22.05.1981
Neðri deild: 107. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4907 í B-deild Alþingistíðinda. (5244)

301. mál, umferðarlög

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég á stutt erindi, aðeins það að lýsa yfir eindregnum stuðningi mínum við lagasetningu þessa. Rannsóknir í tugum landa hjá milljónaþjóðum hafa sannað — ekki leitt rök að eða líkur fyrir, heldur fært sanninn heim um það, að lögleiðing bílbelta er stórkostleg öryggisaðgerð sem bjargað hefur mannslífum í stórum stíl. Þetta hafa rannsóknir sannað. Þeir, sem mæla þessu gegn, halda því fram, eins og jafnan í mörgum öðrum efnum, að Íslendingar séu alveg sér á kvisti. Má minna á það, að Ísland er í hópi þeirra fimm þjóða sem hafa flestar bifreiðar á íbúa, og það er ekkert sem liggur fyrir um það, að hér eigi eitthvað annað við en það sem á við hjá öllum öðrum þjóðum sem tíðkað hafa þetta og rannsakað til þrautar. Ekkert liggur fyrir. Maður vestan úr Bolungarvík, sem blæs sig út yfir þessu og þykist vita einhver dæmi um að menn hefðu farist ef þeir hefðu verið bundnir í bílbelti, hefur ekkert á bak við sig í sínum fullyrðingum. Og það er undarlegt að heyra alþm. gera því skóna við lagasetningu að ekki verði farið eftir lögum. Og þeim mun undarlegra er þetta sem mér skilst að hv. þm. Karvel Pálmason hafi verið notaður í viðlögum sem lögregluþjónn í Bolungarvík til að gæta laga og réttar. Það er með ólíkindum að heyra fólk og hv. þm. berja höfðinu við steininn þegar rannsóknir og sannanir liggja fyrir í þessu máli.

Um þetta litla mál, um heimild til að aka á reiðhjóli á gangstéttum, þá bendi ég á að þetta er aðeins heimild sem mjög óvíða kann að verða leyfð. En ég bendi á eina gífurlega umferðaræð í Reykjavík, Miklubrautina austur úr, þar sem varla má nokkru sinni sjá gangandi mann á þeim gangstéttum endilöngum og þar sem útsýni er svo gott sem raun ber vitni. Þar fyndist mér mjög vel geta komið til greina að þessi heimild væri notuð þar sem er mest hættan greinilega á sjálfri akbrautinni. Þetta er auðvitað undantekningartilfelli, en ekki þar sem er gífurlegur fjöldi fótgangandi fólks, eins og hér í miðbænum til að mynda. Það hefur engum dottið í hug. Það er aðeins heimild þar sem það á við, sjálfsagt í mjög fáum tilfellum.

Ég sagði, herra forseti, að ég ætlaði ekki að eyða mörgum orðum að þessu. Við erum ekki að tala um neitt þar sem menn eru að giska á eitt eða neitt. Við erum með járnkaldar staðreyndir fyrir framan okkur — járnkaldar staðreyndir sem með engu móti verða hraktar Og svo ætlar einhver hv. alþm. að taka á sig þá ábyrgð að greiða atkv. gegn því að þetta verði lögbundið. Það er þýðingarlaust fyrir frjálsræðismenn, sem flagga jafnan hátt frjálslyndi sínu, að tala um að það ætti að vinna þessu framgang með auglýsingum og áróðri í sjónvarpi og útvarpi. Aðrar þjóðir hafa gengið úr skugga um að þetta næst aldrei fram nema með lögþvingun. Það er þess vegna sem við gerum þetta, af því að það næst ekki öðruvísi fram. Auðvitað væri það öllu fólki skapfellilegra að þetta mætti fram ganga, þessi skynsamlega aðgerð, án þess að það þyrfti lögþvinganir til. Það er enginn að gera það að gamni sínu að setja slík lög. En að tala um að þetta sé einhver skerðing á persónufrelsi manna, þá geta menn alveg eins sagt að það eigi ekki að setja lög um brunavarnir og hvað eina sem samfélagið hlýtur að reyna að binda í lög til þess að gæta öryggis íbúanna. Við erum að þessu ár út og ár inn. Ég geri ekki ráð fyrir því, að ég hefði verið snokinn fyrir þessari aðferð nema af því sem ég hef lesið skýrslur um þetta úr hverju einasta landi. Og það er hreint út í bláinn, enda órökstutt með öllu, að hér eigi eitthvað annað við. Það kann að vera að það eigi við á þessum 11 km sem eru frá Hnífsdal og út að Ósi í Bolungarvík eða fyrir Ólafsvíkurenni eða Ólafsfjarðarmúla. I:g skal ekkert um það dæma, enda er þá kominn inn í lögin möguleiki á að gera undantekningu, sem er að vísu varhugavert að mínum dómi, en á það hafa menn sæst. En ég ætla að vænta þess, að þegar þetta verður orðið að lögum, sem ég leyfi mér að vænta að verði, þá verði a. m. k. þeir, sem verða launaðir sem lögregluþjónar, að ganga rösklega fram í að framfylgja lögunum.