deild: 107. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4897 í B-deild Alþingistíðinda. (5234)

335. mál, framkvæmdasjóður aldraðra

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Aðeins örstutt. Ég þakka hæstv. fjmrh. hans annars ágætu svör og vil aðeins benda honum á það, að hv. þm. Alþfl., Magnús H. Magnússon og Jóhanna Sigurðardóttir, fluttu brtt. við þetta frv. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Leggja skal 1% álag á álagðan tekju- og eignarskatt einstaklinga og félaga, í fyrsta sinn árið 1981.“

Þessi till. hlaut ekki náð fyrir augum hv. stjórnarþingmanna, og ég hef þess vegna gert þetta m. a. að umræðuefni hér í dag. Ég tek undir það með hæstv. fjmrh., að það væri auðvitað fráleit hugmynd að leggja nefskatt á fyrirtækin. Það yrði nánast hlægilegt að hugsa sér að Flugleiðir og Eimskip greiddu 100 kr. hvort félag í slíkan sjóð. Ég vil líka taka undir það með hv. þm. Alexander Stefánssyni, að auðvitað ættu lífeyrissjóðirnir að koma hér inn í því að það hlýtur að vera brot af þeirra hlutverki að sjá til þess, að aldrað fólk þurfi ekki að komast á vonarvöl þegar það hættir að vinna, eins og dæmin sanna, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu.

Að öðru leyti mun ég ekki gera þetta frekar að umræðuefni, en ítreka það enn á ný og aftur, að mér hefði þótt það nokkru stórmannlegra af hv. þm. Alþb. og ráðh. þeirra, sem með þessi mál fer og um fjallar og hefur völdin, að beina nú geiri sínum örlítið meira og stefnufastar að fyrirtækjunum sem hafa í gegnum árin fengið arðinn af vinnu þess fólks sem við erum að tala um.