13.11.1980
Sameinað þing: 19. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 681 í B-deild Alþingistíðinda. (539)

51. mál, bygging útvarpshúss

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Að ræða málefni Ríkisútvarpsins á hinu háa Alþingi er að vera eins og hrópandinn í eyðimörkinni. Ég verð að hryggja hv. flm. þeirrar ágætu till., sem hér er til umr., með því, að hann talar líklega fyrir jafndaufum eyrum og ég hef gert hér frá því að ég kom inn á þing og byrjaði að reyna að ýta á eftir þessu máli. Að vísu hefur mönnum snúist hugur, a.m.k. nokkrum þeim sem gegn þessu máli hafa talað, ekki hér í þingsölum, heldur í bakherbergjum, og skoðun mín er sú, að þetta mál strandi á örfáum embættismönnum og örfáum stjórnmálamönnum.

Það nær ekki nokkurri átt, að einhver merkasta menningarstofnun þessarar þjóðar skuli kúldrast í þeim kytrum sem hún gerir í dag.

Ég vil þakka flm. fyrir flutning þessarar till. Svona till. þyrfti nánast að flytja á þessu háa Alþingi á hverjum degi ef skriður ætti að komast á málið.

Ég vil minna menn á það, að það tók Framkvæmdastofnun ekki langan tíma að reisa stórhýsi við Rauðarárstíg í Reykjavík. Af hverju skyldi það hafa verið? Það var vegna þess að þeir menn, sem þar störfuðu, þekktu húsakynni sem þeir unnu í, og þeir vildu fá betri húsakynni. Þess vegna vildi ég nú gera það að till. minni, að hæstv. forseti Sþ. beitti sér fyrir því, að helstu andstæðingar smíði útvarpshúss fengju að starfa í leyfi frá þingi — þó ekki væri nema einn dag — í Ríkisútvarpinu, hljóðvarpi. (Gripið fram í: Hverjir eru það?) Ætli það komi ekki í ljós við umr. þessa máls.

Ég vil minna á það, að sorgarsaga Ríkisútvarpsins er gömul. Hana má rekja allt aftur til daga Jónasar Þorbergssonar. Jónas Þorbergsson lét af miklum stórhug teikna glæsilegt útvarpshús. Lóðin var tilbúin, hún var á Melunum. Færustu arkitektar og hljóðfræðingar voru fengnir til verksins. Teikningarnar voru unnar fyrir stórfé, líkan var gert. Líkanið er nú í kjallara Vatnsendastöðvarinnar á Vatnsendahæð. Teikningarnar rykfalla einhvers staðar. Ég óttast mjög, að þessi saga ætli að endurtaka sig núna vegna skilningsleysis stjórnmálamanna og ekki síst embættismanna á mikilvægi þessarar stofnunar.

Ég hef alltaf litið svo á, að afskipti fjmrn. af fjárreiðum Ríkisútvarpsins hafi nálgast það að vera lögbrot. Ég hef litið svo á, að Framkvæmdasjóður Ríkisútvarpsins hafi raunverulega verið tekinn eignarnámi, og ég tel fráleitt að nokkrir embættismenn, sem ég vil fullyrða að hafa mjög takmarkað vit á málefnum Ríkisútvarpsins, geti stöðvað þetta mál á þann hátt sem gert hefur verið.

Það kom skýrt fram hjá flm. þessarar till., að Ríkisútvarpið hefur yfir að ráða umtalsverðu fjármagni, en hið háa Alþingi hefur á undanförnum árum sífellt verið að ganga á tekjustofna Ríkisútvarpsins, eins og tekjur af innflutningi sjónvarpstækja og fleira slíkt.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta mál, herra forseti. En ég vil hvetja til þess, að menn reyni nú að taka saman höndum á 50 ára afmæli Ríkisútvarpsins og stuðla að því, að hægt verði að dæla vatninu upp úr grunninum stóra og fara a.m.k. að gera þar sökkla, þó ekki væri annað, og láta ekki úrtölumenn og svartagalssrausara stöðva þessa framkvæmd eins og gerst hefur. Ég vil líka af þessu tilefni þakka hæstv. menntmrh. fyrir þann skilning sem hann hefur sýnt á þessu máli. Hann hefur nýverið skrifað fjvn. bréf og reynt að ýta á eftir því að framkvæmdir gætu hafist við smíði útvarpshúss. Það er að vísu dálítið sérkennilegt, að ráðh. skuli rita fjvn., eftir að fjárlagafrv. er komið í hendur þingsins, um slíkt mál. Auðvitað hefði átt að ganga frá því máli innan ríkisstj. áður en fjárlagafrv. var sent þinginu. Engu að síður tek ég viljann fyrir verkið í þessu máli, og ég geri ráð fyrir að menntmrh. sé áfram um það að geta fært Ríkisútvarpinu þá gjöf á 50 ára afmæli þess, að heimilað verði að hefja smíði á útvarpshúsi.

Ég vann sjálfur í þessari stofnun í 11 ár. Ég veit alveg hvað ég er að tala um. Ég veit um þau þrengsli, ég þekki þau þrengsli sem þar eru, og ég fæ ekki skilið hvernig menn geta gert þær kröfur til Ríkisútvarpsins, hljóðvarps sem þeir gera í dag og ætlast til þess að séu uppfylltar á þeim forsendum sem fyrir hendi eru.

Ég vil eingöngu í þessu máli skora á hið háa Alþingi að sýna þessari stofnun, einhverri merkustu menningarstofnun þjóðarinnar, þá virðingu og þá tillitssemi á hálfrar aldar afmæli að leyfa henni í fyrsta skipti í 50 ár að byggja yfir sig. Ríkisútvarpið hefur frá upphafi verið á hrakhólum með húsnæði. Það leigði hjá Landssímanum eða Pósti og síma í Landssímahúsinu, það leigði hjá Silla og Valda á Klapparstíg, það leigir núna hjá Hafrannsókn, og Hafrannsóknastofnunin hefur fulla þörf fyrir það húsnæði sem Ríkisútvarpið notar nú. Sýnið þið þess vegna þeirri stofnun, sem við státum af sem menningarþjóð, góðri og merkri stofnun sem vinnur sitt verk frá 6 á morgnana til 11 og 12 á kvöldin, — sýnið henni þá virðingu að leyfa henni að hefja smíði á eigin húsi. Það væri verðug gjöf Alþingis til Ríkisútvarpsins á hálfrar aldar afmælinu.