22.05.1981
Neðri deild: 107. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4918 í B-deild Alþingistíðinda. (5259)

301. mál, umferðarlög

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Ég ætla að segja örfá orð um það frv. til l. um breyt. á umferðarlögum sem hér er til umr. Eins og öllum hv. alþm. er kunnugt, að ég ætla, er þetta frv. samið af umferðarlaganefnd sem ég skipaði á s. l. hausti til að gera heildarendurskoðun á umferðarlöggjöfinni. Það er að flestra áliti orðið fyllilega tímabært. Það, sem auðvitað fyrst og fremst vakir fyrir þeim sem vilja endurskoða og breyta umferðarlöggjöfinni, er að auka öryggið, koma í veg fyrir hin geigvænlegu slys og afleiðingar þeirra.

Frv., sem hér liggur fyrir, er það fyrsta sem komið hefur frá hendi umferðarlaganefndar. Að sjálfsögðu heldur hún áfram að starfa hér eftir sem hingað til. Ég veit ekki hvað starf hennar tekur langan tíma í heild, en talið var eðlilegt að leggja þetta frv. fram nú þar sem nefndin hafði gengið frá því.

Þetta frv. fjallar, eins og hv. alþm. vita, um nokkrar breytingar á umferðarlögunum. Aðallega má segja að umr. snúist um hvort lögleiða eigi hin svokölluðu bílbelti, og vitanlega er það öryggissjónarmiðið sem fyrir mönnum vakir.

Ég hef fylgst nokkuð með störfum þessarar nefndar og veit að hún vinnur vel og samviskusamlega undir forsæti Sigurjóns Sigurðssonar lögreglustjóra í Reykjavík.

Eins og ég tók fram þegar ég mælti fyrir þessu frv., bæði í Ed. og Nd., er þetta að vísu stjfrv., en þó hafa nokkrir ráðh. fyrirvara og eru beinlínis andvígir því, að ég ætla a. m. k. tveir. Þetta tók ég mjög skýrt fram í þeim orðum sem ég lét fylgja frv. úr hlaði. Hins vegar eru þessi mál mikið í sviðsljósinu og mikill þrýstingur frá öllum hliðum að reyna að auka öryggið í umferðinni, þar megi einskis láta ófreistað. Ég taldi mér því skylt að leggja þetta frv. fram. Á hinn bóginn vil ég benda alveg sérstaklega á það, að ég hef ekki á einn eða annan hátt rekið áróður fyrir þessu máli. Ég hef lagt það hér á borð ykkar, hv. alþm., borð löggjafans, og það er ykkar að segja ykkar álit og skera úr því og setja lögin. Ég hef ekki ætlað mér neitt áróðurshlutverk í þessu máli. Þess vegna er það að mínum dómi alger sleggjudómur hjá hv. 10. landsk. þm. í þeim orðum sem látin voru falla hér áðan, að það sé verið að keyra þetta mál í gegnum þingið. Ég setti það ekki með þeim frv. sem ég óskaði að fengju afgreiðslu fyrir þinglok. Ég vildi að það væri í ykkar höndum, hv. alþm.

Það er nú líka svo, að enginn veit hver áhrif það hefur þó reynt sé að reka áróður fyrir vissum málum. Við höfum nýlegt dæmi um það héðan úr hv. d., þegar við Vestlendingar reyndum að berjast fyrir friðun Faxaflóa eftir mætti og héldum nokkrar ræður við allar umr. um það mál. En það fór nú eins og það fór og öllum er í fersku minni. (Gripið fram í.) Að vísu voru miklar breytingar til bóta gerðar á því máli í Ed., a. m. k. ber það bréf frá ráðh., sem þar var lagt fram, ljóst vitni um það. (Gripið fram í: Það var engin breyting gerð á frv.) Nei, ekki sjálfu frv., en þetta frv. er nú ekki hér á dagskrá, þó að ég minnist á það í leiðinni. En mér skilst að það séu a. m. k. þó nokkuð margir hv. alþm. sem hafa hug á að stuðla að því, að þetta frv. til l. um breytingu á umferðarlögunum verði að lögum fyrir þinglok.

Þá ætla ég aðeins að leyfa mér að gera tvær eða þrjár aths. við frv. Það segir hér í 64. gr. a: „Hver sá, er situr í framsæti bifreiðar, sem búin er öryggisbelti.“ Þarna á að standa: „sem búið er öryggisbelti“, því að þar er átt við sætið. „Hver sá er situr í framsæti bifreiðar sem búið er öryggisbelti.“ Þetta má laga. Það er eiginlega ekki nema einn stafur sem þarf að breyta. Í 5. gr. segir: „Dómsmrh. skipar 18 menn í Umferðarráð til þriggja ára í senn.“ Hins vegar hefur nefndin bætt við fulltrúa frá Öryrkjabandalagi Íslands og þá á þessi heildartala í Umferðarráði að hækka í 19. Þetta er hægt að laga. Ég bendi mönnum á þetta.

Svo segir hér í 6. gr.: „Eigi skal refsa fyrir brot gegn 3. gr. fyrr en lokið er þeirri heildarendurskoðun umferðarlaga sem hófst í sept. 1980.“ Að sjálfsögðu er það ekki keppikefli að refsa mönnum fyrir brot af þessu tagi, heldur fyrst og fremst að ná fram auknu öryggi í umferðinni í heild. Hins vegar er þetta náttúrlega dálítið óvenjulegt ákvæði í löggjöf, en mér er sagt að það eigi sínar fyrirmyndir erlendis frá svo að ég ætla ekki að gera neinar frekari aths. við það.

Hv. 10. landsk. þm., sem hér tilkynnti að borin yrði fram frávísunartillaga við þetta mál, hneykslaðist á orðalaginu, að það væri heimilt að aka á reiðhjóli og leiða reiðhjól á gangstígum og gangstéttum ef það er ekki til hættu og óþæginda fyrir aðra vegfarendur. Það er nú einmitt það. Ég tel það alveg út í hött að hneykslast á þessu orðalagi. Það er fyrst og fremst þetta sem minnir á þá meginreglu í allri umferð, að það á ekki að keppast við að banna það sem ekki er til hættu né óþæginda fyrir vegfarendur. Það eru fyrst og fremst vegfarendurnir sem verið er að vernda. Umferðin getur verið örugg ef tillit er tekið til vegfarenda. Þó að við lögleiðum bílbelti og setjum alls konar reglur sem geyma boð og bönn, þá getum við aldrei lokað augunum fyrir þeirri meginreglu sem verður að gilda í allri umferðarlöggjöf, að sýna öðrum vegfarendum, samferðamönnunum, fyllstu tillitssemi. Það var t. d. tekið skýrt fram, ef ég man rétt, í 37. gr. gömlu umferðarlaganna. Þetta er mikilvæg meginregla, sem að vísu þarf alltaf að vera að benda fólki á og hefur í raun og veru miklu meira gildi en ótal ítrekaðar einstakar boð- og bannreglur.

Ég vil svo að lokum taka það fram, eins og ég sagði áðan, að þetta mál er í ykkar höndum. Það er í höndum löggjafans eins og það á að vera, og það er undir ykkur komið hvort það verður að lögum fyrir þinglok. En aðalatriðið í mínum augum er fyrst og fremst að leggja áherslu á það meginsjónarmið, að við breytum umferðarlöggjöfinni á þann veg að við aukum aðgát reynum að koma í veg fyrir slys og eflum virðingu vegfarendanna fyrir samferðamönnunum í umferðinni.