25.05.1981
Efri deild: 123. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 5005 í B-deild Alþingistíðinda. (5351)

320. mál, raforkuver

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það verður að teljast framför í málflutningi hæstv. iðnrh., að hann tileinkaði sér ekki það orðalag sem tamt hefur verið ýmsum stjórnarsinnum, þ. á m. hæstv, ráðh., að vitna til útreikninga frá Þjóðhagsstofnun, sem birtast hér í fskj., sem álits Þjóðhagsstofnunar. Eins og ég rakti hér áður er alls ekki hægt að tala um að hér liggi fyrir álit frá Þjóðhagsstofnun, heldur einungis talnaútreikningur á dæmi sem kemur fram í tilteknu fskj. með þessu frv. Ég leyfði mér áðan að nefna þetta fylgiskjalsstefnuna vegna þess að það liggur ekki fyrir hvort um stefnu ríkisstj. sé að ræða. Hæstv. iðnrh. staðfesti að hér var rétt að farið hjá mér, því að hann tók fram að í þessu dæmi fælist ekki stefna ríkisstj., hér væri einungis um dæmi að ræða. Ég held því að þegar við ræðum um þetta atriði sé rétt að gera það undir því formerki að kalla þetta fylgiskjalsstefnuna.

Hæstv. ráðh. talaði um að hér væri um það að ræða að fylgja þeim virkjunaráföngum sem kæmu fram í fskj. I. Auk þess sem þegar er um talað varðandi Hrauneyjafoss er þar um að ræða 400 mw. í uppsettu afli á þessu tíu ára tímabili. Þar er þess vegna ekki um að ræða alla Fljótsdalsvirkjun. Ég vil einungis vekja athygli á þessu, vegna þess að þær heimildir, sem hér er farið fram á, varða langtum meira afl samanlagt en þau 400 mw. sem hér um ræðir. Einhver lagði saman og fékk út 800 samtals í heimildum. En það, sem hér er rakið í þessu fskj. sem stefna, sem ekki er þó stefna ríkisstj., svarar til um 400 mw. í uppsettu afli á þessu tíu ára tímabili. Ég vil þess vegna ekki að menn haldi að þegar ráðh. er hér að tala um tíu ára framkvæmdatímabil, þá sé hann í rauninni að tala um það sama og við hinir sem höfum talað um að ljúka öllum þessum virkjunum, þessum þremur umræddu virkjunum, á tíu ára tímabili.

En varðandi þau fskj., sem hér um ræðir, leyfði hæstv. iðnrh. sér að draga í efa það sem ég vakti sérstaklega athygli á varðandi framkvæmdahraða samkvæmt þeim talnagögnum sem Þjóðhagsstofnun hefur unnið fyrir iðnrh. Ég vil bara benda mönnum á að það liggur augljóslega fyrir í töflu á bls. 153, að orkuframkvæmdir alls sem prósent af vergri þjóðarframleiðslu hafa á árunum 1975–81, sem er þetta næstliðna tímabil, verið að meðaltali 5.44% af vergri þjóðarframleiðslu. Það þarf ekki annað en leggja þennan talnadálk saman, þá kemur út 38.1, og deila í það með 7 og þá eru komnir 5.44. Í fylgiskjalsstefnunni er hins vegar gert ráð fyrir, samkvæmt því sem segir á bls. 155, að þetta sé á bilinu 3.3–3.7%. Þess vegna finnst mér ekki rétt af iðnrh. að hafa uppi nein mótmæli í þessum efnum. Það sést líka mjög glögglega af þessum fskj. hver fjárfestingin hefur verið í orkufrekum iðnaðarframkvæmdum þegar þær hafa verið í gangi. Á þessu næstliðna tímabili, þegar unnið var við stækkun á ÍSAL annars vegar og uppbyggingu í Hvalfirðinum, þá var hér um að ræða 1.4, 1.6, 1.6, 1.5 og 1.2 prósent af vergri þjóðarframleiðslu. Meðaltal þessara ára er, eins og ég gat um, 1.43% af vergri þjóðarframleiðslu. Það er því alveg augljóst, að á því árabili, sem ég vitnaði hér til, hefur fjárfestingin í orkuframkvæmdum verið mun minni en gert er ráð fyrir í þessari fylgiskjalsstefnu. Og ef framkvæmdir í orkufrekum iðnaði eiga að fylgjast að og þetta er tekið saman, þá er mismunurinn milli 30 og 40%, sem óhætt er auka virkjunarhraðann umfram það sem gert er ráð fyrir í fylgiskjalsstefnunni, bara til þess að ná því hlutfalli af vergri þjóðarframleiðslu sem hér um ræðir og hefur verið undanfarið.