23.05.1981
Neðri deild: 109. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4979 í B-deild Alþingistíðinda. (5312)

313. mál, steinullarverksmiðja

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Á nál. því, sem útbýtt hefur verið, kemur fram að við tveir nm., ég og hv. 2. landsk. þm., Jósef H. Þorgeirsson, ritum undir nál. með fyrirvara. Ástæða þess er sú, að okkur hefur fundist að það væri allt of stuttur tími sem n. hefði til þess að afgreiða þetta mál, og það sem verra er, að ekki var unnt að fá til viðtals þá aðila sem sérstaklega hafði verið óskað eftir að kæmu á fund nefndarinnar. Það fékkst enginn til viðtals um þá þætti þessa máls sem snerta rekstrarafkomu fyrirtækisins og arðsemiútreikninga. Okkur þykir það mjög miður. Ég veit að tilraunir voru gerðar af hálfu formanns n., hv. þm. Skúla Alexanderssonar, til að bæta úr þessu, en forföll þeirra, sem til voru kvaddir, hömluðu að þeir gætu komið.

Viðhorf okkar til þessa máls er hins vegar jákvætt og við viljum á engan hátt bregða fæti fyrir það. Þess vegna ritum við undir nál. með þeim fyrirvara sem ég hef hér greint frá.

Við teljum þó nokkurt öryggi í því, að hér er um að ræða fyrirtæki, sem gert er ráð fyrir að einkaaðilar eigi meiri hluta í eða 60%, og þess vegna ljóst að áhættan af stofnun og rekstri fyrirtækisins hlýtur fyrst og fremst að vera þeirra þótt gert sé ráð fyrir að ríkissjóður leggi til 40% af hlutafé. Jafnframt er nokkurt öryggi einnig í því, að vitað er að tveir aðilar, sem hafa skoðað þetta mál og athugað um alllangan tíma, keppast um að fá slíka verksmiðju til sín og eru reiðubúnir að hætta fé í þetta fyrirtæki.

Þetta gefur hins vegar tilefni til að ítreka það sem áður hefur verið sagt hér á hv. Alþingi nú síðustu daga, að það er að sjálfsögðu ófært að ætlast til þess af hv. Alþingi að það afgreiði nánast á færibandi hvert stórmálið á eftir öðru. Það eru ákaflega illa skipulögð vinnubrögð hér af hæstv. ríkisstj. — og þá ekki síst hæstv. iðnrh. — að hann skuli leggja fram hér nú undir lok þings fjögur stórmál sem öll hefðu að sjálfsögðu þurft að fá mun ítarlegri meðferð af hálfu Alþingis, enda er búið að setja í a. m. k. þrjú þessara mála fyrirvara í bak og fyrir, sem e. t. v. hefði verið óþarfi ef Alþingi hefði haft tækifæri til að skoða þessi mál betur. Þetta er því alvarlegra þar sem vitað er að iðnrn. hefur mánuðum saman haft með höndum þær skýrslur sem um þessi mál fjalla. Því verður það að flokkast undir hreinan slóðaskap að þessi frv., sem algerlega byggja á þessum skýrslum, skuli hafa verið lögð fram nú fyrst síðustu daga þingsins. Ég vildi skýra fyrirvara okkar hv. þm. Jósefs H. Þorgeirssonar á þennan hátt.