20.10.1980
Efri deild: 4. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í B-deild Alþingistíðinda. (53)

25. mál, Flutningsráð ríkisstofnana

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég vil í flestu taka undir með hv. frsm. þessa frv. Eins og við vitum hefur mikið verið um það rætt á undanförnum árum, hversu mikla nauðsyn bæri til að auka hlutdeild landsbyggðar í opinberri þjónustu. Hins vegar er það staðreynd, að í þeirri umfjöllun og þeirri smávægilegu athugun, sem gerð hefur verið á því, hefur komið í ljós að ýmsir þröskuldar eru þar í veginum. Til þess að koma í veg fyrir allan misskilning vil ég taka það fram, að ég er innilega samþykkur því að ganga þessar götur, þ.e. auka hlutdeild landsbyggðar í opinberri þjónustu. Hins vegar er það svo, að samgöngukerfi okkar og ýmis aðstaða til samskipta innan hinna ýmsu landshluta er með þeim hætti, að enn sem komið er er mjög erfitt að hafa — hvað á ég að segja — svokallaðar kjarnastöðvar eða miðstöðvar í landshlutunum, því miður verð ég að segja, en vonandi stendur það til bóta.

Í þessu sambandi vil ég minna á, að það, sem er e.t.v. brýnast, er að öll opinber þjónusta í viðkomandi landshluta sé á einum og sama staðnum, þ.e. að reistar verði svokallaðar þjónustumiðstöðvar, að menn geti leitað til hins opinbera, að svo miklu leyti sem það er hægt heima fyrir, undir einu og sama þakinu. Þetta er mjög mikilvægt. Við þekkjum fjölmargar sögur um fólk sem leitað hefur til hins opinbera hér suður í Reykjavík. Það hefur þurft að fara úr einu húsinu í annað, og oft og iðulega hefur þetta fólk farið heim til sín án þess að hafa hitt nokkurn þann sem það ætlaði sér í upphafi að finna.

En ef til kemur að stofnað verði flutningsráð, þá vil ég vara við því, að við förum að stofna eitthvert stórkostlegt bákn, enda gerir frv. ekki ráð fyrir því. Það gerir það alls ekki. Tilgangur þess að krukka í opinbera þjónustu hlýtur alltaf að vera sá að gera hana hagkvæmari og gera hana ódýrari, að fólkið sjálft fái meiri þjónustu fyrir það fjármagn sem það leggur til okkar sameiginlegu nota.

Það er minnst á það í þessu frv. samkv. einum liðnum í 2. gr., að gerð skuli heildarúttekt á stöðunni á 10 ára fresti eða um það bil. Ef til kemur að flutningsráð verði stofnað, þá lít ég svo á að eðli og hlutverk og staðsetning opinberrar þjónustu, hvar sem er á landinu, verði raunverulega alltaf og iðulega til endurskoðunar. Ég er út af fyrir sig ekki að mótmæla því, að slík úttekt sé gerð, en það er skoðun mín, að verði slíkt starf í gangi sem gert er ráð fyrir samkv. þessu frv. að Flutningsráð hafi með höndum, þá liggi raunverulega fyrir skjalfest árleg úttekt á þessu máli.

Ég ætla ekki að lengja þessar umræður. Þetta mál hefur verið til umfjöllunar allt frá því upp úr 1940. Ég legg áherslu á það, að í öllum þeim atriðum er varða flutning stofnana eða deildaskiptingu verði haft samráð við heimaaðila fyrst og fremst. Það held ég að sé e.t.v. meginforsenda þeirra breytinga sem hugsanlega leiddi af starfi slíks flutningsráðs, að virkt og eðlilegt samband sé við heimaaðila í hverju tilviki.