23.05.1981
Neðri deild: 109. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4983 í B-deild Alþingistíðinda. (5315)

313. mál, steinullarverksmiðja

Forseti (Sverrir Hermannsson):

Þegar hv. 4. þm. Suðurl. gagnrýnir vinnubrögð á hinu háa Alþingi hlýt ég að minna hann á það, að hann skipar þann meiri hluta sem ræður öllu um málsmeðferð hér. Sjálfsgagnrýni er góð og ætti kannske að beita henni oftar. Um gagnrýni á Framkvæmdastofnunina, að hún hafi uppgötvað að það væri jafnlangt frá Reykjavík til Þorlákshafnar og Sauðárkróks, vil ég upplýsa, af því mér er málið skylt, að vísindamenn þar hafa komist oftar að álíka vísindalegum niðurstöðum. Þeir uppgötvuðu t. d. einu sinni að Héraðsvötn í Skagafirði rynnu eftir dalbotninum alveg neðst og enn síðar uppgötvuðu þeir að landslagi í Dalasýslu og Austur-Barðastrandarsýslu væri mjög ólíkt farið. Í Dalasýslu skagaði landið fram í sjóinn og myndaði nes, en í Austur-Barðastrandarsýslu skærust djúpir firðir inn í hásléttuna.