23.05.1981
Efri deild: 122. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4977 í B-deild Alþingistíðinda. (5310)

320. mál, raforkuver

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég ætla að víkja aðeins að nokkrum atriðum sem hæstv. ráðh. kom inn á sem svar við því sem ég sagði.

Hann talaði um þá gagnrýni sem fram hefði komið af minni hálfu og frá öðrum ræðumanni hér um óæskilegan drátt á því að leggja fram það frv. sem hér er til umræðu. Hann taldi fram ýmsar ástæður fyrir því, svo sem að það hefði staðið á ákvörðun Náttúruverndarráðs. Ég hygg að það sé lengi hægt að telja fram ýmsar ástæður í þessum dúr. Ég held að það hefði mátt bera fram þetta frv. þó að öll kurl væru ekki komin til grafar í þessu efni. Ég minni á það, að heimild til byggingar þeirrar virkjunar, sem nú er í smíðum, Hrauneyjafossvirkjunar, er í lögum frá 1971. Það þarf ekki að bíða eftir öllum þáttum sem til ákvörðunar þurfa að koma í sambandi við svona mál. Þetta er þess vegna að mínu viti ekki fullnægjandi skýring á þeim drætti sem orðið hefur á framlagningu þessa frv.

Þá vék hæstv. ráðh. að því, sem ég nefndi að mér þætti þurfa skýringar við, hvers vegna gert væri ráð fyrir að það þyrfti að setja ákvæði um það inn í frv., að samþykki ríkisstj. þyrfti til þess að Landsvirkjun notaði virkjunarheimild. Hæstv. ráðh. skýrði þetta á þann veg, að í ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar hefði verið tekin sérstök ákvörðun um að hefja framkvæmdir við Hrauneyjafossvirkjun. Þetta var gert í ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar og undir forustu núv. hæstv. forsrh. Hann þurfti ekki svona ákvæði í lögum til þess að geta komið málum fram, eins og hæstv. núv. iðnrh. telur nauðsynlegt. Nú spyr ég hæstv. ráðh.: Hvers vegna er hæstv. núv. iðnrh. vandara um en fyrrv. iðnrh., núv. hæstv. forsrh., í þessu efni? M. ö. o.: svar hæstv. iðnrh. um þetta efni er ekki fullnægjandi skýring.

Þá vék hæstv. iðnrh. að þeim aths. sem ég gerði við það, að sett væri í frv. sérstök heimild fyrir Landsvirkjun til þess að tryggja rekstur á Þjórsársvæðinu og koma vinnslugetu þar í eðlilegt horf, t. d. með Kvíslaveitu, stækkun Þórisvatnsmiðlunar og stíflu við Sultartanga. Ég sagði í minni fyrri ræðu að heimildarákvæði væri í lögunum um Landsvirkjun um þetta efni. Ég hef athugað þessi heimildarákvæði aftur. Ég ætla ekki að fara að rekja þau, ég er sannfærður um að þetta heimildarákvæði er nægilegt, og það er líka skoðun Landsvirkjunar sem hefur hagað sér í samræmi við það. Skýring ráðh. á þessu atriði er því ekki fullnægjandi að mínu mati.

Þá er það eitt atriði sem ráðh. vék að og ég hafði komið að. Það var það sem ég vakti athygli á, að í 1. gr. frv. er talað um að ríkisstj. sé heimilt að semja við Landsvirkjun. Það er stefna út af fyrir sig, sem hæstv. iðnrh. segir að núv. ríkisstj. hafi, að semja um hvernig skipulag orkuframleiðslunnar eigi að vera. Ég held að seint komist á það skipulag sem menn stefna að, hverju sem menn stefna að í því efni, ef fara eigi þessa leið. Ég verð að segja það, að í þeim umr., sem ég hef staðið í og ég hef heyrt af um skipulag orkumála á síðustu misserum og árum, hefur þetta sjónarmið ekki komið fram. Menn hafa verið með ákveðnar skoðanir um, hvaða skipan ætti að koma á með lögum, og menn hafa deilt um það, hvaða skipan þar ætti að vera. En mín skoðun er sú, að það þurfi að koma upp heildarramma skipulags sem rúmi samninga milli mismunandi orkufyrirtækja, en að ríkið ætli sér ekki með samningum að koma heildarskipulagi á.

Þá er eitt atriði enn. Ég hef þetta aðeins í örfáum orðum til þess að stytta mál mitt og vona að hv. þdm. afsaki mig þó að ég hafi þennan hátt á. Ráðh. kom inn á það atriði sem varðaði heimild í frv. fyrir Rafmagnsveitur ríkisins, Landsvirkjun og Orkubú Vestfjarða til þess að reisa varastöðvar með samtals allt að 50 mw. afli. Mér fannst að hæstv. ráðh. væri í raun og veru sammála þeim aths. sem ég var með um þetta, a. m. k. mælti ekki sterklega gegn þeim. Ég held að það sé rétt til getið hjá okkur báðum, að það hafi ekki verið leitað áður lagaheimilda til þess að kaupa dísilvélar og koma upp varastöðvum.

Þá er það lokaatriðið sem bæði ég og hæstv. ráðh. vékum að. Það er það, að till. um framkvæmdir við nýjar vatnsaflsvirkjanir og virkjunaráfanga skuli lagðar fyrir Alþingi til samþykktar. Ef ég hef skilið ráðh. rétt þarf að koma til kasta Alþingis ef áfanginn er í nýrri virkjun, nýrri vatnsaflsvirkjun, en ekki ef hann er í gamalli. Og ég sé að hæstv. ráðh. samþykkir þetta með látbragði sínu. En ég verð að segja það, að þó að ég skilji það sem hæstv. ráðh. segir um þetta, þá skil ég ekki forsendurnar fyrir því að gera þarna greinarmun á áföngum í nýjum virkjunum og gömlum. Ég hélt, ef einhver munur væri þarna á, að frekar ætti að koma til kasta Alþingis viðbótaráfangi í gamalli virkjun, þegar liðið hefðu kannske mörg ár frá því að Alþingi fjallaði um þá virkjun, heldur en að koma þyrfti sérstaklega fyrir Alþingi áfangi í nýrri virkjun. Hæstv. ráðh. sagðist vænta þess, að þetta skýrði málið, en það hefur ekki skýrt málið að fullu fyrir mér. En ég skal ekki ganga eftir frekari skýringum og læt útrætt um það sem varðar orðaskipti mín og hæstv. iðnrh.

Þá kem ég að hæstv. viðskrh. Ég var með eina fyrirspurn til hans, um það, hvers vegna hann og Framsfl. hefðu á móti því, að það væri heimilt fyrir fólkið í hinum einstöku landshlutum, fólkið úti á landi, sveitarfélög þessa fólks, að vera aðilar að orkufyrirtækjum, svokölluðum landshlutafyrirtækjum. Þá átti ég við sjálfstæð fyrirtæki viðkomandi sveitarfélaga og sameignarfélög viðkomandi sveitarfélaga og ríkisins. Hvers vegna eru framsóknarmenn á móti því, að fólkinu úti á landsbyggðinni sé heimilt að gera þetta ef það vill? Hæstv. ráðh. sagði að það væri svar sitt til mín, að framsóknarmenn vildu hafa eitt orkufyrirtæki sem landshlutarnir hefðu heimild til að vera aðilar að. Þetta er svar út af fyrir sig, en ekki svar við minni spurningu. Og mér er í mun að fá svar við minni spurningu, af því að ég held að þessar hugmyndir og fyrirætlanir Framsfl., að hafa eitt orkufyrirtæki sem sveitarfélögin úti á landi geti svo orðið aðilar að, séu óraunhæfar í framkvæmd. Ég held að það sé skýringin á því, að Framsfl. reynir ekki að koma með þessar hugmyndir í frumvarpsformi. Ég held að hluttaka landsbyggðarinnar í virkjunarmálunum og raforkuvinnslunni sé frekast möguleg með því að það séu sjálfstæð orkufyrirtæki landsbyggðarinnar sem geta verið sameignarfyrirtæki viðkomandi sveitarfélaga og ríkisins, en það sé ekki raunhæft að eitt og eitt sveitarfélag fari að gerast aðili í stórfyrirtæki eins og Landsvirkjun er orðin nú þegar, hvað þá þegar hún mundi stækka.