25.05.1981
Sameinað þing: 89. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 5021 í B-deild Alþingistíðinda. (5396)

324. mál, fangelsismál

Að því er varðar sérstaka þætti fyrirspurnarinnar skal eftirfarandi tekið fram:

a) Stofnun vinnuhælis fyrir unglinga. Skv. 43. gr. alm. hegningarlaga má ákveða með reglugerð að fangar, sem dæmdir hafa verið í fangelsi innan 22 ára aldurs, skuli hafðir sér í fangelsi eða fangelsisdeild og látnir sæta annarri meðferð en aðrir fangar, og skv. lögum um fangelsi og vinnuhæli frá 1973 skal reka sérstakt unglingavinnuhæli. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um að reisa slíkt unglingavinnuhæli, enda skiptar skoðanir meðal fræðimanna um hversu heppilegt sé að skilgreina fanga sérstaklega eftir aldri. Segja má þó að vísir hafi verið að slíku unglingavinnuhæli þar sem er vinnuhælið að Kvíabryggju, en þar hefur verið reynt að vista þá unglinga sem eru að koma í fyrsta sinn til afplánunar og ekki hafa slíkan brotaferil að baki sér að líklegt sé að þeir verði ekki hafðir í svo opnu fangelsi sem Kvíabryggja er. Á Kvíabryggju hafa reyndar einnig verið vistaðir eldri fangar, en þá að jafnaði einungis þeir sem eru í fyrstu afplánun og ekki eru taldir harðnaðir síbrotamenn. Ráðuneytið telur að stofnun slíks unglingavinnuhælis verði að bíða þess að leyst hafi verið önnur brýnni úrlausnarefni í fangelsismálunum, nema sérstakar aðstæður séu fyrir hendi sem gera það æskilegt að koma slíku vinnuhæli á fót, eins og t. d. ef Krýsuvíkurskólanum yrði breytt í unglingavinnuhæll.

b) Vistun geðsjúkra fanga. Hér er um að ræða óleyst vandamál og segja má í stuttu máli að ráðuneytið telji þá lausn æskilegasta að komið verði upp sérstakri stofnun fyrir geðsjúka fanga í nálægð við sjúkrastofnun og í samvinnu við heilbrigðisyfirvöld þannig að slíkri stofnun yrði þjónað bæði af fangelsisyfirvöldum og heilbrigðisyfirvöldum. Einnig þyrfti að vera aðstaða til þess að vista á slíkri stofnun þá sem eru úrskurðaðir til að sæta geðrannsókn vegna brota og möguleiki á að vista þar hættulega geðsjúklinga sem hin almennu geðsjúkrahús eiga í erfiðleikum með að vista. Ráðuneytið telur þetta með brýnustu úrlausnarefnum á sviði fangelsismálanna. Um vistun geðsjúkra fanga er einnig fjallað í þingsályktun um geðheilbrigðismál, skipulag og úrbætur, sem nýverið hefur verið samþykkt.

c) Endurhæfing innan fangelsanna. Ekki eru önnur áform uppi um endurhæfingu innan fangelsanna en þau að efla kennslu fyrir fanga og þá einkum á grunnskóla- og iðnskólastigi.

d) Kvennafangelsi. Þeir kvenfangar, sem nú þurfa að afplána lengri fangelsisdóma, eru nú vistaðir í ríkisfangelsisdeildinni í lögreglustöðinni á Akureyri. Sé um mjög langa dóma að ræða, þ. e. a. s. dóma sem hljóða upp á fangelsi meira en 1 ár, er óæskilegt að hafa ekki annan stað en deildina á Akureyri til vistunar slíkra fanga. Gert er ráð fyrir því, að í gæsluvarðhaldsfangelsinu, sem reisa á við Tunguháls, verði sérstök kvennadeild og má gera ráð fyrir að allir algengir fangelsisdómar kvenfanga kæmu til afplánunar þar, en til að leysa þau vandamál, sem koma upp þegar kvenfangi þarf að afplána e. t. v. allt að 8 ár í fangelsi, er nauðsynlegt að leita nýrra ráða og kemur þá helst í hug að afla húsnæðis til kaups eða leigu einhvers staðar á Suðurlandi til þess að reka slíka kvenfangelsisdeild í. Þar sem fangar í slíkri fangelsisdeild verða væntanlega sárafáir þyrfti ekki stórt húsnæði eða fjölmennt starfslið til þess að annast slíka fangelsisdeild. Mætti væntanlega koma slíku fangelsi í rekstur án umtalsverðs stofnkostnaðar og reka það með tiltölulega litlum kostnaði.