25.05.1981
Efri deild: 124. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 5008 í B-deild Alþingistíðinda. (5363)

320. mál, raforkuver

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það er misskilningur, að þessi till. sé flutt í samræmi við óskir Austfirðinga. Austfirðingar hafa fyrst og fremst lagt áherslu á það að fá að njóta jafnréttis í ákvörðunum um virkjanir. Hins vegar hafa nokkrir þm. hér í vetur, með Egil Jónsson og Sverri Hermannsson í broddi fylkingar, gert ítrekaðar tilraunir — og nú síðast hér í dag — til þess að skilyrða ákvörðun um Fljótsdalsvirkjun því, að þá þegar sé búið að semja um nýtingu orkunnar. Slík stefna mundi jafngilda því, að ákveðið væri hér og nú að ráðast í aðrar virkjanir á undan Fljótsdalsvirkjun, t. d. að Blönduvirkjun yrði á undan Fljótsdalsvirkjun. Ég tel, að slík afstaða sem hv. þm. Egill Jónsson o. fl. hafa barist fyrir sé ekki í samræmi við hagsmuni eða sjónarmið Austfirðinga, og vil styðja að því, að virkjunarmál Austfirðinga fái áframhaldandi skoðun á jafnréttisgrundvelli við aðra landshluta, og segi því nei.