23.05.1981
Neðri deild: 109. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4990 í B-deild Alþingistíðinda. (5332)

314. mál, stálbræðsla

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég ætla hvorki að gagnrýna forseta né þingið í þeirri ræðu sem ég flyt hér, en vekja örlitla athygli á því, að íslenska ríkið — eða stofnanir þess — er aðalvinnuveitandi á Reykjavíkursvæðinu og hefur svo verið lengi. Hjá fjórðungssambandi einu á Íslandi er í dag í gangi allsherjar úttekt á því, hvaðan skattfé landsins kemur og hvert það fari. Og það liggur fyrir, þó ekki sé búið að vinna það verk til fullnustu, að þeir eru stríðir, þeir straumar sem liggja hingað á aðalþéttbýlissvæðið. Sú spurning hlýtur að vakna, þar sem við erum að hugleiða að byggja stálbræðslu, hvort það sé yfirleitt nauðsynlegt að íslenska ríkið sé þátttakandi í stálbræðslu hér á Reykjavíkursvæðinu.

Hv. ræðumaður, sem talaði á undan mér, talaði um dáðmikla og dugmikla einstaklinga sem eru reiðubúnir að axla þessa ábyrgð og koma þessu áfram. Ekki vil ég draga úr þeirra dugnaði. En hví skyldu þeir ekki vilja bera þetta 100%? Eða þá að Reykjavíkurborg, sem er langöflugasta sveitarfélag þessa lands, gerðist eignaraðill í staðinn fyrir ríkið? Væri það ekki eðlilegri þróun að hún verði fjármagni til iðnaðaruppbyggingar hér en að etja kappi við fámenn og veik svæði í aukinni togaraútgerð á Íslandi á sama tíma og hrópað er yfir þingsali að það sé ekki pláss á íslenskum fiskimiðum fyrir togara frá Þórshöfn?

Ég held að það sé í alla staði ástæðulaust að blanda því tvennu saman, hvort menn vilja reisa stálverksmiðju eða hvort menn vilja að íslenska ríkið sé þátttakandi í því fyrirtæki. Og ég sé ekki alveg hvaða nauður rekur til þess, að íslenska ríkið auki enn svo mjög sína atvinnustarfsemi á þessu svæði. Þar hljóta menn að fara að gera það upp við sig hvert stefnir. Ég vil aðeins benda á það, að á árunum 1970–1978 fjölgaði í heilbrigðisstofnunum og velferðarstofnunum þessa lands yfir 3300 manns. Velflestir, sem þar bættust við, starfa á þessu svæði. Það er engin smáræðis atvinnuuppbygging sem þannig er staðið fyrir. Og mér finnst unnið allharkalega gegn byggðastefnunni ef við teljum einnig nauðsyn að ríkið yfirtaki atvinnuuppbygginguna hér, þá atvinnuuppbyggingu sem hefur verið í höndum frjálsra einstaklinga og þeirra félaga, — ef við teljum nauðsyn að ríkið fari að yfirtaka þá atvinnuuppbyggingu hér á þessu svæði eins og hér virðist stefnt að.