25.05.1981
Efri deild: 123. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4995 í B-deild Alþingistíðinda. (5347)

320. mál, raforkuver

Frsm. minni hl. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu frsm. meiri hl. iðnn. náðist ekki samstaða í nefndinni um afgreiðslu þessa frv. Við í minni hl., hv. 11. landsk. þm. og hv. 2. þm. Reykn. ásamt mér, skilum sérstöku nál. Það hefði mátt ætla að ekki hefði þurft að vera ágreiningur í þessu máli. Það hefur hér í umr. fyrr verið höfðað til þess, að nauðsynlegt væri að hafa samstöðu í málinu. En samt hefur það ekki tekist. Það er vegna þess að málatilbúnaður hæstv. ríkisstj. í þessum málum er slíkur að það mundi sýna mikið ábyrgðarleysi af hálfu okkar í stjórnarandstöðunni ef við féllumst á slíka málsmeðferð í svo þýðingarmiklu máli.

Við verðum í þessu sambandi og ekki síst þegar um mál eins og orkumálin er að tefla að hafa í huga hvað það er sem við erum að miða að. Við verðum að hafa í huga að það er markmið okkar að efla hagsæld og velferð þjóðarinnar. En til þess þarf að auka þjóðarframleiðsluna sem er eina örugga undirstaða batnandi lífskjara í landinu. Þetta er þeim mun brýnna að hafa í huga sem flestir eru sammála um að lífskjörin séu nú lakari hér á landi en í nágrannalöndunum. Greinilegt sjúkdómseinkenni er t. d. búferlaflutningur Íslendinga til annarra landa sem við höfum orðið að horfa upp á á undanförnum árum. Staðreyndin er að það hefur dregið úr vexti þjóðarframleiðslunnar að undanförnu. Þó að fjárfestingin sé mikil skilar hún of lítilli framleiðsluaukningu. Á sama tíma fjölgar fólki stöðugt við atvinnustörf, þannig að eitthvað hlýtur að vera bogið við arðsemi fjárfestingarinnar eða framleiðniþróunina í landinu. Hér er því brýnt viðfangsefni við að fást. Mér þykir rétt að vekja athygli á þessum undirstöðuatriðum, einmitt þegar við ræðum um frv. það sem hér er á dagskrá, vegna þess að ásamt gæðum lands og sjávar eru orkulindirnar þau gæði sem okkur eru verðmætust.

Þrátt fyrir þær miklu framfarir, sem orðið hafa á þessari öld, höfum við ekki enn þá beislað 10% af nýtanlegri vatnsorku landsins. Augljóst er að Íslendingar eiga í orkulindum sínum stórkostleg náttúruauðæfi sem þar að auki eru óþrjótandi, en annars staðar í heiminum fæst meginhluti orkunnar úr lífrænu eldsneyti sem gengur óðum til þurrðar. Það er því höfuðatriði að nýta þessa miklu auðlegð, sem fólgin er í orkulindum landsins, til þess að örva hagvöxtinn.

Samkeppnisaðstaða íslenskrar vatnsorku hefur stórbatnað vegna þverrandi orku og hækkandi orkuverðs í heiminum. Um leið fer þeim stöðugt mjög fækkandi sem boðið geta ódýra vatnsorku. Það má því orða þetta svo, að komið sé að nýjum þáttaskilum í íslenskri hagsögu. Það er þetta sem liggur til grundvallar umræðum um orkufrekan iðnað og stóriðju. Þetta ber að hafa í huga þegar metið er hve stór átök beri nú að gera í virkjunarmálum okkar Íslendinga. Þá horfum við fram til gjaldeyrisöflunar í útflutningi orkunnar í formi iðnaðarvöru og til þeirra möguleika til gjaldeyrissparnaðar sem geta verið fólgnir í orkulindum landsins, í framleiðslu innlends eldsneytis. En leiðin til þess eru stórvirkjanir í fallvötnum landsins.

Frv. það, sem hér er fjallað um, verður að skoða í fjósi þess, hvernig það má þjóna þeim þörfum í orkumálum landsins sem ég hef hér lagt áherslu á. Á þann mælikvarða er frv. þetta léttvægt fundið. Það er ekki til þess fallið að stuðla að stórátaki í virkjunarmálunum. Það markar enga stefnu í orkumálunum, heldur ber vott umsýndarmennsku og vingulshátt.

Í frv. þessu eru taldar upp nokkrar stórvirkjanir og virkjunaráfangar sem samtals mundu jafngilda stórátaki í virkjunum ef til framkvæmda kæmu. En af frv. sjálfu verður ekki séð að mikil áhersla sé lögð á framkvæmdir þær sem þar eru taldar upp. Kemur þar margt til.

Engar afdráttarlausar heimildir er að finna í frv. til virkjunaraðila, svo sem venja er í heimildarlögum um virkjanir. Þetta þýðir að þótt frv. yrði að lögum þarf þannig sérstakt samþykki ríkisstj. fyrir því, að Landsvirkjun mætti stækka Hrauneyjafossvirkjun og Sigölduvirkjun og virkja við Sultartanga. Ríkisstj. áskilur sér stöðvunarvald í þessum virkjunarframkvæmdum þótt Alþingi veiti heimild til þeirra. Ég bið menn að athuga þetta og gera það upp við samvisku sína, hvort þeir geta viðhaft slík vinnubrögð sem hér er ráð fyrir gert og ekki eru dæmi fyrir áður, þegar um heimildarlög hefur verið að ræða til virkjunarframkvæmda.

En svo slæmt sem frv. er varðandi framkvæmdir á núverandi virkjunarsvæði Landsvirkjunar tekur ekki betra við um þær virkjanir sem ætlaðar eru utan þess svæðis. Bið ég menn nú, hv. þm., að taka eftir ef þeir vilja hafa það sem sannara reynist í þessum efnum. Í frv. stendur að ríkisstj. heimilist að semja við Landsvirkjun um að reisa og reka Blönduvirkjun og Fljótsdalsvirkjun. Ekkert er kveðið á um hvað ske muni ef þessir samningar takast ekki. Það er ekkert kveðið á um það, rétt eins og þá ætti ekkert að verða af þessum framkvæmdum. Ég er ekki að segja að það sé hugsunin, en þannig er þetta samkv. bókstaf frv. Svo bögglingsleg lagasmíði sem þetta er að sjálfsögðu til komin vegna þess að gefist hefur verið upp við að lögfesta hlutverk Landsvirkjunar um allt land sem aðalorkufyrirtækis. Það hefur verið gefist upp við þetta viðfangsefni. Þetta ber vott um ráðleysi í skipulagsmálum orkuframleiðslunnar.

Í frv. er ekkert sem kveður á um að undirbúningi að byggingu orkuveranna svo og framkvæmdunum sjálfum skuli hraðað svo sem kostur er, ekkert um þetta efni. Af því má ætla að hægagangur verði á öllu. Þess gerist ekki heldur þörf að fara geyst í framkvæmdir ef orkunýtingarstefnan er sú að fullnægja einungis þörfum til heimilisnota, húshitunar og almenns iðnaðar. Ef þetta er tilfellið er upptalning frv. á stórvirkjunum þeim, sem þar greinir, hins vegar sýndarmennskan ein.

Aftur á móti er frv. algerlega óraunhæft ef ætlunin væri að reisa á 10 árum eða svo þær stórvirkjanir sem frv. fjallar um. Þá er það algerlega óraunhæft því að í frv. er ekki gert ráð fyrir stóriðju svo sem nauðsyn er fyrir stórátaki í virkjunarmálunum.

Að svo miklu leyti sem frv. markar nokkra stefnu er þar tekinn versti kosturinn. Þar er ekki um að ræða framkvæmdir sem eru einungis miðaðar við almennar þarfir heimilisnotkunar, húshitunar og almenns iðnaðar. Þar er ekki heldur gert ráð fyrir stóriðju sem er grundvöllur fyrir stórátaki í virkjunarmálum. Valinn er versti kosturinn, stórvirkjanir án nauðsynlegs orkumarkaðar sem stóriðjan ein getur skapað. Slík stefna eða réttara sagt stefnuleysi leiðir til sjálfheldu í orkumálum þjóðarinnar.

Staðan í orkumálunum í dag blasir þannig við, að fálm og hik iðnrh. hindrar virkjun Blöndu. Bein andstaða ráðh. við stóriðju kemur í veg fyrir Fljótsdalsvirkjun. Frv. ríkisstj. boðar lögfestingu á aðgerðaleysinu. Þannig svarar þetta frv. ekki þeim kröfum sem til þess verður að gera ef hugur á að fylgja máli um allt talið um hagnýtingu orkulinda landsins til að efla hagsæld og velferð þjóðarinnar.

Við í minni hl. n. viljum freista þess að koma fram lagfæringum á þessu frv. Við viljum gera allt sem í okkar valdi stendur til að fá þessum mikilvægu málum komið í það horf að grundvöllur sé fyrir því að menn standi saman í því stórmáli sem hér er um að ræða. Þess vegna berum við, sem erum í minni hl. í n., fram brtt. ásamt öðrum þm. stjórnarandstöðunnar hér í hv. deild þar sem við viljum freista þess að koma á nokkrum lagfæringum við þetta frv.

Hv. 2. þm. Reykn. mun gera grein fyrir þessum sameiginlegu brtt. stjórnarandstöðunnar svo að ég vík ekki að þeim af þeim ástæðum. Segja má að það hefði hins vegar verið ástæða til að ræða þessi mál miklu ítarlegar við þessa umr. heldur en ég hef þegar gert. En ég leyfi mér að vísa til þess sem ég sagði í gær við 1. umr. málsins. Þar vék ég efnislega að ýmsum þáttum frv., sem ég hef ekki komið hér að í trausti þess, að hv. þdm. hafi lagt sér það vel á minni sem þá var sagt. (Gripið fram í.) Í fyrradag, mér varð mismæli, en ég vona að ummæli mín standist eins fyrir því og sérstaklega traust það sem ég ber til minnisgáfu hv. stjórnarþm. og ráðh., að þeir muni muna það sem hér var sagt við 1. umr. málsins þó að það hafi verið s. l. laugardag, en ekki í gær.

Ég vil svo aðeins segja það, að við munum greiða atkv. gegn frv. ef þessar brtt., sem stjórnarandstaðan flytur á sérstöku þskj., ná ekki fram að ganga.