22.05.1981
Neðri deild: 107. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4934 í B-deild Alþingistíðinda. (5268)

320. mál, raforkuver

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég vil við 3. umr. um þetta frv. til l. um raforkuver lýsa yfir fyllsta stuðningi við brtt. á þskj. 1046 við það frv. sem hér er til umr. og er flutt af þeim hv. þm. Sverri Hermannssyni og Magnúsi H. Magnússyni. Þessi till. gengur út á þá breytingu á frv., að ríkisstj. skuli þegar leita eftir samningum um sölu raforku til orkufreks iðnaðar með stóriðju staðsetta á Reyðarfirði fyrir augum. Og ég vil segja það þessari till. til stuðnings, að á undanförnum árum hef ég haft tækifæri til þess að ferðast alloft austur á firði í pólitískum erindum á vegum míns flokks og þykist hafa kynnst þar allmörgum aðilum í þessum landsfjórðungi, og ég er sannfærður um að vilji þar stendur mjög til þess, að ekki aðeins verði virkjað þar bæði fljótt og vel, heldur er samfara þeim vilja skilningur á því, að það er auðvitað óðs manns æði að búa til orku ef enginn er kaupandinn.

M. ö. o.: kaupendur verða að vera til og þeir kaupendur verða ekki öðruvísi til en í formi orkufreks iðnaðar. Í þessum landsfjórðungi var fyrir áratug eða rúmlega það mjög deilt um staðsetningu menntaskóla. Hins vegar hefur ekki verið deilt um það þar, hvar þetta fyrirtæki mundi rísa, ef af yrði og skynsamlegir samningar næðust, heldur er þar mikil samstaða um það, að með skynsamlegum samningum ætti slíkt fyrirtæki að rísa í Reyðarfirði, og það mundi hafa það í för með sér, að nágrannabyggðarlögin mundu hagnast bæði beint og óbeint.

Því segi ég þetta um ferðir sjálfs mín í þennan fjórðung, að það er nú einu sinni svo, að með slíkum hætti kynnast menn sjálfir því sem um er að ræða, og ég er sannfærður um það, að í þessum fjórðungi eru ekki aðeins skynsamlegar hugmyndir uppi um það, hvernig best sé að þessum málum staðið, heldur eru þessar hugmyndir fullkomlega í jafnvægi. Menn horfast þar í augu við bæði kost og löst á því sem þarna gæti átt sér stað, og menn hafa gert þetta upp við sig. Og ég hef út af fyrir sig ekki trú á öðru en að hv. d. samþykki þá brtt. sem hér er um að ræða. Hér er um það eitt að ræða, að við það sé staðið, sem a. m. k. í orði kveðnu er tilgangur frv.

Mig langar í nokkrum orðum til að gera tvennt að umræðuefni í þessu sambandi. Það er annars vegar frv. sjálft, sem hér er um að ræða, og hins vegar atkvgr. og framkoma hv. þm. Eggerts Haukdals í þessum efnum.

Nú er auðvitað öllum það ljóst, að eins og frá þessu frv. hefur verið gengið — ef við eigum að segja að það sé endanlega, þ. e. við 2. umr. þessa máls, þá er frv. að því leyti ónýtt að klukkan er sett ár aftur á bak. M. ö. o.: það er út af fyrir sig ekkert það heimilað sem ekki var heimilt fyrir ári. Í þessum efnum öllum eru ákvörðunarefni sem við þurfum að gera upp við okkur, en slíkum ákvörðunarefnum er slegið á frest — og það er auðvitað kjarni málsins — í þeim drögum að frv. eins og þau eru frá gengin eftir 2. umr. í þessari hv. deild. Og það er auðvitað þess virði að spyrja, af hverju þetta sé komið svona. Nú vita auðvitað allir Íslendingar um hvað þetta mál snýst. Auðvitað vita allir Íslendingar að þetta mál snýst um það, að hér á landi hafa menn á undanförnum árum verið að leita að virkjunarkostum. Menn hafa smám saman þrengt sig niður og þessum kostum hefur fækkað. Og menn vita það nú á allra síðustu árum, að það eru ekki nema þrír kostir sem eftir standa. En málið er auðvitað ekki þar með leyst, vegna þess að þessum virkjunarkostum fylgir það, að menn þurfa að hafa nokkrar hugmyndir um hverjir eiga að verða hugsanlegir kaupendur þeirrar orku sem framleidd verður ef af verður. Og það er auðvitað þar sem hnífurinn stendur í kúnni. Og af hverju er það svo? Ástæðan er fyrst og síðast sú, að heill stjórnmálaflokkur eða samtök áhugamanna um stjórnmál eru búin síðan á miðjum næstliðnum áratug að ala á þeirri skoðun, lífsskoðun, og þá ekki síst meðal ungs fólks, — og hér get ég trútt um talað vegna þess að þessi hamagangur byrjaði á þeirri kynslóð og þeim aldursflokki sem ég tilheyrði, — að í fyrsta lagi væri starfsemi yfir tiltekinni stærð eðli málsins samkvæmt af hinu illa, og í öðru lagi að samvinna við erlent fólk — það var að vísu ekki spurt um trúarbrögð og ekki um litarhátt, en allt að því — samvinna við erlent fólk nálgaðist það að vera landráð. Þessi umr. byrjaði um miðjan næstliðinn áratug og henni hefur verið haldið áfram linnulaust síðan. Og þessa sögu þarf auðvitað að segja í þessu sambandi.

Í þessu sambandi hefur það gerst — svo að talað sé ekki aðeins um hugmyndir, sem mig þó langar að gera í þessu sambandi, heldur einnig um staðreyndir — ef við horfum á staðreyndirnar einar, þá gerðist tvennt: Í fyrsta lagi var — eftir feikilegar deilur sem stóðu lengi — reist verksmiðja við Hafnarfjörð, þar sem kallað er í Straumsvík, og í öðru lagi — raunar mörgum árum síðar — verksmiðja í námunda við Akranes, þar sem kallað er við Grundartanga. En staðreyndin er sú, að fylking manna og kvenna, sem ég vil ekki vera að kalla slagorðum af erlendum toga, en það er staðreynd, að fylking manna og kvenna fór hamförum á móti þessum fyrirtækjum báðum. Ég leyfi mér að segja að ég þekki þetta allvel vegna þess að ég tilheyri þeirri kynslóð hverrar stór hluti féll fyrir þessum áróðri á sínum tíma. En staðreyndir þessa máls tala engu að síður skýrustu máli. Og staðreyndirnar eru einfaldlega þær, að í öllum þeim atriðum, þar sem sannanir verða bornar fram með eða móti, höfðu þessir menn rangt fyrir sér. Þeir halda því stundum fram nú að þeir hafi aðeins verið að tala um verð á raforku á þessum tíma. Það er alrangt. Og það er satt að segja miklu meira en alrangt. Það er haugalygi, svo að ekki séu notuð stærri orð. Þeir voru að tala um allt annað á sínum tíma. Þeir héldu því fram, að þetta yrði láglaunasvæði. Þeir héldu því fram, að þetta mundi menga, spilla og eyðileggja ekki aðeins umhverfi, heldur menningu í þeim sveitarfélögum sem þéttbýll skal kalla og nálægt standa, þ. e. annars vegar í Hafnarfirði og hins vegar á Akranesi. Þetta hefur reynst vera alrangt. Þeir héldu því fram, í anda þess sem á enskri tungu er kallað „new left“ og við getum kallað einhverja nýja vinstri stefnu, eins og þeim málflutningi hættir til að vera, sem auðvitað hefur í dag bæði sannast að vera hagfræðilega rangur og efnislega út í hött og alvitlaus — þetta voru tískufyrirbrigði þeirra ára, 1957–1972, þegar þessi málflutningur varð til. Eftir standa einasta ruglaðar athugasemdir og vitlaus lífsskoðun, hvernig sem á er lítið: hagfræðilega, umhverfislega, félagslega, hvernig sem á þessi mál er litið. Á þeim tíma var verið að tala um miklu fleira. Margt af þessu fólki vissi ekki að stefna andstæð mengun hafði verið mjög ríkjandi t. d. á Bretlandi á árunum 1780–1810 þegar iðnbylting þar var að ganga í gegnum nýtt skeið. Margt af þessu fólki hélt — vegna þess að forustumenn og kennarar upplýstu það ekki nógu vel — að hér væri að fara fram einhver ný umræða um heim sem væri að farast vegna reyks og óholls andrúmslofts.

Allt um það, þegar þetta dæmi er gert upp andar ekki spilltu lofti úr hverjum firði og hverri vík á Íslandi. Þessar verksmiðjur hafa risið, þær hafa risið hægt. Það urðu vissulega að sumu leyti mistök í Straumsvík og þau mistök hafa menn verið að reyna að leiðrétta. Vitaskuld getum við deilt til eilífðarnóns um það, hvort verðið á raforkunni hefði getað verið hærra. Þó vantar inn í þá umræðu og mjög oft inn í röksemdafærslur hæstv. iðnrh. þá staðreynd, að á þeim tíma þegar samið var lágu kaupendur erlendis ekki á lausu. Þá var það spurning um að hrökkva eða stökkva, eins og gerist í slíkum viðskiptum. Og þó að markaður gildi ekki innanlands, þá gildir hann vissulega milli landa, eins og ráðh. er kunnugt um, t. d. á milli Sovétríkjanna og Póllands. Þá þurfa menn stundum að taka áhættu. Og auðvitað má segja það eftir á, að kannske hefði verið betra að taka annars konar áhættu og hafa meira upp úr því. En að svo miklu leyti sem hægt var að sanna eða afsanna hluti á þeim tíma sem þetta gerðist, þá held ég að engum sanngjörnum eða skynsömum manni sé efi í huga um það, að hér voru gerðir ekki aðeins skynsamlegir, heldur byltingarkenndir samningar, ef farið er til baka og síðan horft til framtíðar í íslensku þjóðlífi. Miklu frekar er ástæða til að undrast, þegar skoðað er allt það mál sem kenna má við Grundartanga og þegar keyrt er ofan að þeirri verksmiðju og hún skoðuð, hvernig hún liggur að landi og hversu vel hún er byggð, hversu litlum náttúruspjöllum hún veldur, hversu vel þetta fellur að umhverfinu. Það er mín skoðun að ekki sé hægt annað en dást að því, hverju mannvitið og hugvitið fær þrátt fyrir allt áorkað.

Ég vil segja við þá Austfirðinga, þegar að því kemur að þeir huga að verksmiðju — sem kannske verður ekki á næstu mánuðum vegna þess sem hv. þm. Eggert Haukdal hefur fengið áorkað — það verður fyrr en síðar, þá eru það mín ráð að þeir skuli ekki horfa á Straumsvík, þeir skuli horfa á Grundartanga til þess að sjá hvað hægt er að gera, hvernig hægt er að komast hjá í grófum dráttum talað náttúruspjöllum, og þeim mun nær sem við komum sjálfum okkar í tímanum, þeim mun meira — a. m. k. í verklegum efnum — fer okkur fram.

En því eru þessi orð höfð um það sem Alþb. ól upp í heilli kynslóð fólks, að sú staðreynd skal viðurkennd að auðvitað finnur fólk á hverjum tíma hjá sér þörf fyrir eitthvað nýtt. Og hvað var að gerast á þessum tíma? Hver var ástæðan fyrir því, að þetta svokallaða „new left“ átti fylgi að fagna? Ég bið forláts á því að nefna þetta á ensku. Það var mitt umhverfi á þeim tíma sem þetta var að eiga sér stað og sérhver mannleg vera er nú þannig gerð að fylgjast hvað best með hlutunum út frá eigin nafla.

Á þessum tíma var að koma í ljós að það, sem á þeim tíma var vissulega kommúnismi og þeirra tíma kynslóð hafði ræktað með sér, það var guð sem hafði brugðist. Þetta voru stórkostleg vonbrigði heillar kynslóðar á þeim tíma og heillar kynslóðar þar á undan. Og þegar þetta gerist, m. a. með innrás Sovétríkjanna í Tékkóslóvakíu, þá auðvitað brotnar niður hugmyndafræðilega heil kynslóð manna sem hafði tekið kommúnisma sem guð. Öll höfum við okkar guði með ýmsum hætti. Hugmyndafræðilega brotnar þessi kynslóð niður, og þar held ég að hæstv. iðnrh. okkar komi mjög sterklega inn í þessa umr. Og af hverju er það svo? Vegna þess að hann tilheyrir þessari kynslóð, hann tilheyrði þessari gömlu umræðu. Það er auðvitað ljóst, að sem unglingur og ungur maður var hann gamaldags kommúnisti. Það er rækilega skrásett í frægri bók um SÍA-skýrslur og það allt saman. En enginn maður á aðgjalda um of æskuverka sinna eða jafnvel hugmynda um langa hríð. Þessar hugmyndir breyttust efalítið mikið. En það sem gerist er einfaldlega það, að hæstv. iðnrh. verður kennari heillar kynslóðar þegar heilt hugmyndakerfi, heilt trúarkerfi er að brotna niður. Og sú nýja stefna, sem hann fer að kenna, byggist m. a. á því, að stórrekstur og þar með stóriðja sé ævinlega af hinu illa, að samvinna við útlendinga sé ævinlega af hinu illa. I þeirri furðulegu moðsuðu miðri, sem er afrakstur hinnar brotakenndu hugmyndafræði þessara ára, stendur hæstv. iðnrh. Af því erum við að súpa seyðið og fyrir það erum við að gjalda í dag.

Nú vil ég að það sé alveg ljóst af þessum orðum mínum, að sumpart er ég að bera blak af hæstv. ráðh. Því er haldið fram í aðskiljanlegum fjölmiðlum og iðulega að hann sé það sem kallað er „kommúnisti“. Þetta orð nota ég í gæsalöppum. Og hvað þýðir orð eins og þetta? Það þýðir það, að maður sé samviskulega, móralskt meðábyrgur í Gúlag, beri meðábyrgð á fangelsun Sakharovs. Svo mætti lengi telja. Ég held að slíkur málflutningur og slíkar röksemdir eigi ekki rétt á sér. Ég held að ekkert af þessu komi í raun og veru þessu máli við. Ég held að niðurstaðan verði sú, þegar þessi mál eru skoðuð, að auðvitað hefur hæstv. ráðh. þróast með þessari hugmyndafræði. Hann gekk í gegnum sína hugarins „krísu“ eins og fleiri árin kringum 1968. Og á þeim árum gerist það, að hann tekur þátt í því að ala á nýrri hugmyndafræði með hluta af ungu kynslóðinni. Þar held ég að öll skekkjan liggi. Og af hverju skekkja? Þetta er skekkja af mörgum ástæðum. En ein af ástæðunum er sú, að þessir hlutir fara nú að ganga upp með öðrum hætti. Þegar hæstv. ráðh. varð þm. á árinu 1978 kom í ljós ein brotalömin, nefnilega sú, að það skólafólk, sem búið var að ala upp í þessari hugmyndafræði, þeirri hugmyndafræði að fyrirtæki yfir tiltekinni stærð hlytu ævinlega að vera af hinu illa, þeirri hugmyndafræði að öll efnahagsleg samvinna við útlendinga hlyti ævinlega að vera af hinu illa, þá kom einfaldlega í ljós að þetta fólk, sem svona hugsar, er alls ekki búsett austur á fjörðum. Þetta fólk er búsett hér á Faxaflóasvæðinu, að svo miklu leyti sem það er til. Nú mætti gera sér í hugarlund að þessu fólki færi út af fyrir sig fækkandi. Ég er ekki viss um það. En kjarni málsins er einfaldlega sá, að þessi hugmyndafræði fær ekki staðist, hvernig sem á er lítið, ekki efnahagslega, ekki félagslega. Hún var röng í upphafi. Mönnum annarrar skoðunar voru gerðar upp skoðanir sem hvergi fengu staðist, hvort sem við erum að tala um launamál, félagsmál, mengunarmál eða sjálfstæðismál síðast og ekki síst, hvernig sem á er lítið. Þeim voru gerðar upp skoðanir og þessar skoðanir reyndust vera rangar.

Í þessu samhengi hafa menn mjög velt sér hér upp úr því, að það er brostinn flótti í lið hæstv. ráðh. austur á fjörðum. Auðvitað hefur enginn okkar rétt til þess að gera of mikið úr því, þó að einn tiltekinn maður skipti um stjórnmálaflokk. En engu að síður er ástæða til þess að vekja á því athygli, eins og aðrir hafa gert, að segja má, að þarna sé sú pólitík, sú hugmyndafræðilega brotalöm sem ég þykist hér hafa verið að lýsa, það hatur á stórum rekstri, það hatur á samvinnu við útlendinga sem alið hefur verið á og kölluð pólitísk heimspeki, — þessi hugmyndafræði er einfaldlega að brotna. Hún er að brotna vegna þess að það er að renna upp fyrir mörgum þeim, sem á þessu hatri hafa alið, að þeir höfðu rangt fyrir sér. Það er svo einfalt. Hvernig sem á það er lítið er þetta kjarni málsins. Og ég er sannfærður um það, að ef hæstv. iðnrh. hefði verið stjórnmálamaður hér á suðvesturhorninu hefði honum að mörgu leyti vegnað betur en honum gerir þarna fyrir austan. Til þess liggja ýmsar flóknar félagslegar ástæður sem eiga sér rætur í þeirri sögu sem ég hef rakið hér í löngu máli. Og hann er auðvitað ekki nátengdari efni SÍA-skýrslanna en það, að auðvitað gerir hann sér grein fyrir því er tímar líða fram að lýðræðið hefur sínar afleiðingar og ber sína innri ábyrgð. Þar kemur að um alla þessa hluti er spurt að nýju. Og þó svo að þessi flókna lífsskoðun, sem hann átti þátt í að búa til á árunum eftir 1968, eigi sér nokkra samsvörun hér, t. d. uppi í háskóla og víðar hér á suðvesturhorninu, þá á hún sér bókstaflega enga samsvörun fyrir austan, hvorki í Fjölbrautaskólanum á Egilsstöðum né annars staðar, vegna þess að á þessu landssvæði — og það er að mörgu leyti kostur við það umfram t. d. suðvesturhornið — er beinni vegur á milli beinnar framleiðslu og þegnsins sjálfs. Það er þetta raunhæfa ástand sem gerir það að verkum, að niðurstaðan verður einfaldlega með þessum hætti. Allt þetta mál, sem hér hefur verið til umr., snýst, held ég, um þennan raunveruleika, að hæstv. iðnrh. — og ekki bara hann, heldur flokkur hans — hefur átt í þessari innri „krísu“. Menn hafa verið að leysa óleysanleg mál. Menn hafa verið að leysa þau mál að vilja virkja orkulindir landsins án þess að á hinum endanum sé orkufrekur iðnaður. Það er búið að ala hluta af kynslóð upp í þeim falska veruleika að þetta sé hægt. Auðvitað veit skynsamur maður eins og hæstv. iðnrh. að þetta dæmi gengur ekki upp. Og vegna þess að hæstv. iðnrh. veit að þetta dæmi gengur ekki upp, þá hefur hann aftur og aftur, allar götur síðan 1978, beðið um frestun á þessu máli, nú síðast í frv. og síðan brtt. á þskj. 1017 við þetta sama frv., með þeim hætti að æpandi verður.

Allt þetta stóra frv. og einnig þær brtt., sem meiri hl. hefur við það flutt, þau fela í sér beiðni um að fresta vandamálum sem ég hef hér persónugert í einum einstaklingi, sem auðvitað er ekki alls kostar sanngjarnt því að það eru vandamál heilla samtaka, heils stjórnmálaflokks. Og það er auðvitað sjálfur kjarni málsins. Þeir vilja ekki komast að þeirri niðurstöðu, að rökrétt samhengi sé á milli orkufreks iðnaðar og virkjunar fallvatna. Og hvernig á svo að vera? Þeir viðurkenna ekki enn þá, að ýmislegt hafi áunnist með fyrirtækinu í Straumsvík. Þeir viðurkenna ekki enn þá, að fyrirtæki eins og Grundartangi sé gott fyrirtæki sem borgar há laun, eins og a. m. k. í eina tíð var baráttumál verkalýðshreyfingarinnar í landinu. Það er þetta sem er kjarni málsins. Þetta er kreppa ráðh. og þetta er kreppa heilla samtaka. Og ég undirstrika þá skoðun mína, að þessi efni koma því út af fyrir sig ekki við að hæstv. ráðh. eða þeir, sem í kringum hann eru, séu kommúnistar eða ekki kommúnistar. Fyrir minn smekk eru allar slíkar vangaveltur heldur frumstæðar. Vandinn er sá, að þegar öll sú hugmyndafræði átti í kreppu, sem hún auðvitað átti fyrir hálfum öðrum áratug, tæpum þó, þá meðtóku þeir nýja hugmyndafræði. Og ég held að því megi bæta við, að einn maður hér á landi var öðrum snjallari í því að gera þá hugmyndafræði að veruleika. Þetta var Magnús Kjartansson á fyrri tíð. Þessi hugmyndafræði smitaði marga af kynslóð sem ég þekki mætavel. En hún hefur líka reynst vera dýr og þann kostnað erum við að bera nú.

Ég er sannfærður um það, ef ég reyni með jákvæðum hætti að skoða huga hæstv. iðnrh., Hjörleifs Guttormssonar, að hann er auðvitað vel lesinn í sögu sósíalismans, t. d. sögu Ráðstjórnarríkjanna. Hann veit auðvitað að að svo miklu leyti sem þar varð efnaleg bylting á sínum tíma í þágu þeirra sem minna máttu sín, þá gerðist það með stórtækum iðnaði. Og þegar allt þetta er skoðað og þegar jafnframt er skoðuð hin hugmyndalega saga, þá verður öll þessi andstaða þeirra gegn stórtækum iðnaði sérstæð, furðuleg og úr öllum takti við allt það sem þeir hafa áður sagt eða gert. En svona þróaðist þetta samt. Núna sitjum við uppi með það, að fjölmargt fólk, einkum fólk sem stundað hefur langskólanám og tilheyrir þessum flokki, meðtók þessa fordóma fyrir 10 árum. Og hæstv. iðnrh. og allur flokkurinn stendur núna í þeim sporum að vera að reyna að vinna sjálfan sig, vinna flokkinn út úr þessari pólitísku kreppu, sálarlegu kreppu sem þeir standa frammi fyrir. Meðan þeir eru að þessu er það því miður svo, að aðrir hv. alþm. verða til þess að hjálpa upp á það að biðin er framkvæmd. Og sú bið verður auðvitað ekki bara í eitt ár, heldur kann svo vel að fara að hún verði um lengri tíma.

Þetta, sem hér hefur verið lýst, held ég, þegar allt kemur til alls, að sé kjarni þessa máls. Það frv., sem hér er verið að mælast til við þessa hv. deild Alþingis að samþykkja er frv. um biðstöðu. Það, sem ráðh. er að gera, er að segja við deildina: Bíðið. Leyfið okkur að bíða. Og e. t. v. býr að baki, í gæsalöppum sagt og hugsað: „Ég get talað við kynslóðina sem við svikum og prettuðum í áratug. Ég get sannfært hana um að það sé ekkert rangt við stóriðju, það sé ekkert rangt við orkufrekan iðnað; það sé ekkert rangt við þetta, okkur hafi orðið á söguleg mistök í áratug eða svo. Ég get sannfært ykkur“ — og gæsalöppum er lokað.

Spurningin er: Eigum við hin að vera að taka þátt í þessu? Gerðum við ekki betur í að ýta þeim til hliðar og segja við þá: Leysið þið ykkar eigin mál og gerið þau upp við ykkur. Við hin skulum láta framfarir eiga sér stað á meðan þið eruð að gera þessi mál upp við ykkur. Og þar tengjast þessi mál furðulegri afstöðu hv. þm. Eggerts Haukdals hér í dag og raunar undanfarna daga. Og það er auðvitað kapítuli út af fyrir sig, að ekki aðeins fjölmiðlarnir hér, heldur heilt þjóðþing hafi horft á og látið þessa hluti nánast draga sig á asnaeyrunum. Auðvitað stóð aldrei til annað en það, að hv. þm. Eggert Haukdal lúffaði fyrir því stefnuleysi, þeirri biðstöðu sem verið er að setja öll þessi mál í. Þó gátu þeir, sem lásu flokksmálgagn þessa sama hv. þm., 6. þm. Suðurl., Eggerts Haukdals, í morgun séð að hann spurði orðrétt, með leyfi forseta: „Hvað þýðir að vera að virkja án þess að huga almennilega að því að útvega orkukaupendur?“ Þetta sagði Eggert Haukdal alþm. í viðtali við Morgunblaðið í gærkvöld. Og á mæltu máli, hvað þýðir þetta? Hvað þýða þessi orð sem hv. þm. lætur falla? Á mæltu máli, á íslensku máli þýða þessi orð auðvitað það, að þm. ætlar að styðja þær brtt. sem þm. Alþfl. og Sjálfstfl. hafa flutt við þessa umr. Hann ætlar vitaskuld að styðja brtt. sem nú er flutt við 3. umr. af hv. þm. Sverri Hermannssyni og Magnúsi H. Magnússyni. En þau þýða það, að hann ætlar að fella frv. um biðstöðuna sem stjórnin og meiri hl. n. eru að leggja til við hv. deild. Ekki aðeins þetta ívitnaða viðtal í Morgunblaðinu, heldur allt það, sem haft er eftir þessum hv. þm., þýðir það á íslenskri tungu, að hann ætli að hegða sér svo. Hv. þm. er að vísu ekki viðstaddur í salnum. Menn hafa iðulega verið að finna að því við forseta, að menn séu ekki viðstaddir, en ég læt mér það svo sem í léttu rúmi liggja.

Auðvitað er allt það, sem verið hefur að gerast í þessum efnum, einhver ægilegasta saga um aumingjaskap sem menn hafa þurft að horfa upp á. Þm. er búinn að gefa í skyn núna nokkrar undanfarnar vikur að hann ætli að sjá um það með því jafnvægisatkvæði, sem hann vissulega fer með hér, að stefna verði mörkuð í þessum efnum. Og látum vera þó að fjölmiðlar hafi gerst spenntir fyrir þessum möguleika. Það er þeirra eðli og þeir eru að leita að fréttum. En eftir á að hyggja er það auðvitað með ólíkindum að heilt Alþingi, heilt þjóðþing, heil löggjafarsamkoma hafi látið þennan hv. þm. — vegna þess hvernig öll þessi mál eru í pottinn búin — draga sig á asnaeyrunum með þeim hætti sem gerst hefur að undanförnu, að heilt þjóðþing hafi látið hv. þm. Eggert Haukdal halda að það væri eitthvað í hann varið. Og það er auðvitað það kostulega við allt þetta mál, hafi það verið svo, að þau augnablik hafi verið til í þingsögunni síðustu daga að menn hafi haldið að á honum væri að byggja. Og af hverju er þetta? Því að hér eru menn ekki aðeins að tala um þá einföldu pólitík, að menn séu í stjórn eða stjórnarandstöðu, það skipti máli að fella stjórnina og nýir taki við. Við erum að tala um allt önnur og miklu mikilvægari mál. Við erum að tala um það, með hverjum hætti við skipuleggjum ekki aðeins okkar virkjunarmál og okkar orkumál, heldur með hverjum hætti við skipuleggjum þau mál okkar sem hníga að stórtækum iðnaði, stórkostlegum möguleikum fólks í því sambandi til þess að bæta afkomu sína og lífskjör, og þá einu stórkostlegu aukningarmöguleika sem við eigum á sviði efnahagsmála almennt talað á næstu árum og áratugum. Og hér hefur það gerst vegna þess, hvernig þessi spenna hefur verið upp byggð, sem ég hefði ekki trúað á árinu 1978. Það var hv. þm. Eggert Haukdal sem olli spennunni, og það var hann sem reyndist vera svo lítið í spunnið sem dæmin hafa nú sannað.

Út af fyrir sig er þetta auðvitað, hvernig sem á er lítið, löng saga og heldur leið. En sá kjarni málsins skiptir þó, að ég held, verulegu máli, að núv. hæstv. iðnrh. tilheyrði vonbrigðakynslóð sem — þegar pólitísk sannfæring brotnaði á skeri, m. a. í Prag í ágústmánuði 1968—greip á flótta sínum til nýrrar hugmyndafræði. Sú hugmyndafræði varð fljótlega að hatri á stóriðju, hatri á allri samvinnu við útlendinga. Og þó svo að hún væri aldrei mjög skýrt skilgreind hér á landi, þá var hún skírð erlendis, í engilsaxneska heiminum, og kölluð „new left“. Þessi furðulega hugmyndafræði, rótlausa hugmyndafræði varð að því leyti að veruleika í rn. þegar hæstv. iðnrh. settist þar inn. Og hann kemur nú aftur og aftur fyrir hið háa Alþingi, biður um biðstöðu, biður um að hið háa Alþingi fresti öllu sem máli skiptir svo að hann geti komið fram fyrir þetta fólk — sem er t. d. fólk sem var samferða mér í skóla svo að ég þykist vita hvað ég er að tala um — hann er að biðja okkur um frest til þess að hægt sé sennilega að reyna að sannfæra þetta fólk enn einu sinni um það, að því beri að snúa við blaðinu. En niðurstaðan er sú, að þeir mega eiga í sinni kreppu, en hell þjóð getur ekki frestað öllum sínum framförum vegna þessarar kreppu. Okkur er skylt að ýta þessari kreppu til hliðar, leyfa þjóðfélaginu að þróast fram. Þess vegna ? fyrsta lagi er sú brtt. réttmæt sem þeir flytja, hv. þm. Sverrir Hermannsson og Magnús H. Magnússon. Þess vegna er hún rétt. Þess vegna er öll þessi biðstaða, sem hæstv. iðnrh. er að fara fram á við hið háa Alþingi, röng. Hún er ástæðulaus. Hann verður að gera upp sín mál í sínum flokki, við sína kynslóð sjálfur, en hann á að leyfa þjóðfélaginu að þróast fram. Hann á að taka sjálfan sig og sín vandamál, sín pólitísku vandamál út fyrir sviga, og þau leysast þar eða leysast ekki. En það er með engum hætti réttlætanlegt að setja allt þjóðfélagið í biðstöðu þó að þessi hugmyndafræði sé sprungin eina ferðina enn. Þess vegna er ég að mæla með þessari brtt., en í móti frv. eins og það kemur fram. Það er biðstaða. Sú biðstaða á sér rætur í sálarkreppu. Sú sálarkreppa á sér sögulegar skýringar. En samfélagið á ekki að bíða þrátt fyrir það sem hér hefur átt sér stað sögulega. Það eru allir möguleikar til þess að samfélagið sjálft sæki fram, en þessir menn og þessi hugmyndafræði séu tekin út fyrir sviga meðan þeir eru að gera upp sín mál.