22.05.1981
Neðri deild: 107. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4945 í B-deild Alþingistíðinda. (5281)

245. mál, útvarpslög

Frsm. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Menntmn. Nd. hafði til umr. frv. til l. um breyt. á útvarpslögum, nr. 19 5. apríl 1971, flutt af hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni o. fl. Nefndin athugaði frv. allrækilega, fékk m. a. á fund til sín Hörð Vilhjálmsson fjármálastjóra Ríkisútvarpsins og leggur eftir allnokkra umræðu til að frv. verði afgreitt með svofelldri rökstuddri dagskrá:

„Í trausti þess, að menntmrh. skipi nefnd, sem í eigi sæti fulltrúar þingflokkanna fjögurra og falið verði að yfirfara efni þessa frv., og störf nefndarinnar miði að því að gera Ríkisútvarpinu kleift að hafa efni til útlána og að kanna grundvöll samninga við rétthafa efnis, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Undir þetta rita sex hv. alþm. sem sæti eiga í menntmn., en einn var fjarverandi afgreiðslu málsins. Um þetta má aðeins hafa örstutt mál. Það hefur skeð allnokkrum sinnum á undanförnum þingum, að fram hafa komið hugmyndir bæði í lagaformi og ályktunarformi um að fjölmiðlar ríkisins hafi efni til útlána. Hefur þá fyrst og fremst verið hugað að sjómönnum á hafi úti sem hafa auðvitað iðulega ekki aðstöðu til að njóta þessa efnis. Í því frv., sem hér er um að ræða, var hins vegar gert ráð fyrir enn frekari útfærslu og talað um almenningssöfn. Ég tel að ekki leiki nokkur vafi á því, að þetta eigi eftir að gerast, að þetta sé ekki spurning um það, hvort þetta gerist, heldur annars vegar spurning um tíma og hins vegar fjármagn. Og það er alveg ljóst, að tækninni í þessum efnum fleygir fram með hverju árinu. Það er líka ljóst, að vegna tæknibreytinga á þetta sér stað, þ. e. að efni framleitt af útvarpi og sjónvarpi er sent til flotans t. a. m. í einu formi eða öðru og fólk í landi nýtur þessa líka. En mjög flókið mál, sem þetta varðar, er í sambandi við rétthafa efnis, þ. e. höfundarréttarmál.

Að öllu þessu skoðuðu og eftir ítarlegar umr. bæði við aðila utan n. og innan n. sjálfrar komst n. að þeirri niðurstöðu, að skynsamlegast væri að þessu sinni að vísa málinu frá með þessari rökstuddu dagskrá, í trausti þess að menntmrh. skipaði nefnd, eins og getið er um í nál., og í þeirri von, að sú nefnd kæmist fyrr en seinna að niðurstöðu sem löggjafinn gæti síðan sætt sig við sem og rétthafar efnis.