25.05.1981
Efri deild: 123. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 5002 í B-deild Alþingistíðinda. (5350)

320. mál, raforkuver

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég get nú haft þau orð um þetta mál eins og þegar ég talaði hér við 1. umr., að margt mætti um það segja til viðbótar því sem fram hefði komið hér í hv. þd. En ég ætla nú sem fyrr að takmarka mig við örfá atriði sem ég tel eðlilegt að víkja að í framhaldi af máli þriggja hv. stjórnarandstæðinga sem hér hafa talað við umr. Eru það aðeins örfá atriði af mörgum sem ástæða væri til að gera aths. við.

Varðandi nál. hv. minni hl. iðnn. er það að segja, að þar gefa þeir, sem að því standa, þá forsendu, að það eigi ekki að vinna að mörkun orkunýtingarstefnu og það felist ekkert fyrirheit þar að lútandi í frv. ríkisstj. um raforkumál. Það ætti nú að hafa komið nógu skýrt fram, að einmitt með þessu frv. er lagt fyrir með skýrum hætti að ríkisstj. ætlar að beita sér fyrir slíkri stefnumörkun og að henni er nú unnið. En það, sem greinir á fyrst og fremst við hv. stjórnarandstöðu, er með hvaða hætti staðið verði að slíkri stefnumörkun og í hverju hún eigi að felast. Þetta kemur skýrast í ljós í sambandi við brtt. hv. stjórnarandstæðinga jafnt í Nd. sem hér í hv. Ed., þar sem þeir sjá þetta fyrir sér í því formi að sett verði á fót sérstök orkusölunefnd. Það má skilja af máli þeirra, að þessari nefnd sé ætlað að leita að væntanlegum kaupendum erlendis frá að þeirri orku sem hér yrði framleidd. Þetta er ekki sú íslenska orku- og orkunýtingarstefna sem ég hef hér mælt fyrir og mörkuð er í stjórnarsáttmála ríkisstj. Þarf ekki að eyða út af fyrir sig að því fleiri orðum, að þarna greinir vissulega á og það verulega í þessum efnum. Vil ég tengja það við þá fsp. sem hv. 11. landsk. þm. bar hér fram í sambandi við spurninguna um breiða samstöðu í þessum efnum. Hjá öllum hv. alþm. er áhugi á að ráðast í nýtingu okkar orkulinda, halda henni áfram og herða þar frekar á en hitt. Menn hafa áhuga á því að virkja, og ég vænti að samstaða geti tekist um þá stefnu, sem mörkuð er með frv., að dreifa virkjunum um landið. Um hitt er greinilega ágreiningur, með hvaða hætti menn vilja marka stefnu að nýtingu orkunnar. Ég vænti þess, að skoðanaskipti haldi áfram um þetta og þau geti leitt til niðurstöðu þannig að breið samstaða megi takast um að standa að nýtingu þessara dýrmætu auðlinda okkar, orkulindanna, í framtíðinni og yfirráð yfir þeim og þeim fyrirtækjum, sem reist verða í krafti þeirra, verði ótvírætt á íslenskri hendi.

Ég vil aðeins nefna eitt atriði, sem kom fram í máli frsm. minni hl. iðnn., hv. 4. þm. Vestf., þegar hann gerir aths. við að ríkisstj. geti heimilað Landsvirkjun að ráðast í tilteknar virkjanir og framkvæmdir á sínu orkuveitusvæði. Það mátti skilja af máli hv. þm., að þetta stangaðist á við það sem kveðið er á í lögum um Landsvirkjun. Þetta er hins vegar á misskilningi byggt. Það er ótvírætt kveðið á um það í 7. gr. laga um Landsvirkjun, að þó að fyrirtækinu sé heimilað samkv. 7. gr. að ráðast í tilteknar framkvæmdir, sem þar er kveðið á um, þá skuli leita samþykkis viðkomandi ráðh. á þeim framkvæmdum áður en í þær verði ráðist. Þarna er enginn munur á þeirri stefnu, sem hér er mörkuð í sambandi við þetta efni, og gildandi lögum um Landsvirkjun, því í báðum tilvikum þarf samþykki viðkomandi stjórnvalda að koma til þó að Alþingi fyrir sitt leyti hafi veitt tilteknar heimildir.

Hv. 2. þm. Reykn. mælti hér mjög með svipuðum hætti og hv. 4. þm. Vestf., enda virðist bera mjög lítið á milli stjórnarandstöðuflokkanna í þessu stórmáli eins og mörgum öðrum. Þeir þjappa sér býsna fast saman, Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu og Alþfl., og er út af fyrir sig ekkert um það að segja, en það er athyglisverð staðreynd. Hv. 2. þm. Reykn. vildi túlka þær tölulegu athuganir sem fram koma frá Þjóðhagsstofnun í sambandi við framkvæmdaáform í raforkumálum næstu tíu árin, raforkumálum og iðnaðaruppbyggingu er tengist orkuframleiðslu, hann vildi túlka það svo sem þarna væri verið að draga úr frá því sem áður hefur verið. Ég andmæli þessu og tel að þær niðurstöður, sem þarna eru fram reiddar, beri vott um að gert sé ráð fyrir svipaðri ráðstöfun fjármagns í því dæmi, sem þarna liggur að baki, og verið hefur á síðustu tíu árum. Hér er hins vegar ekki um neina fastmótaða stefnu að ræða, þetta er aðeins talnadæmi til þess að hægt sé að gera sér ljóst hvert verið er að fara. Og það, sem liggur þarna að baki, er fskj. 1 með þessu frv., sem gerir ráð fyrir tilteknum virkjunarframkvæmdum og orku umfram almennan markað sem nemur um 1800 gwst., og það er lagt til grundvallar að fjárfesting í iðnaði fyrir hverja framleidda orkueiningu, fyrir hverja gwst. nemi 1.5 millj. nýkr. Þá koma út þær tölulegu niðurstöður sem þarna liggja að baki. Það er sem sagt gert ráð fyrir því í þessu dæmi, að orkufrekur iðnaður í landinu eða ígildi hans sé tvöfaldað á næstu tíu árum. Ég held að það sé fróðlegt fyrir menn að hafa slíkt dæmi fyrir framan sig þegar lítið er til þessara mála. Auðvitað þarf að fara betur yfir þau og það er að sjálfsögðu komið undir því, hvaða viðfangsefni menn finna, hagkvæm viðfangsefni á þessu sviði, hversu hratt beri að fara.

Hv. 11. landsk. þm. beindi til mín fsp. m. a. varðandi nýtingu á þeim 50 millj. kr. sem óskað er heimildar fyrir í ár til viðbótar því fjármagni sem gert var ráð fyrir samkvæmt fjárlögum og fjárfestingar- og lánsfjáráætlun 1981. Það liggur að baki þessu ákveðin áætlun. Hér er um hámarkstölu að ræða, eins og ég gat um við 1. umr. þessa máls, og það er undir því komið m. a. hvort rétt verður talið að ráðast í könnunarjarðgöng vegna næstu vatnsaflsvirkjunar á eftir Hrauneyjafossi á þessu ári, hvort nauðsynlegt verður að nýta þessa heimild að fullu. Ég hef þessar tölur ekki fyrir framan mig, en það liggur fyrir að verulegur meiri hluti þessarar upphæðar, að könnunarjarðgöngum frátöldum, mundi renna til áframhaldandi rannsókna og undirbúnings vegna Fljótsdalsvirkjunar. Talsverður hluti þessa fjár eða líklega um þriðjungur mundi svo renna til undirbúnings og rannsókna vegna Blönduvirkjunar. Þetta eru mjög grófar upplýsingar, viðurkenni ég, en þetta er mælt hér eftir minni. Ofan í þessi mál verður farið nánar af rn. og ríkisstj. nú eftir að þetta frv. væntanlega verður samþykkt og er orðið að lögum.

Þá spurði hv. 11. landsk. þm. hvað yrði lagt til grundvallar í sambandi við ákvarðanir mála á haustþingi, sem ráð et fyrir gert að teknar verði. Þar verður að sjálfsögðu byggt á framhaldsathugun þessara mála og, eins og kveðið er á um í frv, eins og það nú liggur fyrir, að tekið verði tillit til þjóðhagslegra aðstæðna og aðstæðna í raforkukerfi landsins. Varðandi hið síðasttalda er að sjálfsögðu sérstaklega haft í huga öryggissjónarmið raforkukerfisins. Og vegna þess að menn hafa látið að því liggja — út af fyrir sig með réttu — að það skipti auðvitað máli hvar hugsað sé til þess að reisa orkufrekan iðnað eða slík fyrirtæki á komandi árum, þá er það auðvitað undir því komið, hvaða stefnumörkun menn binda sig við í þeim efnum. Það liggur fyrir í öllum tilvikum að ef lítið er til hagkvæmni viðkomandi virkjunar, þá er hún meiri, þá eykst hún að tiltölu ef hagkvæmt iðnfyrirtæki er sett niður í næsta nágrenni. Þessi mát þarf að skoða í samhengi á næstu mánuðum þegar nánari áætlanir eru gerðar um þessi efni.

Tilgangurinn með vatnaveitunum á Þjórsársvæðinu er að sjálfsögðu, eins og fram er tekið í frv., að auka öryggi og bæta nýtingu þeirra vatnsaflsvirkjana sem þegar eru reistar, og ætti ekki að vera um það ágreiningur, jafnhagkvæmar og sjálfsagðar framkvæmdir sem þarna eru á ferðinni. Og þær eiga jafnframt að tryggja að unnt verði að standa við það stefnumið, að næsta vatnsaflsvirkjun á eftir Hrauneyjafossi komist í gagnið utan eldvirkra svæða, eins og kveðið er á um í stjórnarsáttmála.

Herra forseti. Þetta voru örfá atriði af mörgum sem ástæða hefði verið til að víkja hér að við þessa umr. En ég vil ekki ganga hér á tíma hv. deildar og orðlengi þetta ekki frekar, vænti að ég hafi vikið hér að atriðum sem mönnum þykir betra að hafa fengið viðbrögð við en ekki.