13.11.1980
Sameinað þing: 19. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í B-deild Alþingistíðinda. (525)

Rannsókn kjörbréfs - varamenn taka þingsæti

Forseti (Jón Helgason):

Mér hafa borist eftirfarandi bréf:

„Reykjavík, 12. nóv. 1980.

Birgir Ísl. Gunnarsson, 6. þm. Reykv., hefur í dag ritað mér á þessa leið:

„Þar sem ég er á förum til útlanda til þess að sitja þing Sameinuðu þjóðanna og mun því ekki geta sótt þingfundi næstu vikur leyfi ég mér með skírskotun til 138. gr. laga um kosningar til Alþingis að óska þess, að 1. varamaður Sjálfstfl. í Reykjavík, Ragnhildur Helgadóttir, taki sæti á Alþingi í fjarveru minni.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt.

Sverrir Hermannsson,

forseti Nd.

Ragnhildur Helgadóttir hefur áður átt sæti á þessu þingi og býð ég hana velkomna til starfa.

Þá er hér annað bréf:

„Reykjavík, 12. nóv. 1980.

Sighvatur Björgvinsson, 3. þm. Vestf., hefur í dag ritað mér á þessa leið:

„Þar sem ég er á förum til útlanda í opinberum erindum og mun því ekki geta sótt þingfundi á næstunni leyfi ég mér með skírskotun til 138. gr. laga um kosningar til Alþingis að óska þess, að 1. varamaður Alþfl. í Vestfjarðakjördæmi, Gunnar R. Pétursson rafvirki, taki sæti á Alþingi í fjarveru minni.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt með ósk um að þér látið fram fara í sameinuðu þingi rannsókn á kjörbréfi varamanns.

Sverrir Hermannsson,

Forseti Nd.

Með þessu fylgir hraðskeyti:

„Í kosningum til Alþingis 2. og 3. des. 1979 hlaut Gunnar R. Pétursson, Fjöllum 13, Patreksfirði, kjör sem 1. varaþm. Alþfl. í Vestfjarðakjördæmi. Kjörbréf Gunnars póstlagt í dag.

F.h. yfirkjörstjórnar Vestfjarðakjördæmis

Jón Ólafur Þórðarson,

formaður.“

Þá er hér þriðja bréfið:

„Reykjavík, 12. nóv. 1980.

Ólafur G. Einarsson, 3. þm. Reykn., hefur í dag ritað mér á þessa leið:

„Þar sem ég er á förum til útlanda í opinberum erindum og mun því ekki geta sótt þingfundi á næstunni leyfi ég mér með skírskotun til 138. gr. laga um kosningar til Alþingis að óska þess, að 1. varamaður Sjálfstfl. í Reykjaneskjördæmi, Sigurgeir Sigurðsson bæjarstjóri, taki sæti á Alþingi í fjarveru minni.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt með ósk um að þér látið fram fara í Sþ. rannsókn á kjörbréfi varamanns.

Sverrir Hermannsson,

forseti Nd.

Eins og fram kemur í þessum bréfum hafa tveir þeir síðast töldu ekki átt sæti á Alþingi á þessu kjörtímabili og þarf því að fara fram rannsókn á kjörbréfum þeirra. Vil ég biðja kjörbréfanefnd að taka þau til athugunar, og verður gefið fundarhlé á meðan. — (Fundarhlé.]