23.05.1981
Neðri deild: 109. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4984 í B-deild Alþingistíðinda. (5319)

2. mál, skráning á upplýsingum er varða einkamálefni

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég tók eftir því, að hv. frsm. n. gat þess, að ég hefði haft fyrirvara, og það er rétt. Fyrirvari minn við afgreiðslu þessa máls er kannske ekki fyrst og fremst efnislegur, heldur af þeirri ástæðu að allshn. hv. deildar fær þetta mál ákaflega seint til meðferðar. Þetta er nokkuð flókið mál og ég held ég megi segja að efnisleg meðferð þessa máls í n. var ekki meiri en svo, að það tók svona eins og einn fund. Og það er býsna mikil fljótaskrift. En það voru að vísu nokkrir í okkar n. sem höfðu kynnt sér málið ákaflega vel. Og rækilega var það skoðað og að mörgu breytt í meðferð Ed.

Ég gat þó kynnt mér málið nægilega mikið til þess að sjá að með samþykkt þess er almenningur meira verndaður gagnvart misnotkun á tölvum heldur en ef frv. væri ekki samþykkt. Ég get því fallist á að samþykkja frv. og þá ekki síst með tilliti til þess að það hefur takmarkaðan gildistíma, aðeins fjögur ár. Ég geri ráð fyrir, að þessi mál verði í endurskoðun þar til gildistíminn rennur út, og sé þess vegna ekki annmarka á því að samþykkja frv. eins og það er orðið.