22.05.1981
Neðri deild: 107. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4908 í B-deild Alþingistíðinda. (5245)

301. mál, umferðarlög

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ástæðan fyrir því, að ég kveð mér hér hljóðs, er sú, að ég átti sæti í þeirri nefnd sem afgreiddi þetta mál til deildarinnar nú í morgun, en ég skrifaði undir nál. með fyrirvara ásamt tveimur öðrum hv. þm., þeim Ólafi Þ. Þórðarsyni og Eggert Haukdal. Ástæðan fyrir því — a. m. k. ástæðan fyrir minni afstöðu til málsins — var sú, að ég tel að þetta mál hafi verið allt of stutt hjá n. til þess að hún hafi fengið tækifæri til þess að skoða málið og þau gögn í málinu sem nauðsynlegt er til þess að geta gefið út haldbært nál. Hér er um að tefla aðallega tvö og jafnvel fleiri atriði til breytinga á umferðarlögunum, eins og komið hefur fram hér í umr. Má þar nefna heimild til þess að aka á reiðhjóli á gangstígum og gangstéttum og hins vegar svokallað bílbeltaatriði.

Það er auðvitað aðalatriði málsins, og ég held að um það verði ekki deilt, að fólk noti þau öryggistæki sem fyrir hendi eru í bílum. Hins vegar eru deilur uppi um það, með hverjum hætti hægt er að fá fólk til að nota þessi öryggistæki. Sumir hafa bent á að ekki sé nauðsynlegt að fara lögþvingunarleiðina í þessum efnum, það þurfi ekki að þvinga fólk með lögum til þess að setja á sig bílbelti, svo sjálfsagt sem það er, það væri hægt að ná árangri með öðrum hætti. Ég er þeirrar skoðunar, að nauðsynlegt sé að setja ákvæði um bílbelti og notkun þeirra í lög. En það er hins vegar ekki það sama og að skrifa í einu og öllu undir þá aðferð sem hér er viðhöfð. Það væri t. d. hægt að hugsa sér að fara þá leið, að tekið væri tillit til þess, hvort fólk notar þessi öryggistæki, ef slys ber að höndum, eins og sums staðar er gert þar sem fjallað er um bílbelti í lögum. Vil ég nefna til land eins og Vestur-Þýskaland þar sem farin er sú leið. Það er að vísu þannig, að með skilningi umferðarlaganna, greinum í umferðarlögunum, má nota það til bótalækkunar ef öryggisbelti eru ekki notuð. En ég hygg að það hafi aldrei reynt á þetta atriði í lögum. Ég er hins vegar viss um að ef fólki væri gert það ljóst, að um það væri að tefla að það gæti misst bótarétt, þá gæti það með vissum hætti ýtt undir að fólk notaði heldur bílbelti. Þessi skoðun hefur komið fram. Hún hefur ekki nægilega verið rædd til þess að hægt sé að taka til hennar afstöðu. Á þessu atriði byggist m. a. fyrirvari minn.

Umr. um þetta mál eru að sjálfsögðu ákaflega gagnlegar. Það liggja fyrir tiltölulega ný gögn í málinu frá landlækni og Umferðarráði sem ekki hefur gefist tími til að skoða í hv. allshn. Og eins og ég hef sagt áður, þá koma ýmsar aðrar leiðir til greina. Það var þess vegna sem ég taldi ekki ástæðu til að þetta frv. yrði að lögum á yfirstandandi þingi, en það mætti nota sumarið til þess að kynna þetta mál og leggja fram frv. að lokinni þeirri kynningu næsta haust og gætu þá lögin tekið gildi t. d. um áramótin. Eins og allir vita mundi það ekki muna nema nokkrum mánuðum því að ekki er gert ráð fyrir að þessi lög taki gildi fyrr en næsta haust.

Það er auðvitað grundvallarspurning, sem er ósköp eðlilegt að sé rædd í þessu máli, hvort eigi að þvinga fólk með lögum til ákveðins hátternis, hvort ekki eigi að láta fortölur nægja eða hvort treysta eigi á ábyrgðartilfinningu einstaklinganna í þjóðfélaginu. Slík efnisatriði hljóta að koma til skoðunar þegar rætt er um málefni á borð við þetta, og slík umr. er að sjálfsögðu ósköp eðlileg í tengslum við bílbeltamálið.

Herra forseti. Ég hef gert grein fyrir mínu máli, gert grein fyrir því, hvers vegna ég skrifaði undir nál. með fyrirvara. Það byggðist ekki á efnislegri andstöðu við málið, heldur fyrst og fremst því, að ég taldi eðlilegra að málið fengi frekari skoðun og umfjöllun og umræður áður en farin væri lögþvingunarleiðin, því að eins og allir vita eru lög, sem ekki er farið eftir, verri en engin lög. Það kennir okkur aðeins að umgangast lögin eins og einskisverðan hlut ef sett eru ákvæði sem ekki er ætlast til að farið sé eftir. Að vísu er farið bil beggja í þessari löggjöf. Það eru engin viðurlög við því til að byrja með að spenna ekki á sig bílbelti, og má segja að slík lögþvingun sé ekki gífurlega hörð eða ákveðin því að auðvitað hefði þá átt að beita sektum eða öðrum viðurlögum ámóta. En hér er valin sú leið að nota lögin nánast til þess að fá fólk með frjálsum hætti til að gera þetta. Og spurningin er: Hefði ekki alveg eins verið hægt að gera það án lagaákvæðisins í bili, en tefla lögþvingunarleiðinni fram á seinni stigum? Það eru slík atriði sem ég vildi skoða betur. En ég tek það fram, að n. fékk málið aðeins til umfjöllunar á einum fundi og sá fundur var nú í morgun.