22.05.1981
Neðri deild: 107. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4903 í B-deild Alþingistíðinda. (5242)

301. mál, umferðarlög

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir til umr., fjallar aðallega um tvö atriði: heimild til þess, að reiðhjól séu í umferð á gangstéttum og gangstígum, og í öðru lagi lögleiðingu öryggisbelta í bifreiðum. Bilbeltamálið hefur það jafnan verið kallað hér í þinginu. Mig langar til að víkja aðeins örfáum orðum fyrst að ákvæðinu um heimild til hjólreiða á gangstéttum.

Það virðist ekki hafa orðið neinn ágreiningur um þetta atriði. Í mínum augum er ákaflega hæpið að leyfa umferð reiðhjóla á gangstéttum. Ég tel álitamál hvor er í meiri hættu, hjólreiðamaðurinn á akbrautinni eða gangandi vegfarandi á gangstéttinni með reiðhjólaumferð allt í kringum sig. Ég hef hér sérstaklega í huga unglinga og gamalt fólk. Ég er hrædd um að börnum og unglingum, sem aðallega eru nú á reiðhjólum í umferðinni, gleymist stundum að fara með gát og að gangandi vegfarendum — og þá sérstaklega eldra fólki — geti orðið hætt með hjólreiðafólk á gangstéttum. Hins vegar veit ég að þetta ákvæði muni vera sett inn til þess að forða fólki á reiðhjólum frá bráðum háska á akbrautum bifreiðanna. Ég hefði talið að þarna hefði þurft að koma nánari skilgreining. Mér finnst ekki sama hvort fólki er leyft að hjóla á gangstéttum á Laugaveginum eða hvort því leyfist að hjóla á gangstígum meðfram Miklubrautinni eða öðrum hraðbrautum. Ég geri ráð fyrir að reyndin muni sýna hvort ótti minn er þarna á rökum reistur, og það má þá alltaf breyta lögunum ef það kemur í ljós að af þessu stafar mikil hætta og leiðir jafnvel til slysa.

Þá er komið að lögleiðingu bílbeltanna. Ég var sjálf fyrir einum 4–5 árum flm. á þingi að frv. til laga um breytingu á umferðarlögum sem fól í sér — ásamt mörgum öðrum atriðum raunar — lögleiðingu bílbelta. Þetta var endurflutt, það var flutt tvisvar frv. þessa efnis, en náði í hvorugt skiptið fram að ganga. Það sem aðallega var haft á móti frv. þá, var að okkar aðstæður í umferðinni væru ekki líkar aðstæðum í neinu öðru landi, og þá sérstaklega bent á þjóðvegina. Það var náttúrlega nokkuð til í þessum rökstuðningi. Á hitt var þó bent á móti á þeim tíma, að dauðaslys og stærri óhöpp verða raunar margfalt fleiri í þéttbýli heldur en úti á þjóðvegunum. Í þessu frv. hefur verið komið til móts við þessa gagnrýni og ábendingu á okkar slæmu og hættulegu vegum, þannig að dómsmrh. geti með undanþágu sett reglur um notkun öryggisbelta, þ. e. veitt undanþágur frá lögskyldu þegar um akstur er að ræða við erfið og hættuleg skilyrði utan þéttbýlis. Málið í því formi, sem það er nú, er m. ö. o. verulega mildað frá því sem áður var og ég tel það til bóta.

Ég get tekið undir með landlækni, Ólafi Ólafssyni, sem hefur látið svo um mælt, að þetta sé í rauninni ekkert einkamál, hvorki mitt né þitt. Slys, örkuml og dauði í umferðinni eru í rauninni orðið mikið samfélagsvandamál og ég tel samfélagslega nauðvörn að leita nú sömu leiða og 30 aðrar þjóðir hafa gert og lögleiða notkun öryggisbelta. Ég sjálf viðurkenni að mér finnst hálfgert leiðindaumstang að þurfa samkvæmt lögum að setja á mig öryggisbelti hversu litla bílferð sem ég fer í. Ég hygg þó að þarna sé vanaatriði annars vegar, þetta kemur fljótlega upp í vana. Og ég minnist þess, að ég var stödd úti í Svíþjóð um hálfu ári eftir að notkun öryggisbelta var þar leidd í lög og fólk sagði: Okkur fannst þetta hábölvað fyrst í stað og felldum okkur illa við það, en nú er þetta orðið svo sjálfsagt að við kippum okkur ekki upp við það lengur.

Ég vil segja það, að ef við á annað borð tökum nokkurt mark á rannsóknum og tölulegum niðurstöðum rannsókna um þessi mál, þá er okkur hreinlega ekki stætt á því að hafna því frv. sem hér liggur fyrir. Ég fer ekki út í neinn rökstuðning fyrir þessu. Þetta er svo margrætt mál frá öllum hliðum og hv. þm. eru fyllilega ljós þau rök sem færð hafa verið fram með því og móti. Ég vil aðeins nefna tvær tölur í þessu sambandi sem færðar hafa verið fram sem rök fyrir lögleiðingu bílbeltanotkunar og ég tel mig ekki geta vefengt. Annars vegar er það sú tala sem tilgreinir að dauðaslysum og alvarlegum slysum hafi fækkað um 30% hjá þeim þjóðum sem lögleitt hafa bílbelti. Það er líka staðhæft að dauðaslys á Íslandi á tveimur árum, árunum 1977–1978, hefðu orðið 15 færri ef notkun bílbelta hefði þá verið lögleidd. Auðvitað tökum við þessum tölum með nokkrum fyrirvara, en þó að mannslífin hefðu ekki verið fleiri en 10 og jafnvel 5 sem við hér á okkar landi hefðum bjargað frá glötun með því að set ja á okkur bílbelti, þá finnst mér að samvisku okkar vegna getum við ekki skorast undan því að leggja á okkur þessi litlu óþægindi sem ég þrátt fyrir allt tel notkun bílbeltanna vera.

Ég veit að það eru nokkuð skiptar skoðanir um þetta. Þó fagna ég því, að Ed. afgreiddi þetta frá sér með jákvæðum hætti, og ég vona að sú verði einnig raunin á með hv. Nd.