25.05.1981
Efri deild: 123. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4993 í B-deild Alþingistíðinda. (5343)

335. mál, framkvæmdasjóður aldraðra

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu mjög óþægilegt að auka við skattheimtu á þessum síðustu tímum og svo síðla sem hér er gert ráð fyrir. Það málefni, sem um er að ræða, málefni aldraðra, er hins vegar svo brýnt að það er nauðsynlegt að grípa þegar til ráðstafana til þess að afla frekara framkvæmdafjár. Um það ríkir ekki ágreiningur. Þess vegna hef ég líka skrifað undir það nál., sem hér um ræðir, og mælt með samþykkt þess frv., sem hér er til umr. Engu að síður kann það að skipta verulegu mali hvernig gjaldtökunni er háttað, hvernig teknanna er aflað.

Samkv, þeim texta, sem fyrir liggur frá Nd. og meiri hl. n. mælir með, er gert ráð fyrir að lagt verði 100 kr. gjald á hvern skattþegn yfir 16 ára aldri og með yfir 2.5 millj. gkr. í tekjur. Ég held að það sé augljóst, að þetta leggist hlutfallslega mjög þungt á þá sem mjög lágar tekjur hafa. Það hefur verið leitast við — og maður hefur skilið það m. a. sem stefnu ríkisstj. — að draga úr skattheimtu á hinar lægri tekjur og skiptir þá náttúrlega ekki máli hvaða nafn skatturinn ber. Ef hv. dm. hugsa sig svolitla stund um mun þeim væntanlega verða ljóst að skattur af þessu tagi er hlutfallslega mjög mikil þynging fyrir þá sem eru mjög skattlágir. Og einmitt þá getur munað um þá upphæð sem hér um ræðir. Það er út frá þessum sjónarmiðum sem ég hef hér endurflutt, í nokkuð öðrum búningi þó, till. sem Alþf.-menn fluttu varðandi þetta efni í Nd. Alþingis. Ég get ekki séð að það eigi að hindra hv. dm. neitt í því að greiða þessari till. atkv., hversu áliðið er þings, því að enn er tími til stefnu til að ganga frá þessu með þeim hætti sem eðlilegastur og bestur getur talist.

Till., eins og ég hef gengið frá henni og flyt hér, er á þá lund, að hér verði um að ræða 1% gjald á álagðan tekju- og eignarskatt þeirra einstaklinga sem eru yfir 16 ára aldri og hafa tekjuskattsstofn sem er yfir 2.5 millj. gkr. Með þessu móti verður þetta í hlutfalli við gjaldþol manna. Enn fremur er gert ráð fyrir sams konar álagi á álagðan tekju- og eignarskatt félaga. Þetta á hvort tveggja við á árinu 1981. Mér sýnist við fljóta yfirsýn að þetta mundi gefa heldur drýgri tekjur í heild en sú till. sem fyrir deildinni liggur frá Nd.

Ég ítreka sem sagt meðmæli mín með því, að þessi breyting verði samþykkt.