23.05.1981
Neðri deild: 109. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4988 í B-deild Alþingistíðinda. (5330)

314. mál, stálbræðsla

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Við höfum hér til meðferðar hið síðasta af svokölluðum þremur S-málum sem hafa verið lögð fyrir þingið á síðustu dögum. Ég tek heils hugar undir það sem þingheimur virðist einróma samþykkja, að málatilbúnaður allur nú í þinglok hefur verið með endemum og gert þm. erfitt fyrir. Hæstv. dómsmrh. talaði um hauga af málum eða hlöss af málum sem hér hefðu bunkast upp, og það er því miður rétt. Ég vil viðurkenna að að því er varðar tvö fyrri málin sem við höfum haft til meðferðar, steinullarverksmiðju og sjóefnaverksmiðju, hef ég hreinlega ekki treyst mér til að taka afstöðu með eða móti. Þó að ég þykist vita að þetta séu hvort tveggja ágæt mál, þá hafa heyrst margar raddir sem telja í þeim mikla áhættu sem ég, að of lítt athuguðu máli, treysti mér ekki til að taka sem alþm.

Ég hef hins vegar fylgst með þessu stálbræðslumáli nokkuð lengi og ég fagna því, að það er komið á lokastig. Stálfélagið hefur starfað nú í rúm tíu ár. Að því standa nokkrir harðduglegir einstaklingar sem hafa unnið mjög ósleitilega að framgangi málsins. Ég veit að þeir hafa unnið af mikilli vandvirkni, verið í samráði og sambandi að því er varðar ráðgjöf og upplýsingar við ýmis erlend fyrirtæki, á Norðurlöndum sérstaklega. Ég veit að þeir munu standa vörð um þetta fyrirtæki og þeir munu ekki gera sér að góðu að verða bónbjargamenn ríkissjóðs, eins og því miður er orðið hlutskipti of margra atvinnufyrirtækja hér á landi nú.

Ég vil aðeins benda á þá aðalkosti, sem þessu máli fylgja, og vitna þá í grg., með leyfi forseta.

Það er talað í fyrsta lagi um umhverfisbætandi áhrif og er þá átt við að við munum losna við eitthvað af brotajárnshaugunum sem hafa verið til lítillar prýði vítt um byggðir landsins, ekki hvað síst í grennd við þéttbýli. Það eykur atvinnu í landinu, það eykur öryggi hvað varðar aðdrætti grundvallarbyggingarefnis, það hefur gjaldeyrissparandi áhrif, það eykur fjölbreytni atvinnulífs og inn flyst þekking um grundvallariðnaðarstarfsemi. Ég hygg að þetta sé allt hárrétt athugað. Mér hefur þótt það harla öfugsnúið, eins og verið hefur fram að þessu, að við höfum flutt út það brotajárn sem á annað borð hefur verið nýtt, það sem á annað borð liggur ekki áratugum saman í haugum hér og þar, — við höfum flutt það út til vinnslu og flutt svo inn aftur járn sem búið er að vinna erlendis. Ég tel það kost á þessu máli að ekki er gert ráð fyrir útflutningi, en það mun væntanlega verða okkur nokkurn veginn nægilegt til okkar steypustyrktarjárnsnotkunar.

Það er eitt enn í þessu máli sem mig langar til að nefna og fá svör við. Það er varðandi raforkunotkun. Ég sé ekki að það komi fram hér í þskj., en sjálfsagt kemur það fram í öðrum gögnum sem málinu eru samfara. En það er af því að ég tel mig muna rétt að ég hafi séð einhvers staðar fyrir nokkru að sjóefnaverksmiðja á Reykjanesi og steinullarverksmiðja í Þorlákshöfn mundu þurfa um 15 mw. raforkunotkun á ári. Ef við leggjum nú stálbræðsluna við og gerum enn ráð fyrir öðrum 7.5 mw., þá erum við komin þar upp í 22 mw. eða eitthvað slíkt. Og nú langar mig til að spyrja, ef hæstv. iðnrh. væri hér viðstaddur eða einhver annar vís maður sem um þetta veit: Hver verður raforkuþörf þessara þriggja verksmiðja sem við erum nú að ganga frá til samþykktar á Alþingi? Ef þessar tölur sem ég nefni eru eitthvað í nánd við að vera réttar, þá segja þær a. m. k. harla lítið upp í þau 600 mw. eða um það bil sem verið er að tala um að virkja — ja, hvenær? Það veit maður því miður ekki. Vonandi í bláma framtíðarinnar einhvers staðar verður það að veruleika þetta frv. sem við vorum að samþykkja hér í gær. En þessi litlu 20–30 mw., sem eiga að fullnægja þremur íslenskum verksmiðjum, gefa mér til kynna a. m. k. að harla uggvænleg sé sú stefna sem nú ræður í okkar stóriðjumálum, ef þetta er rétt og við ætlum að byggja virkjanir upp á 600 mw., en byggjum verksmiðjur sem ekki þurfa meiri raforku.

Þetta vildi ég nú spyrja um því mér finnst þetta lítið dæmi um það, hve skuggalega horfir í okkar raforkumálum og hve litlar líkur eru á að alveg í náinni framtíð verði hafist handa um þá uppbyggingu íslensks atvinnulífs sem vinnsla raforkunnar hlýtur að vera grundvöllur fyrir.

En ég fagna því, að þetta mál er nú komið í höfn. Ég ber fullt traust til þeirra manna sem ætla að reka það á persónulega ábyrgð, hæfra og duglegra einstaklinga, og ég vona að þeim farnist vel, án þess að verða baggi á íslenska ríkinu og um leið íslenskum skattgreiðendum.