23.05.1981
Neðri deild: 109. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4983 í B-deild Alþingistíðinda. (5318)

2. mál, skráning á upplýsingum er varða einkamálefni

Frsm. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Nefndin hefur yfirfarið frv. til l. um kerfisbundna skráningu á upplýsingum, er varða einkamálefni, og yfirfarið þær mjög verulegu breytingar sem á frv. voru gerðar í hv. Ed. Leggur n. til að frv. verði samþ. eins og það var þar afgreitt. Undir þetta skrifa allir þeir sem sæti eiga í allshn., en hv. þm. Garðar Sigurðsson gerir það með fyrirvara.

Um þessi efni vil ég aðeins hafa örfá orð. Hér er um að ræða mjög verulegar umbætur sem hníga í þá átt að vernda borgarana gegn þeirri misnotkun sem augljóslega getur verið hætta á í sambandi við skráningu á högum þeirra í gegnum tölvukerfi. Víða erlendis hefur þetta orðið til hreinna vandræða. Það er vissulega mikill vandi á höndum hvernig með þessi mál skuli farið. Nm. hyggja að hér sé snúist við þessu vandamáli með skynsamlegum hætti. Frv. tók mjög verulegum breytingum í Ed. sem miðuðu að því að einfalda það og skýra. Leggur n. því til að frv. sé samþykkt eins og það var afgreitt frá Ed.