22.05.1981
Neðri deild: 108. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4948 í B-deild Alþingistíðinda. (5296)

335. mál, framkvæmdasjóður aldraðra

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Við 2. umr. málsins var samþykkt að efna til sérstaks nýs skatts, nefskatts, og þannig er stillt til um þá sem losna eiga við skattinn að það er nánast enginn maður. Það var passað upp á að lægri mörkin yrðu þannig að ég hygg að það sé enginn maður á Íslandi sem losni við að greiða skattinn frá því sem gert var ráð fyrir í frv. upphaflegu, heldur allt sýndarmennska. En til þess nú að gefa hæstv. ríkisstj. tækifæri til þess að sýna að henni sé alvara með því að vilja leggja fram eitthvað frá sjálfri sér til Framkvæmdasjóðs aldraðra og til þess að gefa stuðningsmönnum ríkisstj. tækifæri til þess að reyna nú að leggja eitthvað af mörkum sjálfum, gefa þeim tækifæri til þess að sýna aðhald og sparnað í ríkisrekstrinum og leggja aðeins helminginn fram á móti því, sem þeir ætlast til að fólkið leggi fram, vil ég leggja fram brtt. svohljóðandi:

„Við bætist ákvæði til bráðabirgða:

Á árinu 1981 skal ríkissjóður inna af hendi til Framkvæmdasjóðs aldraðra 50% þeirrar fjárhæðar er rennur til hans samkv. 1. tölul. 2. gr.

Í 1. tölulið 2. gr. er nefskattur á fólkið í landinu, 10 millj. kr. Það er ekki há upphæð fyrir aldraða. Ég sætti mig illa við að hæstv. fjmrh. vilji ekkert leggja á sig til að gera þessa upphæð svolítið drýgri. Ég legg til að litlar 5 millj. til viðbótar komi úr ríkissjóði til þess að fólkið sætti sig betur við þennan nýja nefskatt. Ég veit að formaður Verkamannasambands Íslands, — ég tala nú ekki um stjórnarmann Bandalags starfsmanna ríkis og bæja sem, ef ég man rétt, ruddi burt starfsmanni við Tryggingastofnun ríkisins á sínum tíma sem hafði lengi starfað þar, til þess að fá að sinna öldruðum sem hún hafði aldrei gert áður, — ég trúi ekki öðru en að þetta fólk greiði því atkv., að ríkissjóður leggi eitthvað af mörkum, og bið forseta að leita afbrigða fyrir þessari tillögu.