23.05.1981
Neðri deild: 109. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4986 í B-deild Alþingistíðinda. (5324)

Umræður utan dagskrár

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég á sæti í hv. félmn. og get vottað að það er rétt, að félmn. skoðaði þetta mál allrækilega. Við fengum boð um það áður en málið kom til n., m. a. í ræðu hæstv. dómsmrh. hér á Alþingi, að þetta mál hefði ekki hlotið eðlilega skoðun innan hæstv. ríkisstj., m. a. vegna þess að við nefndarskipun félmrh. hafði það gerst, að ekki var tekið tillit til þeirra atriða sem snerta dómsmrn. og þá einkum og sér í lagi Útlendingaeftirlitið.

Í nefndinni, sem samdi lagafrv., varð ágreiningur og Þorsteinn Pálsson skilaði sérstöku áliti. Í hv. félmn. varð jafnframt ágreiningur og þá sérstaklega um þau atriði sem hæstv. dómsmrh. gat um áðan, þ. e. að í frv. er fjöldi atriða sem auðvitað ættu miklu fremur heima í reglugerðum, auk þess sem verið er að koma upp tvöföldu kerfi og gera atvinnurekendum ákaflega erfitt um vik að ráða erlenda starfsmenn í vinnu. Það var þess vegna, að ég hélt, nokkuð ljóst þegar um málið var rætt í n. að ekki væri ætlunin að þetta mál færi út úr þinginu núna í vor. Það var, að ég hélt, allt okkar allra í nefndinni. Ég skal ekki um það segja, hvort Guðmundur J. Guðmundsson hafi verið einn þeirra, en það var alla vega mín tilfinning í starfi í n., að n. ætti fyrst og fremst að koma sér saman um þau efnisatriði sem hún vildi breyta með tilliti til óska dómsmrn. og sýna þau hér í þinginu, sem gæti þá orðið til þess, að hæstv. ríkisstj. kæmi sér saman um það stjfrv. sem hún leggur fram á hv. Alþingi.

Ég get þess vegna tekið undir það með hæstv. dómsmrh., að í þessu máli er það fyllilega eðlilegt og sakar engan, ekki þá sem hagsmuna eiga að gæta í málinu, þótt málið fái bið yfir sumarmánuðina og verði lagt fram í haust og þá verði tekið tillit til þeirra atriða, sem fengu sérstaka skoðun í n., og þá verði ljóst að málið er frv. allar ríkisstj., en ekki aðeins óskafrv. hæstv. félmrh.