22.05.1981
Neðri deild: 107. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4919 í B-deild Alþingistíðinda. (5260)

301. mál, umferðarlög

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Þetta er nú orðin býsna löng umr. um bílbelti hér á þingi og ég var farinn að óttast áðan að komið væri nokkurt svefnrugl á suma þm., en það virðist vera að það hafi hægst heldur um.

Það fer ekki fram hjá neinum, að þetta mál er ekki bundið í viðjar nema pólitískra flokka, heldur fer það eftir persónulegri reynslu hvers og eins frekar en nokkuð annað. Hér hafa verið flutt rök með og móti bílbeltum, gild rök sum, önnur ekki.

Ég hef haft nokkurn ama af þessu frv. og er yfirleitt ekki hrifinn af því að lögþvinga fólk til þess að hegða sér á einhvern ákveðinn hátt. Hins vegar fer ekki hjá því í siðuðu samfélagi, að það þarf að beita lögum til þess að menn fari eftir vissum reglum. Þessi lög þvinga fólk auðvitað til ákveðinna athafna, það fer ekkert á milli mála, — athafna sem sumum er ami að, en öðrum ekki.

Ég er hins vegar alfarið þeirrar skoðunar, að það sé ekkert einkamál manna hvort þeir spenna á sig bílbelti eða ekki. Ástæðan fyrir því er einfaldlega sú, að kostnaður samfélagsins vegna slysa er svo mikill að það getur ekki verið einkamál þess manns, sem af aðgæsluleysi notar ekki það öryggistæki sem hann hefur við höndina til þess að koma í veg fyrir að aðrir slasist og hann slasist og samfélagið beri stórkostlegan kostnað af. Þetta finnast mér vera einna þyngstu rökin í þessu máli.

Segja má með nokkrum sanni að þetta megi heimfæra upp á ýmislegt annað í samfélaginu: menn sem fara illa með heilsu sína vitandi vits og með opnum augum og koma síðan að dyrum sjúkrahúsanna og segja: Hér er ég, nú verðið þið að bjarga mér. — Þá vil ég líka benda á það sem nokkur rök á móti bílbeltum, að lögbinding leiðir að vissu leyti til heldur hvimleiðs eftirlits lögregluyfirvalda. Þetta þekki ég m. a. frá Svíþjóð þar sem það er mjög hvimleitt, svo að ekki sé meira sagt, hvernig lögregla fylgist með borgurum einmitt í þeim tilgangi að gæta þess, að þeir noti bílbeltin. En þar er hins vegar sá leikur leikinn, að menn rétt sveifla beltunum yfir öxlina á sér, án þess að festa þau, til þess að lögreglumönnum sýnist að þau séu notuð. Þetta gæti líka gerst á Íslandi ef ég þekki Íslendinga rétt, því miður.

En í grundvallaratriðum byggist afstaða mín til þessa máls á persónulegri reynslu. Og hún er þess eðlis, að ég tel að það leiki ekki nokkur vafi á að við verðum að samþykkja þetta frv. Ég var eitt sinn í bifreið sem var ekið á miklum hraða aftur undir aðra bifreið. Þar gat ég horft á eftir farþega í framsæti fara út um framrúðu og hljóta mjög alvarleg meiðsl af og örkuml, ör sem verða borin til æviloka, og bílstjórann fá stýrisstöngina í kvið sér. Ég get ekki sagt að þetta hafi verið neitt skemmtilegt, en þetta er daglegt brauð á Íslandi. Slys af þessu tagi eru daglegt brauð. Og þeir, sem hafa lesið skýrslu landlæknis um þetta mál, geta ekki verið í nokkrum vafa um réttmæti þess að lögleiða bílbelti, þó að stöku mönnum sé ami að notkun þeirra og sumum þyki löggjafarvaldið ganga fulllangt í því að rekast í málum einstaklinganna og því sem sumir telja sín einkamál.

En ég hef sagt hér áður að það getur varla talist einkamál manns hvort hann slasar sjálfan sig og/eða aðra, sem þjóðfélagið og skattþegnarnir þurfa síðan að standa straum af, þ. e. kostnaðinum vegna sjúkrahúsvistar eða annars.

Óskar Ólason, sá ágæti lögreglumaður, hefur skýrt frá því, að á 43 ára starfsævi í lögreglunni hafi hann aðeins einu sinni orðið vitni að því, að öryggisbelti hafi valdið manni bana. En hann bætti því hins vegar við, að hann ætti ekki orð til að lýsa því, hvernig útlits og umhorfs hafi verið þar sem alvarleg slys urðu og bílbelti voru ekki notuð. Þessi atriði verða menn að hafa í huga. Ég skal hins vegar játast undir það, að ég tek mikið mark á þeim mönnum sem segja með fullum rétti að bílbelti eigi ekki rétt á sér í allmörgum tilvikum. Sjálfur kem ég úr kjördæmi þar sem þarf að fara fyrir Ólafsfjarðarmúla, sem talinn er einn af hættulegustu vegum landsins ásamt með tveimur öðrum, og aldrei hvarflaði að mér að hlíta lögum um bílbelti er ég keyri fyrir Ólafsfjarðarmúla. En þetta eru undantekningartilvikin. Og staðreyndin er sú, að langmestur hluti alvarlegra slysa, þar sem bílbelti eru ekki notuð, verða auðvitað í þéttbýlinu og þar er umferðin mest. Þar eru bílarnir flestir og fólkið flest. Þar verða líka slysin flest.

Ég vil bara biðja hv. þm. að hugleiða það mjög vandlega, að þótt þeim þyki nokkuð gengið á persónulegan rétt einstaklingsins með þessu frv. og með þeim lögum sem væntanlega verða nú samþykkt, þá sé hér á ferðinni svo mikið öryggisatriði að það geti nánast ekki nokkur þm. tekið á sig þá ábyrgð að vera á móti þessu máli. — Ég hef ekki frekari orð um þetta.