22.05.1981
Neðri deild: 107. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4945 í B-deild Alþingistíðinda. (5280)

320. mál, raforkuver

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Í meðförum deildarinnar hefur frv. lagast þó að betur hefði mátt gera eins og tillögur lágu fyrir um. Samkv. frv. nú er öllum virkjunarkostum gert jafnhátt undir höfði og endanleg ákvörðun í höndum Alþingis að fenginni umsögn um þjóðhagslega hagkvæmni. Einnig er ríkisstjórninni gert að sýna stefnu sína um uppbyggingu orkufreks iðnaðar um leið og hún gerir tillögur um næstu virkjun. Þá eru og Landsvirkjun veitt meiri áhrif en voru í upphaflega frv.

Allir eru sammála um nauðsyn þess að halda áfram virkjunarrannsóknum og undirbúningi nýrra virkjana svo og áframhaldandi framkvæmdum til að tryggja rekstur raforkuveranna á Þjórsársvæðinu. Fall frv. hefði e. t. v. getað tafið þetta. En þar eð ég er andvígur þeirri stefnu eða öllu heldur stefnuleysi að afla ekki nægilegs markaðar fyrir raforkuna þannig að unnt sé að ráðast á næsta áratug eða svo í allar þær virkjunarframkvæmdir sem frv. boðar, þá lýsi ég andstöðu minni við þann þátt málanna með því að greiða ekki atkv.