23.05.1981
Neðri deild: 109. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4986 í B-deild Alþingistíðinda. (5323)

Umræður utan dagskrár

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það frv., sem hv. 7. þm. Reykv. hreyfir hér í umr. um þingsköp, er samið af nefnd sem skipuð var fulltrúum aðila vinnumarkaðarins, sem voru t. d. Ásmundur Stefánsson, Þorsteinn Pálsson og aðrir aðilar sem gjörþekkja þau mál sem hér er um að ræða. Það er því ómaklegt að mínu mati að gera því skóna, að hér sé á ferðinni flýtisverk af neinu tagi. Í annan stað er það ljóst, að hv. félmn. tók tillit til þeirra ábendinga, sem fram komu í þessum efnum, með mjög rækilegum hætti.

Ég skil mjög vel þau viðhorf hæstv. dómsmrh., að rétt sé að taka mið af því sem rætt er á vettvangi lagasamstarfs Norðurlandaráðs um mál af þessum toga. En hér gegnir þó nokkuð sérstöku máli í rauninni, vegna þess að Ísland er ekki aðili að hinum norræna vinnumarkaðssamningi þannig að óhjákvæmilegt er að lagareglur um atvinnuréttindi útlendinga á Íslandi verði með nokkuð öðrum hætti en er í grannlöndum okkar enda þótt við hljótum að taka þar fyllsta tillit.

Ég legg á það áherslu sem mína skoðun, að þetta mál er í höndum þingsins. Það er þingsins að ákveða hvaða meðferð málið fær og afgreiðslu hér á þeim sólarhringum sem eftir lifa af því þinghaldi sem nú er að ljúka.