23.05.1981
Neðri deild: 109. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4985 í B-deild Alþingistíðinda. (5322)

Umræður utan dagskrár

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Út af orðum hv. síðasta ræðumanns vil ég aðeins taka þetta fram:

Ég skýrði honum raunar frá þessu í gærkvöld eftir hans ósk. Þetta mál er þannig vaxið, það er rétt, að ég veit að n., sem fékk þetta mál til meðferðar, hefur lagt í það mikla vinnu. Hún hefur tekið til athugunar margar af þeim aths., sem ég vildi gera við frv., og náð samkomulagi. En ég skaut því að hæstv. félmrh. fyrir nokkrum dögum hvort ekki væri eðlilegra og skynsamlegra að þetta frv., þó að búið væri að vinna margt og mikið að því, biði haustþings. Það byggði ég á nokkrum atriðum, m. a. að til er samþykkt Norðurlandaráðs, nokkurra ára, þar sem farið er fram á að Norðurlöndin hafi samflot um lagasetningu af þessu tagi. Það er kunnugt að endurskoðun laga á þessu sviði fer fram núna a. m. k. bæði í Noregi og Svíþjóð. M. a. af þessum ástæðum taldi ég ekki hundrað í hættunni þó að þetta mál biði haustþings, en gat þess hins vegar að mér dytti auðvitað ekki í hug að bregða fæti fyrir málið öðruvísi en segja mína skoðun á því. Ég mundi ekki bregða fæti fyrir það með öðru móti en greiða atkvæði gegn því eða vissum greinum þess. Hitt er svo annað mál, að ég held að hv. alþm. ættu að hafa það í huga að vanda gerð frumvarpa og lagasetningar. Þeir ættu að hafa það hugfast að semja stutt lög og gagnorð, en ekki hræra sífellt upp reglugerðargraut í lagagerð. Það er enginn máti á lagasetningu. Það er áreiðanlega miklu hyggilegra og skynsamlegra að vanda löggjöfina en aka löngum frv. í hlössum í gegnum þingið á síðustu dögum þess. Þetta bið ég alla hv. alþm. að hafa í huga, því það er ekki það sama að semja lög og setja saman reglugerðir.