22.05.1981
Neðri deild: 107. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4916 í B-deild Alþingistíðinda. (5252)

301. mál, umferðarlög

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég get ekki alveg áttað mig á hvernig stendur á því, að umr. skuli haldið áfram hér í Nd. Það liggur fyrir að þinglausnum hefur verið frestað fram yfir helgi, og ég get ekki skilið hvers vegna hæstv. forseti lætur ekki þegar fara fram atkvgr. um raforkufrv. þannig að bæði starfsmenn þingsins og þm. geti farið heim. Það er búið að halda mönnum hér frá morgni til kvölds með óeðlilegum hætti heila viku og mönnum hefur ekki verið unnað stundarhvíldar. Menn hafa ekki fengið tíma til að setja sig inn í mál. Ég ætlast til þess, að þegar í stað verði hringt til atkvgr. um raforkufrv. Það er öllum þm. skylt að vera hér í húsinu. Hér er einn ráðh. kominn, hinir eru í einhvers konar- ég veit ekki hvort þeir hafa farið á 7-bíó eða hvað þeir eru að þvælast. Ef stjórnarsinnar geta ekki verið viðlátnir verður að slíta fundi. Ég lít á það sem freklega móðgun við þingheim allan og sérstaklega þessa deild, að forseti skuli ekki slíta fundi þegar í stað þegar ákveðin hefur verið frestun á Alþingi, eða a. m. k. að drífa atkvgr. í gegn, þannig að það sé ekki einhver sérréttindahópur hér innan þingsins, hv. stjórnarsinnar, sem geti ráðið hér stjórn deildarinnar, ráðið hvenær atkvgr. fara fram, ráðið hvaða mál séu á dagskrá, fimbulfambað um reiðhjól og minni háttar mál í staðinn fyrir að drífa af atkvgr. um aðalatriði og höfuðmál.